Við erum dottin úr allri rútínu hér heima og hegðum okkur eins og við séum í sumarfríi, þrátt fyrir að vera ekki komin í frí. Ég hef hvorki gert vikumatseðil né vikuinnkaup í hálfan mánuð og finnst ég alltaf vera úti í búð að vandræðast með kvöldmatinn. Síðan vökum við frameftir á kvöldin, grillum, opnum rauðvín og látum eins og enginn sé morgundagurinn. Dálítið gaman þrátt fyrir örlítið þreytta morgna.
Eitt af því fáa sem heldur dampi hér heima þessa dagana er mánudagsfiskurinn. Þessi einfaldi fiskréttur var sérlega góður og er bara gerður á einni pönnu, sem hentar vel þegar maður vill halda frágangi og uppvaski í lámarki. Ég mæli með að prófa hann!
Fiskur í sweet chilí
- 1 púrrlaukur
- 1 rauð paprika
- 1 dós sýrður rjómi
- 2,5 dl. rjómi
- 0,5 dl rjómaostur
- 1 dl sweet chilí sósa
- 1/2 tsk chili krydd
- 1/2 tsk chiliflögur
- 1 kjúklingateningur
- salt
- 900 g þorskur eða ýsa
Hakkið laukinn og skerið paprikuna í bita. Steikið laukinn mjúkan í smjöri og bætið síðan paprikunni á pönnuna og steikið aðeins áfram. Bætið öllum öðrum hráefnum fyrir utan fiskinn á pönnuna á látið sósuna sjóða saman í nokkrar mínútur. Bætið fiskinum á pönnuna og látið sjóða saman í 5-6 mínútur. Smakkið til með salti.
Rosalega góð sósan í þessum rétti. Súper einfalt og allir glaðir 😊
Gaman að heyra 🙂
>