Kjúklingakúskús með sweet chili

Kjúklingakúskús með sweet chili

Í gærmorgun hélt Öggi til vinnu eftir jólafrí en ég nýt góðs af því að vera í fríi til 2. janúar. Mér þykir það æðislegur lúxus að geta verið hér heima á náttfötunum fram eftir degi með krökkunum í jólafríinu þeirra. Í gær var heldur engin venjulegur dagur því strákarnir áttu afmæli. Við héldum afmælisveislu um síðustu helgi og í gær fórum við út að borða og síðan biðu afmælisgjafir og gleði hér heima eftir það.

Kjúklingakúskús með sweet chili

Við erum búin að eiga yndisleg jól. Höfum borðað mikið, sofið mikið, lesið jólabækurnar, farið út á sleða og í gönguferðir á milli þess sem við klæddum okkur upp og fórum í jólaboð. Núna tek ég árs fríi frá jólamat fagnandi, enda búin að borða yfir mig og vel það af jólamat undanfarna daga. Í kvöld verður kjúklingur hér á borðum og uppskriftin er ekki af verri endanum. Hún kemur úr bók sem ég pantaði mér á netinu fyrir ári síðan og hefur verið mikið notuð síðan þá. Ég mæli svo sannarlega með réttinum enda bæði einfaldur og æðislega góður.

Kjúklingakúskús með sweet chili

Kjúklingakúskús með sweet chili (uppsrift úr Arla kökets bästa)

 • 500 g kjúklingafilé
 • 4 dl vatn
 • 1 teningur kjúklingakraftur
 • 4 dl kúskús
 • 1-2 púrrulaukar
 • 2 hvítlauksrif
 • smjör
 • 2 dl appelsínudjús
 • 3/4 dl sweet chilisósa
 • 1 teningur kjúklingakraftur
 • 1 tsk japönsk sojasósa
 • 2 dl jógúrt án bragðefna
 • salt

Hitið vatn og kjúklingakraft að suðu og hrærið kúskús saman við. Takið potinn af hitanum, setjið lokið á og látið standa í 6 mínútur.

Skerið kjúklinginn í bita og púrrulaukinn í strimla. Afhýðið og hakkið hvítlaukinn. Steikið kjúklinginn í smjöri á pönnu. Takið kjúklinginn af pönnunni þegar hann er steiktur. Setjið hvítlauk og púrrulauk á pönnuna og steikið þar til fer að mýkjast.  Bætið appelsínudjús, sweet chilisósu, kjúklingateningi, sojasósu og kjúklingi á pönnuna. Látið sjóða í nokkrar mínútur. Takið pönnuna af hitanum og hrærið helmingnum af jógúrtinni saman við. Smakkið til með salti.

Hrærið kúskús upp með gaffli. Berið fram með kjúklingnum og því sem eftir var af jógúrtinni.

Kjúklingabaka með sweet chili

Kjúklingabaka með sweet chili

Borðstofuborðið hefur verið undirlagt af jólapappír, skrautmiðum og borðum um helgina og hefur einna helst minnt á verkstæði jólasveinsins. Á bak við aðventustjakann má sjá glitta í hluta af jólagjöfum sem var pakkað inn og bíða nú eftir að rata í réttar hendur.

Eins og ég vona að einhverjir hafi tekið eftir þá er komin ný forsíðumynd hér efst á blogginu. Fjölskyldan hefur síðustu mánuðina verið að benda mér á að sumarlega myndin af skúffukökunni og kaffibollanum í grasinu hafi sungið sitt síðasta og núna fór ég loksins í það að skipta henni út. Ég er mjög ánægð með útkomuna og vona að þið séuð það líka. Eina af myndunum tók ég einmitt í gær þegar ég gerði botninn í bökuna sem við vorum með í kvöldmat.

Kjúklingabaka með sweet chili

Þessi baka er æðislega góð og með góðu salati er hún fullkomin máltíð. Ekta helgarmatur sem passaði vel á laugardagskvöldi. Klárlega ein af uppáhalds bökunum.

Kjúklingabaka með sweet chili

Bökuskel:

 • 5 dl hveiti
 • 250 g kalt smjör, skorið í teninga
 • 1 tsk salt
 • 3-4 msk kalt vatn

Fylling:

 • 3 kjúklingabringur
 • 5 dl sýrður rjómi
 • 3 tsk sambal oelek
 • 1/2 appelsínugul paprika
 • 2 skarlottulaukar
 • 1 dl sweet chili sósa
 • salt
 • 2-3 msk maizena
 • mozzarella ostur

Vinnið hráefnin í skelina saman í deig og þrýstið í botninn og upp kantana á bökuformi. Setjið í ískáp á meðan fyllingin er gerð.

Skerið kjúklingabringurnar í smáa bita og steikið á pönnu. Þegar kjúklingurinn er steiktur er hökkuðum lauk og papriku bætt á pönnuna og steikt þar til orðið mjúkt. Hrærið sýrðum rjóma, chilisósu og sambal oelek saman við og látið suðuna koma upp. Látið sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur og smakkið til með salti. Þykkið með maizena.

Setjið fyllinguna í bökuskelina og bakið við 200° í 30 mínútur. Takið þá bökuna úr ofninum, stráið rifnum mozzarella yfir og setjið aftur í ofninn í 10 mínútur til viðbótar.

Kjúklingabaka með sweet chili