Í gær komu strákarnir heim frá Kaupmannahöfn og það var betra en orð fá lýst. Það sem við höfum saknað þeirra! Það fylgir þeim svo mikið líf og gleði. Þeir voru alsælir með ferðina og komu færandi hendi, bæði með gjafir til allra og bestu flodeboller (rjómabollur? krembollur? Ég er ekki viss…) í heimi. Þeir kunna þetta bræðurnir!
Ég var búin að lofa þeim vöfflukaffi við heimkomuna en ákvað að gera betur og skellti líka í köku sem ég hef verið að bíða eftir tækifæri til að prófa. Massarína með súkkulaðibitum. Ég veit nú ekki alveg hvað gerðist því súkkulaðibitarnir sukku allir á botninn á kökunni en það kom ekki að sök, hún var dásamlega góð.
Massarína með súkkulaði
- 200 g marsípan
- 200 g sykur
- 200 g smjör
- 4 egg
- 120 hveiti
- 150 suðusúkkulaði
Hitið ofninn í 180°.
Rífið marsípanið gróft og hrærið því saman við sykurinn. Bræðið smjörið og hrærið því saman við marsípan/sykurblönduna þar til blandan myndar jafnan massa. Hrærið eggjunum saman við, einu í einu. Hrærið hveitinu saman við og að lokum hökkuðu súkkulaði. Setjið deigið í 22 cm form og bakið í um 35 mínútur.
Hæ! Mèr lýst vel á þessa, èg sá ì einhverjum matreiđsluþætti á food network ađ þađ ætti ađ hræra smá hveiti saman viđ sùkkulađibitana áđur en þeir eru settir ì deigiđ til ađ koma ì veg fyrir ađ sùkkulađiđ setjist allt á botninn – hef samt ekki pròfađ þetta sjálf 😉