Um daginn spurði Jakob mig hvort við gætum ekki haft kínverskan í kvöldmat fljótlega. Ég verð alltaf jafn ánægð þegar krakkarnir stinga upp á kvöldmat og set óskirnar beint inn á vikumatseðilinn. Þar sem ég átti nautakjöt í frystinum féll valið á Mongolian beef. Ég lumaði á uppskrift sem sagan segir að komi frá PF Chang’s (ég sel það þó ekki dýrar en ég keypti það!) sem mér þótti upplagt að prófa. Rétturinn var æðislegur! Fljótgerður og svo mikið betri en take away. Fullkominn föstudagsmatur!
Mongolian beef
- 500 g nautakjöt, skorið í bita
- ⅛ bolli kornsterkja (maizena mjöl)
- ½ msk sesam olía
- ½ msk canola eða grænmetisolía
- 3 hvítlauksrif, pressuð
- 1 tsk engifer, fínrifið
- ½ bolli sojasósa
- ½ bolli vatn
- ¾ bolli púðursykur
- olía til að steikja í
- vorlaukur til að skreyta með (má sleppa)
Veltið nautakjötinu upp úr maizena mjölinu (gott að setja saman í poka og hrista vel) og látið standa í ísskáp í 10 mínútur. Á meðan er sósan gerð.
Hitið sesam og canola eða grænmetisolíu á pönnu. Bætið hvítlauki og engiferi á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur. Hrærið sojasósu, vatni og púðursykri saman við. Látið suðuna koma upp og sjóðið í 2-3 mínútur. Takið af hitanum og leggið til hliðar.
Hitið olíu á djúpri pönnu (um 1 bolli eða 2,5 dl er passlegt) og djúpsteikið nautakjötið. Passið að setja það í skömmtum á pönnuna, svo það sé ekki of mikið kjöt á henni í einu. Brúnið kjötið á báðum hliðum, í um 1-2 mínútur á hvorri hlið. Takið kjötið úr olíunni og látið renna af því á eldhúspappír.
Setjið nautakjötið í sósuna og blandið vel saman. Látið suðuna koma aftur upp og sjóðið í 2-3 mínútur (sósan þykknar aðeins við þetta). Stráið vorlauk yfir og berið strax fram með hrísgrjónum.
Hvernig bita af nauti varstu með?