Sænsk súkkulaðikaka deluxe

Hryðjuverkaárásin í Stokkhólmi á föstudaginn hefur verið ofarlega í huga mínum yfir helgina. Mér þykir hún svo hræðilega nálægt mér. Ég bjó í Stokkhólmi, á vini þar og fer reglulega þangað. Ég hef svo margoft staðið þar sem árásin átti sér stað, síðast núna í ársbyrjun.

Ég get ekki hætt að hugsa um 11 ára stelpuna sem var að koma úr skólanum og ætlaði að hitta mömmu sína við neðanjarðarlestina, en komst aldrei til hennar. Hvernig mamma hennar leitaði af henni á spítölum borgarinnar í örvæntingu áður en lögreglan bankaði upp á hjá henni. Vörubílsstjórann sem skildi lyklana eftir í bílnum á meðan hann skaust frá og mun eflaust seint jafna sig á því. Myndir af lögreglumönnum sem hikuðu aldrei, heldur hlupu beint að hættunni.

Þegar Viktoría prinsessa var spurð af blaðamanni „hvernig höldum við áfram eftir þetta?“ svaraði hún „í sameiningu“. Það er svo fallegt að sjá samheildina sem myndast við svona aðstæður. Þegar fólk staldrar við og sér hvað það er sem raunverulega skiptir máli í lífinu.

Ég hef verið á leiðinni að setja hingað inn uppskrift af svo góðri klessuköku sem ég bakaði um daginn og það er kannski sérlega viðeigandi að setja hana inn núna. Að baka köku og setjast niður með ástvinum gerir maður aldrei of oft. Njótum stundarinnar og veljum vandlega hvernig við eyðum tímanum.

Sænsk súkkulaðikaka deluxe

  • 3 egg
  • 3,5 dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 4-5 msk kakó
  • 2 dl hveiti
  • 150 g brætt smjör

Krem:

  • 50 g smjör við stofuhita
  • 2 msk kalt kaffi
  • 2,5 dl flórsykur
  • 1 msk kakó
  • 1 tsk vanillusykur

Yfir kökuna:

  • kókosmjöl

Hitið ofninn í 175°.

Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Hrærið saman egg og sykur. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim saman við eggjablönduna. Hrærið að lokum smjörinu í deigið. Athugið að þeyta aldrei deigið heldur bara að hræra það saman því ef það myndast of mikið loft í deiginu er hætta á að það verði þurrt. Smyrjið lausbotna form og setjið deigið í það. Bakið kökuna í miðjum ofni í 20-30 mínútur. Kakan á að vera blaut í miðjunni þegar hún er tekin úr ofninum. Látið kökuna standa í ísskáp í nokkra tíma áður en kremið er sett á hana.

Hrærið öllum hráefnunum í kremið saman og setjið yfir kökuna. Stráið kókosmjöli yfir. Geymið kökuna í ísskáp.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s