Pasta Alfredo

Í kvöld eldaði ég pasta með Alfredo sósu og pönnusteiktu grænmeti. Mér finnst Alfredo sósan svo mild og góð og hún fer dásamlega vel með pasta, kjúklingi og grænmeti. Börnin mín myndu seint kvarta ef þau fengju bara pastað með sósunni en mér finnst kjörið að plokka fram það grænmeti sem ég á í ískápnum og leyfa því að fljóta með. Það getur verið allt frá sveppum, papriku, kúrbít, spergilkáli, rauðlauk og sætri kartöflu. Ég nota bara það sem ég á, sker það niður, baka í ofni eða steiki á pönnu við miðlungsháan hita og krydda með salti og pipar og jafnvel einhverju góðu kryddi, t.d. töfrakryddinu eða kryddi lífsins frá Pottagöldrum. Ef ég á kjúklingabringu þá hika ég ekki við að bæta henni við.

  • Pasta
  • 110 gr smjör
  • 1-2 hvítlauksrif, hakkað
  • 1/2 l rjómi
  • 1 bolli ferskrifinn parmesan ostur
  • 2 msk rjómaostur
  • salt
  • pipar

Bræðið smjörið í potti við miðlungshita. Þegar smjörið er bráðið þá er hvítlauknum bætt út í og leyft að sjóða við vægan hita í 2 mínútur. Bætið rjóma og rjómaosti í pottinn og hitið að suðu. Takið pottinn af hellunni og hrærið parmesan ostinum út í. Piprið og saltið og smakkið til.

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakningu. Það er auðvitað best að hafa ferkst pasta en ég á það sjaldnast til. Blandið pönnusteiktu eða ofnbökuðu grænmeti við og hellið ljúffengri Alfredo sósunni yfir. Endið á nokkrum snúningum með piparkvörninn og rífið ferskan parmesan ost yfir diskinn. Ef það verður afgangur af Alfredo sósunni þá er kjörið að setja hana í lekkera krukku og geyma í ískápnum.