Laugardagur og kosningar! Mér þykja kosningadagar alltaf vera hátíðlegir og hlakka til að fylgjast með kosningasjónvarpinu í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn sem öll börnin mín hafa áhuga á kosningunum og það er því mikil tilhlökkun fyrir kvöldinu. Ég þarf að fara í búðina í dag og versla inn fyrir kvöldið (svo mikilvægt að vera með gott snarl í kvöld) en leiðin liggur einnig í Ikea og að sjálfsögðu á kjörstað.
Ég bakaði þessa köku um daginn og var með í eftirrétt og má til með að mæla með henni. Hún var dásamlega góð og gæti verið sniðugur eftirréttur fyrir kvöldið. Stingið íslenskum fánapinnum í hana til að fá réttu stemninguna áður en þið berið hana fram í kvöld. Súpergóð!
Súkkulaðibaka með sætum rjóma og berjum (uppskrift úr Joy the Baker Cookbook)
Bökuskelin:
- 1 ½ bolli hveiti
- ½ bolli flórsykur
- ½ tsk salt
- ½ tsk kanil
- 1/8 tsk engifer (krydd)
- ½ bolli ósaltað smjör, kalt
- 1 stórt egg
Setjið hveiti, sykur, salt og krydd í skál og blandið saman. Skerið smjörið í bita og bætið í skálina. Blandið öllu vel saman með höndunum þar til deigið hefur myndað litla kekki. Bætið eggi saman við og hrærið deiginu saman með gaffli (hafið ekki áhyggjur ef deigið verður eins og mylsna, það er allt í lagi). Setjið deigið í lausbotna bökuform og notið puttana til að þrýsta því í formið og upp með hliðum þess. Kælið í frysti í klukkustund. Hitið þar eftir ofn í 175°. Smyrjið álpappír með smjöri og leggið með smjörhliðina niður yfir bökuskelina. Bakið í 20 mínútur, takið þá álpappírinn af og bakið í aðrar 15 mínútur, eða þar til bökuskelin er fallega gyllt. Látið skelina kólna alveg áður en fyllingin er sett í.
Fyllingin:
- 225 g dökkt súkkulaði, fínhakkað
- 1 ¼ bolli rjómi
- ¼ bolli ósaltað smjör, við stofuhita, skorið í bita
Á meðan bökuskelin er í frystinum er gott að gera fyllinguna. Setjið fínhakkað súkkulaðið í skál og leggið til hliðar. Setjið rjómann í pott og hitið varlega að suðu. Hellið helmingnum af heitum rjómanum yfir súkkulaðið og látið standaí 1 mínútur (súkkulaðið mun bráðna). Hrærið súkkulaðinu og rjómanum saman og bætið því sem eftir var af rjómanum varlega saman við. Hrærið þar til blandan er slétt. Bætið þá smjörbitum út í og hrærið saman með sleikju þar til smjörið hefur bráðnað. Blandan verður dökk og glansandi. Setjið til hliðar og látið kólna (blandan þykkist þegar hún kólnar. Mér fannst hún þó þykkjast svo hægt að ég endaði á að kæla hana í ísskápnum).
Yfir bökuna:
- 1 bolli rjómi
- 3 msk flórsykur
- 1 bolli hindber
- ¼ bolli brómber (ég var bara með hindber)
Þeytið saman rjóma og flórsykri þar til rjóminn er léttþeyttur.
Samsetning: Setjið fyllinguna í bökuskelina. Setjið berin yfir og endið á að setja rjómann yfir miðjuna (látið hann ekki ná yfir alla bökuna, það er svo fallegt að sjá súkkulaðifyllinguna og berin meðfram kantinum). Berið strax fram. Kakan er best á fyrsta degi en geymist þó vel í allt að 3 daga í ísskáp.
Ein athugasemd á “Súkkulaðibaka með sætum rjóma og berjum”