Mér þykja sum haust- og vetrarkvöld hreinlega kalla á góðar súpur og nýbakað brauð. Súpur eru svo þægilegur matur. Það er hægt að undirbúa þær deginum áður og þær verða margar bara betri eftir að hafa fengið að standa yfir nóttuna. Síðan er gott að frysta þær til að eiga í nesti eða til að grípa í ef það eru fáir í mat. Eftir til dæmis útiveru í köldu haustlofti eða vetrarkvöld í Bláfjöllum er ólýsanlega gott að koma heim og geta hitað upp súpu og brauð. Ég á alltaf frosin snittubrauð til að geta gripið í á slíkum stundum. Gahhh, það gerist varla betra!
Gúllassúpa (uppskrift fyrir 5 manns)
- 1 laukur
- 1 hvítlauksrif, pressað
- 500 g nautahakk
- 3 msk tómatpuré
- 1 líter vatn
- 7-8 litlar kartöflur
- 1 nautateningur
- 2 grænmetisteningar
- 2 msk sojasósa
- 2 dósir hakkaðir tómatar (2 x 400 g)
- 1,5 msk paprikukrydd
- 1/2 – 1 msk sambal oelek
- 1-2 msk tómatsósa
- salt og pipar
Bræðið smjör í rúmgóðum potti og steikið hakkaðan lauk og hvítlauk þar til mjúkt. Bætið nautahakkinu á pönnuna og steikið þar til fulleldað. Hrærið tómatpuré saman við og steikið áfram í eina mínútu. Setjið vatn, teninga, sojasósu, hakkaða tómata og paprikukrydd saman við. Látið sjóða saman í smá stund. Afhýðið kartöflurnar og skerið í teninga. Bætið þeim í pottinn og látið sjóða áfram í 15 mínútur. Smakið til með samal oelek, tómatsósu, salti og pipar.
Berið fram með sýrðum rjóma og góðu brauði.