Mér fannst haustið koma í gær og verð að viðurkenna að mér þótti það ósköp notalegt. Hvort það sé komið til að vera á síðan eftir að koma í ljós en það er eitthvað við haustið sem mér þykir sjarmerandi. Skólarnir byrja að nýju og allt fellur aftur í rútínuna sem á svo vel við mig. Að við síðan ákváðum að framlengja sumrinu með Spánarferð í september gerir tilhugsunina um haustið enn ljúfari.
Ég var að velta fyrir mér hvað ég eigi að hafa í matinn um helgina og þá rifjaðist upp fyrir mér uppskrift að himneskum eftirrétti sem hefur enn ekki farið hingað inn á bloggið. Þetta er með betri eftirréttum sem ég hef smakkað! Ástaraldin og hvítt súkkulaði er hin fullkomna blanda. Ég á enn eftir að ákveða helgarmatseðilinn en þessi eftirréttur fer klárlega á hann.
Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin (uppskrift fyrir 2)
- 2½ dl rjómi
- 1 msk vanillusykur
- ½ msk hunang
- 40 g hvítt súkkulaði
- 1 matarlímsblað
- 2 ástaraldin
Látið matarlímið liggja í köldu vatni í amk 5 mínútur. Setjið rjóma, vanillusykur, hunang og hvítt súkkulaði í pott og hitið við vægan hitta þar till suðan er næstum komin upp. Takið pottinn þá af hitanum, takið matarlímsblaðið úr vatninu (kreistið mesta vatnið frá) og hrærið því út í pottinn. Hellið pannacottanu í tvær skálar og látið standa í ísskáp í amk 3 klst. Setjið ástaraldin yfir rétt áður en pannacottað er borið fram.
3 athugasemdir á “Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin”