Nutellaídýfa

NutelladýfaNutelladýfa

Gunnar ákvað skyndilega á gamlárskvöldi að hafa árið 2017 sælgætislaust. Hann hefur enn sem komið er ekki fengið sér svo mikið sem nammibita, nokkuð sem ég dáist að og gæti eflaust aldrei leikið eftir. Hann er þó svo staðfastur í því sem hann tekur sér fyrir hendi að ég hef fulla trú á því að hann klári þetta með glans.

Sælgætisbindindið gerir það að verkum að ég kaupi síður nammi og set í skál fyrir framan sjónvarpið á laugardagskvöldum, heldur reyni að finna annað góðgæti til að bjóða upp á. Eðla stendur auðvitað alltaf fyrir sínu en Nutellaídýfa er þó vinsælasta helgargóðgætið.  Það er hægt að dýfa hvaða ávöxtum sem er í hana en við mælum sérstaklega með berjum og bönunum. Einfalt og vinsælt!

Nutelladýfa

Nutellaídýfa – uppskrift frá Mitt Kök

  • 2,25 dl rjómi
  • 2,25 dl rjómaostur (ég var með frá Philadelphia)
  • 1,5 – 2 dl Nutella
  • 3 msk flórsykur

Þeytið rjómann loftkenndan og léttann. Setjið rjómaost og flórsykur í aðra skál og hrærið saman. Hrærið Nutella saman við rjómaostinn. Hrærið að lokum þeytta rjómanum varlega saman við.

Setjið í skál og berið fram með ávöxtum, berjum og/eða banana.

Besta poppið!

Besta poppið!Ég má til með að benda ykkur á popp sem ég uppgötvaði nýlega (kannski síðust af öllum!) og er nýjasta æðið hér á heimilinu, Orville simply salted í pop up bowl. Poppið er fituminna en hefðbundið popp og með mjög góðu saltbragði. Malín var búin að sjá það víða á amerískum síðum og var spennt að prófa. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, svo æðislega gott!!Besta poppið!

Annars sit ég hér, með nýpoppað popp og tímarit, að bíða eftir að verða sótt. Við vinkonurnar ætlum að skella okkur í smá frí til Stokkhólms út vikuna. Ég læt frá mér heyra ef færi gefst en annars verð ég á instagram (heiti ljufmeti þar).

Besta poppið!