Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Þegar ég var 14 ára byrjaði ég að sanka að mér uppskriftum sem ég skrifaði niður í stílabók. Ég var þá lítið fyrir eldamennsku en bakstur átti hug minn allan og uppskriftasafnið var eftir því. Ég á ennþá stílabókina sem ég skrifaði uppskriftirnar mínar í en í henni má einnig finna mikilvægar upplýsingar á borð við heimilisföng aðdáðendaklúbba Jason Donovan og Roxett sem og teikningar af mismunandi uppröðun húsgagna í herberginu mínu.

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Það er langt síðan ég notaði bókina síðast en það er aðallega ein uppskrift sem ég nota í hvert einasta skipti þegar ég baka bollur, nefnilega vatnsdeigsbolluuppskrift sem ég komst yfir á þessum tíma. Sú uppskrift hefur aldrei nokkurn tímann klikkað, ekki einu sinni þegar ég var 14 ára og að stíga mín fyrstu skref í eldhúsinu.

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Í upprunalegu uppskriftinni eru bökunarleiðbeiningarnar svo flóknar að það nær engri átt. Í dag baka ég bollurnar bara í 180° heitum ofni í 18-20 mínútur og þær hafa aldrei klikkað. Ég hef meira að segja brotið allar reglur, eins og að opna ofninn áður en bollurnar eru tilbúnar, en það hefur þó ekki komið að sök. Það virðist ekki hægt að klúðra þessu, þó vel sé reynt!

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Bollurnar má auðvitað fylla með hverju því sem hugurinn girnist en sjálf er ég hrifnust af hefðbundum bollum með sultu, rjóma og súkkulaðiglassúr. Ég geri bollurnar frekar litlar en ef þið viljið hafa þær stærri þá passið þið að lengja bökunartímann um nokkrar mínútur. Ég hef aldrei fryst þær en sé að ég hef skrifað að svo megi gera. Það er því upplagt að nýta einhvern daginn í vikunni til að undirbúa bolludaginn sem er strax í byrjun næstu viku.

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Vatnsdeigsbollur  (18-20 litlar bollur)

 • 2,5 dl vatn
 • 125 g smjör
 • 125 g hveiti
 • 4 egg

Setjið vatn og smjör í pott og látið suðuna koma upp. Takið pottinn af hitanum og hrærið hveitinu saman við þar til massinn losnar frá pottinum. Kælið blönduna örlítið. Bætið eggjunum út í, einu í einu, og hrærið vel á milli. Notið tvær teskeiðar eða setjið deigið í sprautupoka og sprautið bollur á smjörpappírsklædda plötu. Bakið við 180° á blæstri í 18-20 mínútur.  Ef bollurnar eru hafðar stærri er bökunartíminn lengdur.

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Glassúr

 • 100 g suðusúkkulaði
 • 2 msk sýróp
 • 2 msk rjómi

Bræðið allt saman í potti. Látið kólna aðeins og setjið yfir bollurnar.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Gamlárskveðja og vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2016

Gamlárskveðja og vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2016

Þá er síðasti dagur ársins runninn upp. 2016 var skítaár víða í heiminum og góð áminning um hversu gott það er að búa á Íslandi, langt frá stríðsástandi og þeirri hræðilegu eymd sem margir búa við. Hvað snýr að mér, get ég ekki sagt annað en að ég átti frábært ár! Veðrið lék við okkur og við nýttum það heilmikið í útivist, bæði í göngutúra og á skíðum á meðan opið var í fjallinu. Það fór lítið fyrir innanlandsferðalögum þetta árið, bara ein sumarbústaðarferð, en hins vegar ferðuðumst við til Brussel, Stokkhólms, Spánar, Kaupmannahafnar og Parísar. Strákarnir fermdust og lesendahópur Ljúfmetis stækkaði enn frekar. Ég kveð árið full af þakklæti ♥

Gamlárskveðja og vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2016

Gamlárskveðja og vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2016

Í kvöld verða hér níu manns í mat og mig grunar að ég sé með mat fyrir helmingi fleiri. Ég mun eyða deginum í eldhúsinu, að dekra við kalkúninn og undirbúa meðlætið. Eftirréttirnir eru tilbúnir og forréttinn á bara eftir að setja í ofninn rétt áður en hann verður borinn fram.

Gamlárskveðja og vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2016

Flugeldarnar eru komnar í hús og eru að sjálfsögðu keyptar af björgunarsveit. Ég ætla í tilefni dagsins að birta lista yfir 10 vinsælustu uppskriftir ársins á blogginu, eins og ég hef gert undanfarin ár. Mig langar þó fyrst að þakka ykkur fyrir árið sem er að líða. Takk fyrir lesturinn, kommentin og kveðjurnar. Takk fyrir að vera með mér hér ♥

10 vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2016

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Vinsælasta uppskrift ársins er kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti, en sú uppskrift var skoðuð tæplega 300.000 sinnum á árinu og henni hefur verið deilt yfir 10.000 sinnum. Skál fyrir því!

Einföld og góð skúffukaka

Einföld og góð skúffukaka er önnur vinsælasta uppskrift ársins. Það þurfa allir að eiga sína go-to uppskrift af skúffuköku. Þessi er fullkomin sem slík! Hráefnin eru yfirleitt til í skápunum og því lítið mál að baka þessa dásemd þegar skúffukökulöngunin dembist yfir mannskapinn. Sem gerist auðvitað oft.

Bananabrauð

Þriðja vinsælasta uppskriftin er uppáhalds bananabrauðið. Ég hef heyrt að þetta brauð sé orðið uppáhalds á fleiri heimilum en mínu og mér þykir vænt það. Þetta brauð er bara svo gott að það hálfa væri nóg.

Pizza sem klikkar aldrei

Pizza sem klikkar aldrei situr í fjórða sæti. Skiljanlega, því það nennir enginn að gera pizzu sem gæti klikkað. Þessi er líka ávísun á gott föstudagskvöld því hún er algjört æði.

Mexíkósk kjúklingasúpa

Í fimmta sæti er þykk og góð mexíkósk kjúklingasúpa. Svo góð!

Mexíkósúpa

Mexíkósku kjúklingasúpurnar viðrast heilla lesendur því í sjötta sæti er önnur mexíkósk súpa, sú sem ég elda hvað oftast. Ef Gunnar fengi að ráð væri þessi súpa í matinn í hverri viku. Ég elda hana að minnsta kosti tvisvar í mánuði, alltaf við mikinn fögnuð heimilismanna!

Ofnbakaðar kjötbollur

Ofnbakaðar kjötbollur eru sjöunda vinsælasta uppskriftin. Það er ekki annað hægt en að elska kjötbollur! Með kartöflumús, góðri rjómasósu og sultu væri skammlaust hægt að bjóða kóngi í mat.

Heimsins bestu súkkulaðibitakökur

Í áttunda sæti eru heimsins bestu súkkulaðibitakökur. Skiljanlega, því þær eru heimsins bestu í alvöru.

Mexíókskt kújklingalasagna

Mexíkóskt kjúklingalasagna er níunda vinsælasta uppskrift ársins. Ef einhver hefur ekki prófað þessa uppskrift þá mæli ég með að það verði áramótaheiti hjá viðkomandi. Klikkgott!

Hakkbuff með fetaosti

Síðast en ekki síst er hakkabuff með fetaosti í tíunda sæti yfir vinsælustu uppskriftirnar á árinu sem er að líða.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Jólakveðja

Jólakveðja

Gleðileg jól kæru lesendur. Ég vona að jóladagarnir hafi staðið undir væntingum og allir geti tekið undir með Baggalúti og sagt að jólin eru æði! Við höfum átt æðisleg jól, svo góð að krakkarnir segja þetta bestu jól sögunnar. Ekki skemmir hvað veðrið er búið að vera jólalegt og fallegt. Ég var að tæma myndavélina og sá að hún hefur greinilega ekki verið mikið á lofti undanfarna daga en einhverjum myndum náðist að safna saman úr símunum hjá mannskapnum. Myndagæðin eru eftir því en fá að duga í þetta sinn.

Jólakveðja

Ég er búin að vera í fríi síðan á miðvikudaginn. Á fimmtudeginum varð ég fertug! Við fórum í göngu um snjóþakta Heiðmörk um morguninn og þar var dregið upp kampavín og franskar makkarónur í tilefni dagsins. Þegar við komum heim um hádegi beið mín óvæntur afmælisbröns með allri fjölskyldunni. Það sem ég var hissa! Þegar leið á daginn fórum við í  Bláa lónið, síðan út að borða og um kvöldið komu vinir hingað heim í léttar veitingar. Æðislegur dagur í alla staði!

Jólakveðja

Jólakveðja

img_0315

Seinnipart þorláksmessu fórum við í skötu á Þrjá Frakka. Mamma var búin að bíða spennt allan mánuðinn og strákarnir voru hugaðir og smökkuðu bæði skötu og hákarl, en pöntuðu sér þó saltfisk. Sjálf gæti ég vel lifað án skötunnar og er enn að berjast við að ná lyktinni úr úlpunni minni. Eftir matinn röltum við um bæinn og enduðum kvöldið á Geira smart.
Aðfangadagur rann síðan loksins upp, hvítur og fallegur. Kertasníkir hafði litið við um nóttina og skilið eftir sig gjafir sem féllu í kramið. Hinn hefðbundni möndlugrautur var í hádeginu og venjunni samkvæmt fékk Gunnar möndluna (hvernig er þetta hægt!!).

JólakveðjaJólakveðja

Við erum mjög föst í venjum yfir hátíðirnar og hér er alltaf hamborgarahryggur og sama meðlætið, ár eftir ár. Og ár eftir ár borðum við yfir okkur. Þegar búin var að opna allar gjafirnar og gestirnir voru farnir heim gengum við frá og lögðumst svo í sófann og horfðum á jólamynd saman. Þegar klukkan var lang gengin þrjú fengum við okkur annan disk af jólamatnum áður en við skriðum upp í rúm. Dásamlegt.

Jólakveðja

Jólakveðja

Í gær var hefðbundið jólaboð hjá mömmu þar sem við fengum hangikjöt. Seinna um kvöldið fór ég svo og hitti vinkonur mínar, þar sem var boðið upp á heitreykta gæsabringu, osta, smákökur og freyðivín. Það er því hver veislan á fætur annari þessa dagana.

JólakveðjaJólakveðjaJólakveðja

Í kvöld erum við bara tvö og ætlum að elda okkur humar og opna hvítvínsflösku. Það verður notalegt. Á morgun hefst svo fjörið á ný því strákarnir verða 14 ára! Tíminn flýgur…

 

HAGKAUP

Föstudagskvöld!

Föstudagskvöld!

Föstudagskvöld og helgarfrí framundan. Það er búið að vera stöðugt prógramm þessa vikuna og því ljúft að eiga rólegt kvöld framundan með mexíkóska kjúklingasúpu í kvöldmat og nammi yfir sjónvarpinu. Ég er með æði fyrir nýja nóakroppinu með piparduftinu og súkkulaðihúðuðu saltkringlunum en uppgötvaði nýlega hvað það er líka gott að blanda venjulegu nóakroppi og poppi saman. Áður en ég hendi mér í sjónvarpssófann með nammiskálarnar ætla ég þó að reima á mig skóna og taka smá göngutúr. Ég gekk 5.75 km hring hér um Kópavoginn í gærkvöldi á tímanum 54.35 sem er ekkert til að státa sér af. Í kvöld skal ég gera betur!

HAGKAUP

5 ljúffengar tillögur fyrir Eurovision

5 ljúffengar hugmyndir fyrir Eurovision

Fyrst af öllu, TAKK fyrir öll like, komment og falleg orð sem þið hafið sent mér eftir að bloggið fór yfir 20.000 fylgjendur á Facebook. Ég get ekki fundið orð til að lýsa því hvað mér þykir vænt um að heyra frá ykkur.

Nú styttist í Eurovision og þá þarf nú heldur betur að vanda valið við veitingarnar. Það þarf að vera stemmning í þessu öllu enda um að gera að nýta öll tækifæri sem gefast til að gera sér glaðan dag og strá smá glimmeri yfir hversdagsleikann. Hér koma fimm einfaldar og góðar tillögur að kvöldverði sem passa vel fyrir eurovisionkvöldið:

Fylltar tortillaskálar

Fylltar tortillaskálar

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi

Klúbbsamloka með sweet chilli majónesi

BBQ-Pizza

BBQ-Pizza

Mexíókskt kújklingalasagna

Mexíkóskt kjúklingalasagna

Hamborgari

Heimagerðir hamborgarar

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Gleðilega páska

Gleðilega páska

Heimilið fylltist af páskablómum eftir ferminguna og þær hafa verið eina páskaskrautið þetta árið. Það var nánast einum of mikið af þeim á tímabili, sama hvert maður leit þá blöstu við gul blóm. Núna þegar sjálfur páskadagur er runninn upp hafa blómin hins vegar öll sungið sitt síðasta og ég gleymdi að kaupa mér páskaegg. Það er því fátt sem minnir á páskana hér heima í dag. Ég mun þó að halda fast í þá hefð að elda lambakjöt á páskadegi, það geri ég alltaf. Ég keypti lambahrygg fyrr í vikunni sem ég á eftir að ákveða hvernig ég ætla að matreiða og ætla því að leggjast yfir uppskriftir á meðan ég narta í páskaeggið hennar Malínar.

Langaði aðallega bara að kíkja inn og óska ykkur gleðilegra páska!

Gleðilega páska

Himneskar humarvefjur

Himneskar humarvefjur

Ég sá athugasemdir varðandi bollamálin í möffinsuppskriftinni góðu. Það er lítið mál að breyta bollamáli yfir í dl, 1 bolli er 2,3-2,4 dl. Ég mæli þó hiklaust með að fjárfesta í bollamálum, þau kosta nokkra hundraðkalla og koma oft að góðum notkum.

Himneskar humarvefjur

Mér datt í hug að setja inn uppskrift fyrir helgina, sem er í sjálfu sér engin nákvæm uppskrift heldur kannski frekar hugmynd að helgarmat, himneskar humarvefjur. Ég hef boðið upp á þær í forrétt þegar ég er með matarboð en einnig sem léttan kvöldverð með hvítvínsglasi. Þetta hittir alltaf í mark!

Himneskar humarvefjur

 • franskbrauð
 • íslenskt smjör
 • hvítlaukur, pressaður
 • fersk steinselja, hökkuð
 • skelflettur humar

Hitið ofn í 180°. Bræðið smjör, hvítlauk og steinselju saman. Skerið skorpuna af brauðsneiðunum, veltið hverri brauðsneið upp úr bræddu smjörblöndunni og fletjið síðan brauðsneiðarnar út með kökukefli. Setjið humar í hverja brauðsneið og rúllið þeim svo upp. Setjið í eldfast mót og inn í ofn í 8 mínútur.

Mér þykir gott að bera humarvefjurnar fram með ruccolasalati, smá balsamikgljáa og aioli eða hvítlaukssósu. Gott hvítvínsglas fullkomnar svo máltíðina.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Pekanhjúpuð ostakúla

Pekanhjúpuð ostakúla

Strákarnir fermast um miðjan mars og við erum aðeins byrjuð að velta fyrir okkur veitingunum í veislunni. Þeir vilja hafa kökur og brauðtertur og þannig fær það að vera. Við erum þó svo mikið fyrir osta að mér datt í hug að gera pekanhjúpaða ostakúlu sem ég bauð upp á um áramótin og hreinlega lifði á daginn eftir. Hún var svo brjálæðislega góð! Og þegar ég fékk þá frábæru hugmynd að hafa hana í fermingunni þá áttaði ég mig á því að ég á enn eftir að setja uppskriftina hingað inn. Svo hér kemur hún, ég lofa að þið eigið eftir að vera ánægð með hana!

Pekanhjúpuð ostakúla

Pekanhjúpuð ostakúla

 • 500 g philadelphia rjómaostur (við stofuhita)
 • 250 g maukaður ananas í dós (crushed)
 • 1/2 bolli græn paprika, hökkuð fínt
 • 2 msk vorlaukur, hakkaður
 • 1/3 bolli pekanhnetur, hakkaðar
 • 1 tsk Lawry´s seasoned salt
 • 3/4 bolli pekanhnetur, hakkaðar

Blandið saman mjúkum rjómaosti, maukuðum og afrunnum ananas, papriku, vorlauki, 1/3 bolla af hökkuðum pekanhnetum og salti. Notið sleif og mótið ostablönduna í skálinni. Setjið filmu á borð og dreifið 3/4 bolla af hökkuðum pekanhnetum yfir. Setjið ostakúluna yfir og veltið upp úr hnetunum þannig þær hjúpi kúluna. Pakkið pekanhjúpaðri kúlunni inn í plastfilmuna og geymið í ísskáp þar til hún er borin fram. Berið fram með kexi.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Tíu góðar tillögur að eftirréttum fyrir áramótin

Vinsælustu uppskriftirnar á árinu 2013

Það eru eflaust margir að velta áramótamatseðlinum fyrir sér þessa dagana. Sjálf hef ég ákveðið að hafa humar í forrétt og nautalund í aðalrétt en er enn að velta eftirréttinum fyrir mér. Fyrir þá sem eru í sömu hugleiðingum koma hér 10 stórgóðar tillögur:

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Brownies með saltri karamellusósu

Brownies með saltri karamellusósu

Tobleronemús

Tobleronemús

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin

Nutella semifreddo

Nutella semifreddo

Litlar og lekkerar marenskökur

marange

Pannacotta með hindberjasýrópi

Pannacotta með hindberjasýrópi

Brownikaka með Daim og jarðaberjafrauði

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Marensrúlla með ástaraldin

Marensrúlla með ástaraldin

Ísbaka með bourbon karamellu

Ísbaka með bourbon karamellu

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Gleðileg jól

Gleðileg jól!Mig grunar að það séu fáir sem sitja við tölvuna í dag enda margt annað að gera á sjálfum aðfangadegi jóla. Hér hljómar jólatónlist, gjafirnar eru komnar undir tréð og ég ætla að dunda mér í eldhúsinu í dag á meðan krakkarnir keyra út jólagjafir. Þetta er fyrsta árið sem þau fara ein í gjafaleiðangur, það breyttist margt þegar Malín fékk bílpróf.

Gleðileg jól!

Í kvöld eigum við von á mömmu og bróður mínum til okkar og á matseðli kvöldsins standa bæði hamborgarahryggur og maltgrís-læri, brúnaðar kartöflur, heimalagað rauðkál, sósa og fleira góðgæti. Ég er vön að vera með möndlugraut í hádeginu á aðfangadegi en ákvað í ár að breyta til og gera Ris a la mande með kirsuberjasósu í eftirrétt  (og auðvitað verður möndlugjöf fyrir þann heppna). Öllum leist vel á það en Gunnari þótti alveg vonlaust að fá ekki líka súkkulaðimúsina hennar mömmu þannig að henni var bætt á eftirréttaseðilinn og mamma ætlar að koma með hana með sér. Þá langaði Jakobi svoooo mikið að hafa ávexti með rjómakremi eins og mamma gerir í eftirrétt þannig að hún ákvað líka að koma með það. Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi hér í kvöld!

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og vona að jólahátíðin gefi full af ljúfum gleðistundum ♥

Gleðileg jól!

HAGKAUP