Föstudagskvöld og helgarfrí framundan. Það er búið að vera stöðugt prógramm þessa vikuna og því ljúft að eiga rólegt kvöld framundan með mexíkóska kjúklingasúpu í kvöldmat og nammi yfir sjónvarpinu. Ég er með æði fyrir nýja nóakroppinu með piparduftinu og súkkulaðihúðuðu saltkringlunum en uppgötvaði nýlega hvað það er líka gott að blanda venjulegu nóakroppi og poppi saman. Áður en ég hendi mér í sjónvarpssófann með nammiskálarnar ætla ég þó að reima á mig skóna og taka smá göngutúr. Ég gekk 5.75 km hring hér um Kópavoginn í gærkvöldi á tímanum 54.35 sem er ekkert til að státa sér af. Í kvöld skal ég gera betur!
