Síðasta föstudagskvöld var ég með svooo góðan rétt að ég má til með að setja hann inn sem tillögu fyrir helgina – lobsterroll og djúpsteiktar franskar!
Helgarmaturinn verður ekki mikið einfaldari. Humarinn er skorinn í grófa bita og léttsteiktur á pönnu (passa að steikja hann alls ekki of lengi!). Smakkið majónes til með salti, pipar og sítrónusafa eða smá chilisósu, t.d. Sriranka eða Sambal oelek. Hrærið bragðbætta majónesinu síðan saman við humarinn. Hitið pulsubrauð í ofni og fyllið með humarblöndunni. Berið fram með djúpsteiktum frönskum og auka majónesi.
Með matnum drukkum við portúgalskt rósavín vinnufélagi minn mælti með, frá Vila Real. Létt, ferskt og smásætt vín á góðu verði (flaskan kostar undir 2.000 krónum í Vínbúðinni). Frábær sumardrykkur!
Majónes (uppskriftin gefur um 4 dl)
- 2 eggjarauður
- ½ msk hvítvínsedik
- smá salt
- smá hvítur pipar
- 1½ msk dijonsinnep
- 4 dl rapsolía
Passið að hafa öll hráefnin við stofuhita þegar majónesið er gert, annars er hætta á að það skilji sig.
Notið handþeytara og skál. Hrærið fyrst eggjarauðum, hvítvínsediki, salti, pipar og sinnepi saman. Setjið oíuna hægt saman við, fyrst í dropatali þar til blandan byrjar að þykkna og svo í mjórri bunu. Hrærið stöðugt í á meðan. Ef þið ætlið að bragðbæta majónesið þá er það gert í lokin.