Undanfarna mánuði höfum við nánast vikulega verið með léttan kvöldverð sem samanstendur af nýbökuðu brauði (helst baquette eða NY-times brauðið), góðri spægipylsu sem er þunnt skorin, hráskinku, hinum ýmsu ostum, vínberjum og pestói. Og súkkulaði. Með þessu fáum við okkur rauðvín og getum setið allt kvöldið yfir góðgætinu og spjalli. Stundum kem ég á óvart með viðbótarsnarli, eins og þessum pestósnúðum, en það er þó undantekning frekar en regla.
Í síðustu viku poppuðum við snarlið upp með grilluðum tígrisrækjum sem voru brjálæðislega góðar. Ég marineraði þær í tælenskri hnetu- og kókossósu og síðan grilluðum við þær á teini. Rækjurnar bárum við síðan fram í tortillaskálum með sýrðum rjóma, avokadó og kóriander. Þetta reyndist svakalegur hittari! Það vildi svo skemmtilega til að mamma og bróðir minn litu óvænt við þegar við vorum nýsest til borðs. Þau komu með rauðvínsflösku með sér og við áttum kaldan bjór í ísskápnum (nú erum við eflaust farin að hljóma ansi drykkfeld en ég lofa að við erum það ekki!) og við enduðum á að sitja til miðnættis. Rækjurnar hurfu eins og skot af borðinu og fóru svakalega vel með köldum bjórnum. Frábær smáréttur í saumaklúbbinn eða sem forréttur í matarboði.
Tortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjóma
- 1 poki tígrisrækjur frá Sælkerafiski (14 rækjur í pokanum)
- 1/2 dl Thai Sauce Peanut & Coconut sósa frá deSIAM
- litlar tortillaskálar
- sýrður rjómi
- lime
- avokadó
- ferskt kóriander
- salt
Látið rækjurnar þiðna í ísskáp, skolið þær síðan og þerrið vel. Látið rækjurnar í skál og hellið sósunni yfir þær. Látið standa í 30 mínútur. Þræðið rækjurnar upp á spjót og grillið.
Setjið sýrðan rjóma í botn á tortillaskál. Skerið avokadó í smáa bita og kreistið limesafa yfir. Setjið nokkra avokadóbita yfir sýrða rjómann. Skerið tígrisrækjuna í tvennt og setjið yfir. Stráið fersku kóriander og góðu salti yfir og berið strax fram.
Ein athugasemd á “Tortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjóma”