Tortillur með kryddosti, skinku, döðlum, klettasalati og ristuðum furuhnetum

Ég var svo heppin að fá að gera nokkrar uppskriftir í samstarfi við Örnu (þið finnið pastauppskrift hér og fylltar kjötbollur með piparostasósu hér) en Arna er með frábært úrval af laktósafríum mjólkurvörum. Ég hefði gefið mikið fyrir að fá þessar vörur fyrr á markaðinn, þar sem heimilið okkar var mjólkurlaust í fjölda mörg ár sökum laktósaóþols.

Ef þið hafið ekki smakkað kryddostana frá Örnu þá mæli ég með að gera það. Þeir eru frábærir, bæði á ostabakkann og líka til að hita eða bræða í rjóma (t.d. laktósafría rjómanum frá Örnu). Ég prófaði um daginn að setja beikon og paprikuostinn á tortillur með skinku, döðlum, klettasalati og furuhnetum og okkur fannst það svo gott að ég hefði þurft að gera helmingi meira. Þetta ætla ég því að gera aftur fljótlega. Mér þykja tortillurnar passa vel sem snarl með fordrykk og hlakka til að bjóða upp á þær næst þegar ég er með saumaklúbb.

Tortillur með kryddosti, skinku, döðlum, klettasalati og ristuðum furuhnetum

  • 3 pizza tortillur
  • 150 g (1 askja) laktosafrír kryddostur með beikoni og papriku frá Örnu, rifinn
  • silkiskorin skinka
  • döðlur, skornar í bita
  • klettasalat
  • balsamik gljái
  • furuhnetur
  • sojasósa

Byrjið á að þurrrista furuhneturnar á heitri pönnu. Undir lokin er smá sojasósu hellt yfir og ristað í nokkrar sekúndur til viðbótar (bara rétt til að hneturnar þorni). Leggið til hliðar.

Setjið tortillurnar (þykkari tegundina, sem er merkt pizza) á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Rífið kryddost yfir botninn og setjið silkiskorna skinku og döðlur yfir. Bakið við 200° í 5-7 mínútur, eða þar til osturinn hefur bráðnað aðeins (hann bráðnar ekki alveg en hitnar í gegn). Takið úr ofninum og stráið klettasalati og ristuðu furuhnetunum yfir. Endið á að sáldra balsamik gljáa yfir og berið fram.

*Færslan er unnin í samstarfi við Örnu

Ofnbökuð fetaostídýfa með kirsuberjatómötum

Ofnbökuð fetaostídýfa með kirsuberjatómötum

Ég viðurkenni fúslega að mér þykir ósköp ljúft að fá svona 4 daga vinnuvikur inn á milli. Páskafríið er nýbúið og strax að koma helgi aftur. Lúxus! Ég nýti hvert tækifæri sem gefst til að vera með plokkmat, eins og osta og góðar pylsur, í kvöldmat. Með góðu víni eru ostadiskar og plokkmatur með því besta sem ég veit.

Ofnbökuð fetaostídýfa með kirsuberjatómötum

Þar sem helgin nálgast óðum þá má ég til með að gefa hugmynd að æðislegri viðbót við plokkmatinn, ofnbökuð fetaostaídýfa með kirsuberjatómötum og tabaskó. Ídýfan er líka frábær sem forréttur eða í saumaklúbbinn. Uppskriftina fékk ég hjá stelpu sem vann með mér og ég hugsa alltaf hlýlega til hennar þegar ég ber þessa dásemd á borð. Einfalt og stórgott, alveg eins og ég við hafa það!

Ofnbökuð fetaostídýfa með kirsuberjatómötum

 

Ofnbökuð fetaostaídýfa með kirsuberjatómötum

Setjið heilan fetakubb í eldfast mót. Sáldrið smá ólífuolíu yfir og kryddið með oregano. Skerið kirsuberjatómata í tvennt og raðið yfir ostinn og í kringum hann ef það er pláss í eldfasta mótinu. Setjið að lokum smá tabaskó sósu yfir allt. Bakið við 180° í 20-30 mínútur, eða þar til ídýfan lítur vel út.

Tortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjóma

Tortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjómaUndanfarna mánuði höfum við nánast vikulega verið með léttan kvöldverð sem samanstendur af nýbökuðu brauði (helst baquette eða NY-times brauðið), góðri spægipylsu sem er þunnt skorin, hráskinku, hinum ýmsu ostum, vínberjum og pestói. Og súkkulaði. Með þessu fáum við okkur rauðvín og getum setið allt kvöldið yfir góðgætinu og spjalli. Stundum kem ég á óvart með viðbótarsnarli, eins og þessum pestósnúðum, en það er þó undantekning frekar en regla.

Tortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjóma

Í síðustu viku poppuðum við snarlið upp með grilluðum tígrisrækjum sem voru brjálæðislega góðar. Ég marineraði þær í tælenskri hnetu- og kókossósu og síðan grilluðum við þær á teini. Rækjurnar bárum við síðan fram í tortillaskálum með sýrðum rjóma, avokadó og kóriander. Þetta reyndist svakalegur hittari! Það vildi svo skemmtilega til að mamma og bróðir minn litu óvænt við þegar við vorum nýsest til borðs. Þau komu með rauðvínsflösku með sér og við áttum kaldan bjór í ísskápnum (nú erum við eflaust farin að hljóma ansi drykkfeld en ég lofa að við erum það ekki!) og við enduðum á að sitja til miðnættis. Rækjurnar hurfu eins og skot af borðinu og fóru svakalega vel með köldum bjórnum. Frábær smáréttur í saumaklúbbinn eða sem forréttur í matarboði.

Tortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjóma

Tortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjóma

  • 1 poki tígrisrækjur frá Sælkerafiski (14 rækjur í pokanum)
  • 1/2 dl Thai Sauce Peanut & Coconut sósa frá deSIAM
  • litlar tortillaskálar
  • sýrður rjómi
  • lime
  • avokadó
  • ferskt kóriander
  • salt

Látið rækjurnar þiðna í ísskáp, skolið þær síðan og þerrið vel. Látið rækjurnar í skál og hellið sósunni yfir þær. Látið standa í 30 mínútur. Þræðið rækjurnar upp á spjót og grillið.

Setjið sýrðan rjóma í botn á tortillaskál. Skerið avokadó í smáa bita og kreistið limesafa yfir. Setjið nokkra avokadóbita yfir sýrða rjómann. Skerið tígrisrækjuna í tvennt og setjið yfir. Stráið fersku kóriander og góðu salti yfir og berið strax fram.

Tortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjómaTortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjómaTortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjómaTortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjómaTortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjómaTortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avokadó og sýrðum rjóma

Brauðterta með kjúklingi og beikoni

 

Brauðterta með kjúklingi og beikoniGleðilegan þjóðhátíðardag! Það eru eflaust fáir sem sitja við tölvuna í dag en þó eru alltaf einhverjir sem velja að nýta frídaginn í afslöppun heima við. Sjálf hefði ég ekkert á móti því.  Það virðist þó ætla að rætast úr veðrinu og því kannski ráð að vera í fyrra fallinu á ferðinni til að nýta veðurblíðuna. Mér skildist á veðurfréttunum í gær að það ætti að rigna seinnipartinn. Þá er nú líka notalegt að koma heim og eiga góðgæti með kaffinu.

Brauðterta með kjúklingi og beikoniÞað fer enginn svangur út í daginn hér því ég bjó til brauðtertu í gærkvöldi sem við ætlum að gæða okkur á í dag. Brauðtertan dugar vel sem kvöldmatur enda bæði með kjúklingi og beikoni, og minnir því einna helst á klúbbsamloku! Hún er matarmikil og dugar eflaust fyrir 10 manns.

Brauðterta með kjúklingi og beikoni

Brauðterta með kjúklingi og beikoni (uppskrift úr Buffé)

  • 200 g beikonstrimlar
  • 1 grillaður kjúklingur
  • 10 sólþurrkaðir tómatar í olíu
  • 1 dl majónes
  • 3 dl hreint jógúrt
  • 1 dl graslaukur, skorinn fínt
  • 1 tsk dijonsinnep
  • 1/2 tsk salt
  • smá svartur pipar
  • 18 franskbrauðsneiðar
  • 400 g philadelphia ostur, við stofuhita
  • kirsuberjatómatar
  • ruccola

Steikið beikonið á pönnu. Látið fituna renna af og leggið beikonið til hliðar. Hreinsið kjúklingakjötið frá beinunum og skerið í smáa bita. Hakkið sólþurrkuðu tómatana. Blandið sólþurrkuðum tómötum, majónesi, jógúrti, graslauk, sinnepi, salti, pipar, kjúklingi og beikoni saman í skál.

Skerið kanntinn af brauðsneiðunum. Leggið 6 brauðsneiðar á fat og setjið helminginn af fyllingunni yfir. Leggið aðrar 6 brauðsneiðar yfir fyllinguna og setjið það sem eftir er af fyllingunni yfir. Leggið síðustu 6 brauðsneiðarnar yfir. Setjið plastfilmu yfir og látið standa í ísskáp í 3-4 klst. Smyrjið philadelphia ostinum meðfram hliðunum og yfir brauðtertuna. Skreytið með ruccola og kirsuberjatómötum.

Brauðterta með kjúklingi og beikoniBrauðterta með kjúklingi og beikoniBrauðterta með kjúklingi og beikoni