Ég skammast mín ofan í tær fyrir að hafa gleymt að setja inn uppskriftina að brauðtertunni hennar mömmu, sem svo margar báðu um þegar ég birti mynd af henni fyrr í vetur. Ég hef sjaldan fengið jafn margar fyrirspurnir um uppskrift eins og þessa. Mamma gerir brauðtertuna við hvert tækifæri sem gefst og kom með tvær síðast þegar það var landsleikur. Hún gerir bestu brauðtertur sem ég veit um og þessar hendir hún í eins og ekkert sé.
Þegar ég fór í saltkjöt og baunir til mömmu í síðustu viku var ég ákveðin í að skrifa niður uppskriftina hjá henni. Eyþór bróðir mætti síðan með kampavín og sagði okkur svo frábærar fréttir að ég steingleymdi að fá hana. Núna er ég þó loksins komin með uppskriftina, eða öllu heldur aðferðina, því mamma gerir brauðtertuna alltaf eftir tilfinningu. Þegar hún heyrði að uppskriftin væri á leiðinni á bloggið ætlaði hún að fara að hræra í sósuna til að geta gefið nákvæm mál. Klukkan var 23 á sunnudagskvöldi og ég tók það ekki í mál!
Ég veit ekki af hverju, en ég hef alltaf kallað þessa brauðtertu fyrir þá færeysku. Ég hlýt að hafa misheyrt eitthvað í gamla daga og það var ekki fyrr en nýlega þegar ég spurði mömmu hvort hún ætlaði að gera þá færeysku, að í ljós kom að mamma vissi bara ekkert um hvað ég var að tala. Í kjölfarið komst ég að því að brauðtertan hefur aldrei gengið undir þessu nafni og tengist Færeyjum ekki neitt! Það er því stórfurðulegt að ég hafi haldið að brauðtertan heiti sú færeyska í öll þessi ár og hafi komist upp með að kalla hana því nafni án athugasemda.
Brauðtertan hennar mömmu
Það eru engin nákvæm mál og í raun hægt að nota hvað sem er á brauðtertuna. Mamma tekur skorpuna af brauði (hún notar ýmist fransbrauð eða heilhveitibrauð) og rífur brauðið í botn á eldföstu móti (hún segir að það sé betra að rífa það en að raða sneiðunum í formið, því þá gangi betur að fá sér af brauðtertunni). Síðan hrærir hún saman 2-3 kúfaðar msk af majónesi og 2 kúfaðar msk af sýrðum rjóma (það er best að nota 34% sýrða rjómann) og kryddar sósuna með smá af karrý og aromat (ca 1/2 tsk af hvoru). Hér er mikilvægt að smakka til. Sósuna setur hún síðan yfir brauðið, hún á að fara aðeins inn í brauðið en það á ekki vera þykkt sósulag yfir því (því mömmu finnst það svo ólekkert). Síðan er raðað því sem hugurinn girnist yfir. Mamma er yfirleitt með doppu af rauðkáli í miðjunni, síðan raðar hún í kringum það harðsoðnum eggjum, ananas, skinku, rækjum, reyktum laxi eða silungi (þá sleppir hún annað hvort skinkunni eða rækjunum). Stundum hefur hún hangikjöt, egg, blandað grænmeti og fl. Það virðist sama hvað hún setur yfir, þetta alltaf jafn brjálæðislega gott!
Ein athugasemd á “Brauðtertan hennar mömmu”