Í desember vil ég hafa skápana fulla af góðgæti. Hér áður fyrr bakaði ég óteljandi sortir af smákökum fyrir jólin en það er liðin tíð. Núna geri ég alls konar! Sörur, jólanammi, Rocky road, saffransnúða, smákökur… og allt klárast þetta jafn óðum (nema sörurnar, þær má enginn snerta nema ég). Nýjasta nýtt er þessi kryddaða pretzel- og hnetublanda sem ég gerði fyrr í vikunni og við höfum mumsað á undanfarin kvöld. Blandan fer stórvel með jólabjórnum en er líka þrælgóð með köldu sódavatni. Súpergott!
Krydduð pretzel- og hnetublanda (uppskrift frá David Lebovitz)
- 2 bollar (200 g) blandaðar óristaðar hnetur, t.d. kasjúhnetur, möndlur, salthnetur, pekanhnetur eða heslihnetur
- 1 msk (15 g) ósaltað smjör, brætt
- 3 msk (45 g) púðursykur
- ½ tsk kanil
- ¾ tsk cayenne pipar
- 1½ msk hlynsíróp
- 1 tsk sjávarsalt eða annað gróft salt
- 2 bollar (100 g) litlar pretzel kringlur
Dreyfið úr hnetunum á bökunarplötu og bakið við 180° í 10 mínútur. Hrærið í þeim eftir helming bökunartímans.
Blandið saman bræddu smjöri, púðursykri, kanil, cayenne pipar og hlynsírópi í skál. Bætið heitum hnetunum í skálina og hrærið þar til þær eru húðaðar af blöndunni. Bætið þá salti og pretzel saman við og hrærið öllu saman þar til allt er húðað af smjörkryddblöndunni. Dreyfið úr blöndunni yfir bökunarplötu og setjið aftur í ofninn í 12-18 mínútur og hrærið tvisvar í blöndunni á meðan. Látið kólna alveg áður en borið fram.
Ég hef enga spurningu fyrir þig en mér langar bara svo að þakka þér innilega fyrir þetta fallega og góða Blogg. Ég hreinlega veit ekki hvar ég væri stödd í eldhúsinu ef ég hefði það ekki til leiðsagnar. Ég kíki hér inn daglega spennt að sjá hvað nýtt er og skoða eldri færslur. Er einmitt núna með kjúklingaböku m/sweet chili inní ofni núna 😉
Enn og aftur takk og vonandi heldur þú áfram að hafa ástríðu fyrir þessu svo við hin getum notið góðs af líka 😀
Ástarkveðjur,
Kristín.
Mikið er þetta yndisleg kveðja! Takk fyrir falleg orð, þau hlýja svo sannarlega ❤
Svo flottar hvítar skálar, er hægt að kaupa þær hér á landi?
Já, þær eru frá Kähler. Ég man ekki hvar ég keypti mínar en veit að t.d. Epal, Módern og Líf og list eru að selja þessar vörur 🙂
Ég prufaði þessa uppskrift í gær og jerimías hvað þetta sló í gegn 🙂
Takk fyrir mig.
Gaman að heyra og takk fyrir kveðjuna 🙂
>
Sæl,
Ég hef ekki heldur neina spurningu heldur bara þakklæti fyrir þessa dásamlegu síðu. Ég skoða hana daglega og finn alltaf eitthvað nýtt og spennandi.Nú svo er bara svo gaman að fylgjast með venjulegu lífi ykkar og nýta allar þær spennandi upplýsingar um hönnun,veitingastaði og annað skemmtilegt sem kemur fram í pistlunum hjá þér, mér finnst stundum eins og við séum vinkonur þó svo við þekkjumst ekki neitt. Takk kærlega fyrir að deila öllu þessu með okkur.
Sæl Sigríður. Ég brosi hringinn eftir að hafa lesið þessar línur. Þúsund þakkir fyrir yndislega kveðju. Þú gleður mig inn að hjartarótum ❤
Sæl,
Ég verð að segja það sama og þær hér fyrir ofan. Takk fyrir frábærar uppskiftir, kíki hér reglulega inn fyrir hugmyndir að einhverju gómsætu eins og t.d. þetta hnetumix er er sjúklega gott og þó ég gerði 2 faldra uppskrift er ég að fara að gera meira. Takk takk og gleðilega hátíð 🙂
En gaman að heyra! Takk fyrir kveðjuna og gleðilega hátíð 🙂
>
Þetta hnetumix er svo að slá i gegn hvar sem ég kem það 😊
Gaf þetta í gjafir í byrjun desember, hafði þetta um áramótin og gaf líka í gjöf þá.
Svo núna í gær fór ég með þetta þegar við hittumst áður en við fórum á Þorrablót , þau voru alveg yfir sig hrifin og gátu ekki hætt. Var mikið talað um það að við hefðum átt að taka restina með til að narta í við borðið á Þorrblótinu 😊
Jiiiii hvað það er gaman að heyra þetta. Takk fyrir að segja mér frá