Það er júrovisjónhelgi framundan og á slíkum kvöldum þykir mér maturinn yfir sjónvarpinu nánast mikilvægari en sjónvarpsefnið sjálft. Það er jú lítið varið i júróvisjónkvöld án veitinga! Ég vil hafa góðan en einfaldan mat, sem krefst ekki hnífapara og hægt er að borða auðveldlega yfir sjónvarpinu. Síðan vil ég hafa skálar stútfullar af snakki og nammi. Og nóg af gosi. Hér má hvergi spara!
Um síðustu helgi vorum við með notalegan mat á föstudagskvöldinu sem við borðuðum yfir sjónvarpinu. Ég gerði einfalt nachos í ofnskúffu sem tók enga stund að útbúa. Með nachosinu var ég með salsa, guacamole (ég gerði mér einfalt fyrir og keypti ferskt guacamole í Hagkaup), heita ostasósu og sósu sem ég gerði úr sýrðum rjóma (uppskriftin er hér fyrir neðan). Þetta var svo gott að það gat enginn hætt fyrr en fatið var tómt. Þetta þykir mér vera frábær júróvisjónmatur. Það er einfalt að gera tvöfalda uppskrift ef boðið er fjölmennt og ég held að flest öllum þyki þetta gott. Þetta getur varla klikkað!
Nachos í ofnskúffu (uppskrift fyrir ca 4-5)
- nachosflögur
- 500 g nautahakk
- 1 bréf tacokrydd
- 1 krukka tacosósa (230 g)
- jalapenos
- 1 poki rifinn ostur (ca 250 g)
Setjið nachosflögurnar í ofnskúffu með bökunarpappír. Steikið nautahakkið og kryddið með tacokryddinu. Hellið tacosósunni yfir og blandið vel saman. Setjið nautahakkið og jalapenos yfir nachosið og stráið rifnum osti yfir. Setjið í 200° heitann ofn í 5-10 mínútur, eða þar til osturinn hefur bráðnað.
Köld sósa:
- 2 dl sýrður rjómi
- 1 tsk paprikukrydd
- 1/2 tsk chilikrydd
- salt og pipar
- ítalskt salatkrydd
Hrærið sýrðum rjóma, paprikukryddi og chilikryddi saman og smakkið til með salti, pipar og ítölsku salatkryddi. Látið standa í ísskáp í smá stund.