Á svona vetrardögum þykir mér sérlega notalegt að vera með matarmikla súpu í matinn. Lengi vel eldaði ég súpu í hverri viku en nú var langt um liðið síðan síðast og öllum farið að langa í góða súpu. Þessa gerði ég því um helgina og krakkarnir kláruðu hana upp til agna.
Ég bar súpuna fram með snittubrauði, brúnuðu smjöri og ferskri basiliku. Það tók enga stund að koma matnum á borðið, öllu var bara húrrað í pottinn og látið sjóða saman á meðan ég lagði á borð og kveikt á kertum. Fljótlegra, einfaldara og margfalt betra en að sækja skyndibita!
Rjómalöguð kjúklingasúpa með pasta – uppskrift fyrir 4-5
- 2 kjúklingabringur
- olía til að steikja upp úr
- 1 tsk karrý
- 1 msk tómatpúrra
- salt og pipar
- 6 dl vatn
- 425 g maukaðir tómatar
- 2,5 dl rjómi
- 1,5 dl frosið maís
- 2 tsk kjúklingakraftur frá Oscar
- 1/2 – 1 tsk grænmetiskraftur frá Oscar
- 2 dl pasta
- 1/2 tsk paprikukrydd (má sleppa)
- 1/2 tsk sambal oelek (má sleppa)
- fersk basilika
Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið í olíu í rúmgóðum potti. Bætið öllum öðrum hráefnum fyrir utan maís í pottinn og látið sjóða í 15 mínútur. Bætið maís í pottinn og látið sjóða í nokkrar mínútur til viðbótar. Berið fram með ferskri basiliku til að strá yfir súpudiskinn.
*Færslan er unnin í samstarfi við Innnes