Ég er á smá spani þessa dagana þar sem þessi vika býður upp á hvert skemmtilega kvöldið á fætur öðru. Fyndið hvernig það vill stundum allt raðast á sömu vikuna. Í gærkvöldi var saumaklúbbur, í kvöld erum við stelpurnar í vinnunni að hittast og á morgun fer ég í boð sem ég er búin að lofa að mæta með smá veitingar í. Ég var að setja köku í ofninn til að taka með mér á morgun (er að prófa nýja uppskrift sem ég vona að verði góð) en langaði svo til að kíkja hingað inn fyrir helgina og benda á einfalda og æðislega góða uppskrift sem ég prófaði um daginn.
Ég átti nú ekkert endilega von á að strákarnir yrðu hrifnir af þessum rétti en þar hafði ég heldur betur rangt fyrir mér. Það tók enga stund að henda þessu saman og okkur þótti öllum rétturinn alveg æðislegur. Uppskriftin kemur frá Rikku og ég tók hana beint af matarvef mbl. Ég notaði döðlur í staðin fyrir rúsínur en hélt mér annars alveg við uppskriftina. Súpergott!!
Kúskús með miðausturlenskum innblæstri
fyrir 4
- 500 g kúskús, ég nota forkryddað til að spara tímann
- 500 g persneskur kjúklingur frá Holta (ég var með tvo bakka, minnir að það geri 800 g)
- 2 hvítlauksrif, pressuð
- 100 g rúsínur, saxaðar döðlur eða þurrkaðar fíkjur (ég var með döðlur)
- 2 msk. avókadóolía, til steikingar
- salt og pipar
Sósa
- handfylli ferskt kóríander, fínsaxað
- 1 dós sýrður rjómi 10%
- ¼ tsk. cayenne-pipar
- 1 msk. sítrónusafi
- ½ hvítlauksrif, pressað
- þurrristaðar kasjúhnetur
- granateplakjarnar
Eldið kúskús samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Steikið kjúklinginn upp úr olíunni ásamt hvítlauk og rúsínum. Bætið kúskús saman við, steikið áfram og kryddið með salti og pipar.
Hrærið hráefninu í sósunni saman, má líka skella öllu saman í blandara.
Skellið í skál, stráið kasjúhnetum og granateplakjörnum yfir og berið fram með sósunni. Ég bar réttinn einnig fram með nanbrauði.