Þegar ég var á Balí í fyrra fannst mér svo gaman að smakka matinn þar. Það var sama hvert ég fór, alls staðar fékk ég æðislegan mat. Kjúklingaréttir, pizzur, steikur, ítalskur matur, hamborgarar, mexíkóskur matur, sushi, indónesískar núðlur og steikt hrísgrjón… þetta var hvert öðru betra! Það voru þó indónesísku réttirnir sem stóðu upp úr og ég var ákveðin í að prófa að elda bæði núðlurnar og steiktu hrísgrjónin þegar ég kæmi heim. Þeir réttir fengust út um allt og voru meira að segja á morgunverðarhlaðborðinu á einu af hótelunum.
Nú er rúmt ár liðið síðan ég kom heim frá Balí. Steiktu hrísgrjónin hef ég enn ekki gert en ég lét loksins verða að því að elda indónesísku núðlurnar. Svo sjúklega gott!
Bami Goreng (uppskrift fyrir 4)
- 250 g eggjanúðlur (ósoðnar)
- 4 msk olía (ekki ólífuolía)
- 125 g vorlaukur
- 1 brokkólíhöfuð
- 2 gulrætur
- 700 g kjúklingabringur eða úrbeinuð læri
- 1 tsk karrý
- 1-2 tsk sriracha (sterk chillísósa)
- 1/2 dl. ketchap manis
- 1/2 dl sojasósa
- 2 tsk sesamolía
- 2 dl vatn
- 1 kjúklingateningur
- 1 hvítlauksrif
Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka..Hellið vatninu af þeim og kælið núðlurnar svo þær haldi ekki áfram að soðna.
Skerið brokkólí, salatlauk og gulrætur niður og hafið tilbúið á bakka.
Skerið kjúklinginn í bita og steikið á pönnu. Kryddið hann með salti og pipar. Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar. Bætið olíu og sesamolíu á pönnuna og steikið grænmetið ásamt pressuðu hvítlauksrifi í nokkrar mínútur. Bætið kjúklingnum aftur á pönnuna, kryddið með karrý og sriracha og hrærið öllu vel saman. Setjið vatn, kjúklingatening, ketchap manis, sojasósu og núðlurnar á pönnuna og látið allt hitna saman í nokkrar mínútur. Smakkið til með sojasósu, ketchap manis og sriracha.
Ég bar núðlurnar fram með sriracha, ketchap manis og sweet chili sósu til hliðar, þannig að hver og einn gæti bragðbætt núðlurnar eftir smekk.