Indónesískar kjúklinganúðlur

Þegar ég var á Balí í fyrra fannst mér svo gaman að smakka matinn þar. Það var sama hvert ég fór, alls staðar fékk ég æðislegan mat. Kjúklingaréttir, pizzur, steikur, ítalskur matur, hamborgarar, mexíkóskur matur, sushi, indónesískar núðlur og steikt hrísgrjón…  þetta var hvert öðru betra! Það voru þó indónesísku réttirnir sem stóðu upp úr og ég var ákveðin í að prófa að elda bæði núðlurnar og steiktu hrísgrjónin þegar ég kæmi heim. Þeir réttir fengust út um allt og voru meira að segja á morgunverðarhlaðborðinu á einu af hótelunum.

Nú er rúmt ár liðið síðan ég kom heim frá Balí. Steiktu hrísgrjónin hef ég enn ekki gert en ég lét loksins verða að því að elda indónesísku núðlurnar. Svo sjúklega gott!

Bami Goreng (uppskrift fyrir 4)

 • 250 g eggjanúðlur (ósoðnar)
 • 4 msk olía (ekki ólífuolía)
 • 125 g vorlaukur
 • 1 brokkólíhöfuð
 • 2 gulrætur
 • 700 g kjúklingabringur eða úrbeinuð læri
 • 1 tsk karrý
 • 1-2 tsk sriracha (sterk chillísósa)
 • 1/2 dl. ketchap manis
 • 1/2 dl sojasósa
 • 2 tsk sesamolía
 • 2 dl vatn
 • 1 kjúklingateningur
 • 1 hvítlauksrif

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka..Hellið vatninu af þeim og kælið núðlurnar svo þær haldi ekki áfram að soðna.

Skerið brokkólí, salatlauk og gulrætur niður og hafið tilbúið á bakka.

Skerið kjúklinginn í bita og steikið á pönnu. Kryddið hann með salti og pipar. Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar. Bætið olíu og sesamolíu á pönnuna og steikið grænmetið ásamt pressuðu hvítlauksrifi í nokkrar mínútur. Bætið kjúklingnum aftur á pönnuna, kryddið með karrý og sriracha og hrærið öllu vel saman. Setjið vatn, kjúklingatening, ketchap manis, sojasósu og núðlurnar á pönnuna og látið allt hitna saman í nokkrar mínútur. Smakkið til með sojasósu, ketchap manis og sriracha.

Ég bar núðlurnar fram með sriracha, ketchap manis og sweet chili sósu til hliðar, þannig að hver og einn gæti bragðbætt núðlurnar eftir smekk.

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

 Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Þar sem ferðaþreytan hefur setið í okkur þessa vikuna vorum við staðráðin í að gera vel við okkur í lok hennar með góðum föstudagsmat. Tælenskt er í miklu uppáhaldi og þar sem það var orðið langt síðan ég eldaði núðlur urðu þær fyrir valinu.

Jakob er feikna mikill matgæðingur og er alltaf spenntur fyrir því að prófa nýjungar. Núðlur og núðlusúpur eru þó nokkuð sem hann gæti vel lifað á og þegar ég stakk upp á því að hafa núðlur í föstudagsmatinn þá var hann meira en til.

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Jakob kallar ekki allt ömmu sína í þessum efnum og ég var því sérlega ánægð þegar hann sagði þetta örugglega bestu núðlur sem hann hafi smakkað. Við vorum öll sammála honum um að maturinn væri stórgóður og það var vel borðað, svo vel að Jakobi var hætt að lítast í blikuna. Honum var svo í mun að maturinn myndi ekki klárast því hann langaði að eiga afgang daginn eftir. Ég bar réttinn fram með grófhökkuðum kasjúhnetum og strákarnir fengu sér auka sweet chillisósu á diskkantinn.

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Mér þykir þetta vera ekta föstudagsmatur því hann er bæði einfaldur og æðislega góður. Afganginn af sweet chillisósunni er síðan kjörið að nota sem ídýfu með því að setja hann ofan á sýrðan rjóma eða Philadelphia ost og bera fram með nachoflögum. Sjúklega gott!

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

 • 1 pakki Thai choice rice noodles
 • 7 hvítlauksrif
 • 2 stórar kjúklingabringur
 • 4 msk kartöflumjöl
 • 1 rauð paprika
 • 1 rauður laukur
 • 1 púrrulaukur
 • 1 spergilkálhaus
 • 1 dl Thai choice ostrusósa
 • 1 tsk fiskisósa
 • 5 msk Thai choice sweet chillisósa
 • 2 dl vatn
 • 1 tsk sykur
 • 50 g grófhakkaðar kasjúhnetur

Skerið kjúklingabringurnar í strimla og blandið þeim saman við kartöflumjölið. Skerið laukinn í þunna báta, paprikuna og púrrulaukinn í strimla og spergilkálið í bita. Afhýðið og hakkið hvítlauksrifin.

Hitið rapsolíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er næstum fulleldaður. Bætið hökkuðum hvítlauk, rauðlauk og spergilkáli á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur til viðbótar. Bætið ostrusósu, sweet chillisósu, fiskisósu, sykri og vatni á pönnuna og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Bætið papriku og púrrulauk á pönnuna, sjóðið í 3 mínútur til viðbótar og takið svo pönnuna af hitanum.

Setjið vatn í pott og látið suðuna koma upp. Setjið núðlurnar í pottinn og sjóðið þær í 3 mínútur. Hellið þeim í sigti og skolið þær með köldu vatni. Látið renna vel af núðlunum og bætið þeim síðan á pönnuna. Blandið öllu vel saman og berið fram með grófhökkuðum kasjúhnetum.