Þar sem ég hef ekki verið heima undanfarnar helgar hlakka ég sérlega mikið til helgarinnar. Ég er ekki með nein önnur plön en að slappa af og borða góðan mat. Í kvöld ætla ég að kíkja í matreiðslubækur og athuga hvort ég finni ekki einhverjar spennandi uppskriftir til að prófa. Mér heyrist á krökkunum að þeim langi í mexíkóska kjúklingasúpu og það er alltaf auðvelt að tala mig inn á hana. Hún klikkar aldrei!
Mexíkóskur matur er alltaf vinsæll hér heima og undir lok sumars eldaði ég svo gott tacos sem ég átti alltaf eftir að setja hingað inn. Uppskriftina fann ég á Gimme Delicious en þar má finna margt girnilegt.
Bragðmikið kjúklinga- og avókadó tacos (uppskrift fyrir 4)
- 450 g kjúkingabringur, skornar í munnbita
- 2 msk ólífuolía
- 2 hvítlauksrif, pressuð
- 1 msk chillikrydd
- 1/2 tsk cumin
- 1/4 tsk lauk- eða hvítlaukskrydd
- 1/4 tsk salt
- ferskur limesafi
Skerið kjúklingabringurnar í bita. Blandið saman ólífuolíu, pressuðum hvítlauksrifum, chillikryddi, cumin, laukkryddi og salti. Bætið kjúklingnum í blönduna og hrærið vel saman. Setjið í lokað ílát og látið standa í ísskáp í smá stund (má geyma í allt að 48 klst.). Hitið pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er fulleldaður, 8-12 mínútur. Takið af hitanum og setjið smá limesafa yfir.
Kóriandersósa
- 1/2 bolli sýrður rjómi eða grísk jógúrt
- 1/4 bolli ferskt kóriander
- 1 hvítlauksrif
- 1 tsk limesafi
- salt og pipar
Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða blandara og vinnið saman í 30 sek.
Samsetning
- 2-4 avókadó (fer eftir stærð), skorið í sneiðar
- 6-8 litlar tortillur
Hitið tortillurnar á pönnu. Setjið kjúklinginn á heita tortilluna, setjið avókadó yfir og endið á kóriandersósu.