Ég dáist að þeim sem eru að hlaupa í maraþoninu í dag. Sjálf sit ég enn heima í náttsloppnum og get svarið það að ekkert hefði getað rifið mig út í morgun til að hlaupa. Ég fæ meira að segja hroll við tilhugsunina. Mér þykir svo brjálæðislega notalegt að byrja dagana rólega um helgar, að gera mér eggjahræru og fletta blaðinu yfir morgunmatnum.
Ég veit ekki hvort það sé mikið grillveður í kortunum þessa helgina en ég ofnbakaði maískólfa um daginn sem vöktu gífurlega lukku hér heima. Það má vel bera þá fram með öðru en grillmat, til dæmis með heilsteiktum kjúklingi. Hvernig væri til dæmis að gera hlutina einfalda og kaupa grillaðan kjúkling, heita kjúklingasósu og hrásalat í búðinni og skella síðan maískólfum og frönskum í ofninn þegar heim er komið. Það mun enginn kvarta undan slíkri veislu!
Ofnbakaðir maískólfar
- maískólfar
- salt og pipar
- smjör
Hitið ofninn í 200°. Saltið og piprið maískólfana vel (verið ekkert að spara það!). Klæðið lítið eldfast mót með bökunarpappír og leggið maískólfana í. Setjið vel af smjöri ofan á hvern og einn maískólf og bakið í 35-45 mínútur, eða þar til þeir byrja að brúnast. Snúið maískólfunum annað slagið á meðan þeir eru í ofninum. Þegar þeir koma úr ofninum er smá smjör sett yfir þá áður en þeir eru bornir fram.