Vinsælustu uppskriftir ársins

Áramót

Nú þegar líður að áramótum þykir mér áhugavert að líta yfir bloggárið og skoða hvaða færslur hafa verið vinsælastar á líðandi ári. Helst hefði ég viljað raða í sætin eftir fallegustu myndunum og eigin smekk en það væri þó hálfgert svindl. Þar að auki hefði það varla verið vinnandi vegur fyrir mig að velja á milli uppskrifta. Ég verð þó að segja að ég sakna þess að sjá ekkert brauð á listanum því þau eru mörg í miklu uppáhaldi hjá mér og það sem ég baka hvað oftast.

Það vekur athygli mína að það er engin nýleg færsla á listanum sem fær mig til að efast um hversu marktækur hann sé. Það er hins vegar gaman að rifja þessar uppskriftir upp og ætla því að láta vaða og birta hér lista yfir 10 vinsælustu uppskriftirnar á þessu fyrsta bloggári mínu.

Milljón dollara spaghetti

Það kemur mér ekki á óvart að Milljón dollara spaghettíið vermi toppsætið yfir vinsælustu uppskriftir ársins hér á blogginu. Þessi réttur er mjög fjölskylduvænn og æðislega góður. Ef þið hafið ekki eldað þennan rétt þá mæli ég með að þið látið verða að því.

Mjúk kanilsnúðakaka

Í öðru sæti yfir vinsælustu uppskriftir ársins er mjúka kanilsnúðakakan. Þessi kaka er frábær með kaffinu, lungamjúk og dásamleg. Hún endist aldrei lengi á borðinu og klárast alltaf á svipstundu.

Mexíkósúpa

Þriðja vinsælasta uppskriftin er mexíkósk kjúklingasúpa. Ég hef eldað þessa súpu oftar en eðlilegt getur talist, enda er hún bæði einföld og góð. Krakkarnir elska hana en ég er hrifnari af kjúklingasúpunni með ferskjunum. Hún er 11 vinsælasta uppskriftin á blogginu og náði því ekki á topp 10 listann.

Grískur ofnréttur

Í fjórða sæti er grískur ofnréttur. Hér er annar réttur sem ég mæli svo sannarlega með að þið prófið. Ég hef eldað hann bæði fyrir matarboð og saumaklúbba og hann vekur alltaf lukku. Mér þykir þessi réttur svo æðislega góður og svo sannarlega eiga heima ofarlega á vinsældarlistanum.

Mexíkósk kjúklingabaka

Mexíkóska kjúklingabakan er í fimmta sæti á listanum yfir vinsælustu uppskriftirnar. Hún er algjört æði og ég er ánægð með að hún sé á topp fimm listanum.

Tacobaka

Í sjötta sæti er tacobakan. Líkt og mexíkóska kjúklingabakan finnst mér hún vera frábær föstudagsmatur og áður en ég byrjaði að blogga hafði ég gefið mörgum þessar tvær böku-uppskriftir eftir að hafa boðið upp á þær.  Ég ber báðar þessar bökur fram með góðu salati, nachos, sýrðum rjóma og helst salsa sósu og guacamole. Þetta klikkar aldrei.

Kjúklingur í mildri chilisósu með krumpuðum kartöflum

Í sjöunda sæti er kjúklingur í mildri chili-rjómasósu með krumpuðum kartöflum. Bragðgott og ljúffengt.

Grjónagrautur

Ofnbakaður grjónagrautur er í áttunda sæti. Ég ætlaði varla að trúa því að grjónagrautur næði inn á topplistann og viðurkenni fúslega að mér þykir hann ekki eiga heima þar. Að baka grjónagrautinn í ofni þykir mér hins vegar langbesta eldunaraðferðin að það eitt og sér þykir mér réttlæta sætið.

Súkkulaði- og bananabaka með rjóma

Í níunda sæti er súkkulaði- og bananabaka með rjóma. Mér þykir þessi baka svo stórkostlega góð og hefði viljað sjá hana ofar á lista. Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég er eflaust búin að bjóða öllum sem ég þekki upp á hana. Klárlega uppskrift sem engin má láta framhjá sér fara.

Silvíukaka

Síðast en ekki síst er Silvíukakan. Þessi kaka er mjög vinsæl hér á heimilinu og ég baka hana oft með kaffinu. Það tekur enga stund að gera hana og hráefnið er alltaf til í skápunum.

Ég get þó ekki endað færsluna án þess að minnast á kjúklingabökuna með sweet chili (sem er nýtt uppáhald hjá okkur), uppáhalds brauðið okkar Ögga sem við virðumst ekki ætla að fá leið á, orange chicken sem er svo sjúklega gott, spaghetti bolognese sem ég get borðað í hvert mál og granóla með pekanhnetum sem er hrein dásemd út á ab-mjólkina.

Að lokum vill Öggi fá að mæla með hnetusmjörskökunni sem hann getur ekki hætt að hugsa um og biður mig um að baka við hvert tækifæri sem gefst.

 

8 athugasemdir á “Vinsælustu uppskriftir ársins

  1. Um leið og ég óska þér góðs og gæfuríks árs, vil ég þakka þér fyrir þennan dásamlega vef.Hann tekur öllum öðrum fram finnst mér. Ég er svo fegin að dóttir mín benti mér á hann. Bæði eru uppskriftirnar greinargóðar og svo gerir alveg útslagið að hafa svona fallegar myndir. Það er svo „inspirerandi“
    Hlakka til komandi árs með ljúfum og lekkerum uppskriftum.
    Besta kveðja, Margrét

    1. Sæl Margrét.
      Bestu þakkir fyrir þessa fallegu kveðju. Hún hlýjar mér inn að hjartarótum og gleður mig meira en orð fá lýst. Þvílík forréttindi það eru að hafa svona frábæra lesendur eins og þig. Takk enn og aftur.
      Bestu kveðjur,
      Svava.

  2. Það er svo gaman að skoða það sem þú gerir! Frábært bloggið þitt og mikið hlakka ég til að fylgja þér á nýju ári. Get með sanni sagt að þetta er uppáhalds matarbloggið mitt.
    Svo er bara að skella sér í að prófa topp 10 listann. Minn uppáhalds hingað til er pastarétturinn með kjúklingi, spínati, sítrónu og sólþurrkuðu tómötunum…..

  3. Takk fyrir frábærar uppskriftir og einstaklega fallegar myndir! Ég verð alltaf spennt þegar ég sé að það er komin ný færsla. Á eftir að prófa vinsælasta réttinn, læt af því verða á nýju ári. Bestu kveðjur til þín og þinna elsku Svava.

    Bestu kveðjur,
    Edda

  4. Ég vil þakka kærlega fyrir mig og mína. Þessi fallega síða hefur verið mér óþrjótandi brunnur uppskrifta og hef prófað þær margar hjá þér.
    Bestu kveðjur til þín og fjölskyldu þinnar og ég óska ykkur velfarnaðar á nýju ári.

  5. Sæl Svava. Mig langar að þakka þér fyrir þetta frábæra matarblogg. Búin að prófa ýmislegt þaðan og á eftir að gera meira af því á nýju ári. Gríski ofnrétturinn stendur uppúr af því sem ég hef prófað. Hlakka til að sjá meira af uppskriftum frá þér á nýju ári. Kær kveðja Guðný

  6. Ó guð hvað þetta er dásamlega fagurt og girnilegt…mig langar að vera þessi kona sem kann að gera svona þannig að nú er bara að bretta upp ermarnar og byrja að æfa sig;-D Rock on og hlakka til að fylgjast með þér í nánustu framtíð mín kæra:-)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s