Orange Chicken

Þegar við fórum til Boston í fyrsta skipti féllum við fyrir rétt sem heitir Bourbon Chicken. Við fengum ekki nóg af honum og þegar við komum heim byrjaði ég strax að gúggla uppskriftir að réttinum og prófa mig áfram. Við borðuðum þennan rétt reglulega næstu árin og okkur fannst hann alltaf jafn góður.

Þegar við fórum aftur til Boston, þremur árum síðar, vorum við mjög spennt að fara og fá okkur Bourbon Chicken. Við fórum strax fyrsta kvöldið á veitingastaðinn en þegar við komum þangað bauð afgreiðslukonan okkur að smakka annan rétt, Orange Chicken. Við féllum í stafi, hann var æðislegur. Við pöntuðum okkur bæði Bourbon Chicken og Orange Chicken og vorum alveg sammála um að Orange Chicken hefði vinninginn. Það var síðan sama saga þegar við komum heim, ég fór á netið að leita að uppskriftum og fann helling. Gallinn var að þær voru allar svo ólíkar að ég vissi ekki hvar ég átti að byrja.

Stuttu síðar átti ég leið í Kost og mikið varð ég glöð þegar ég sá að þeir voru að selja tilbúnu Orange Chicken sósuna frá Panda Express. Ég keypti strax tvær flöskur og eldaði réttinn nokkrum sinnum handa okkur og vinum okkar. Rétturinn vakti alltaf lukku og þótti alveg stórgóður. Þegar ég ætlaði að fara að kaupa fleiri flöskur kom ég hins vegar að tómum kofanum því sósurnar voru búnar. Það virðist ekki hægt að ganga að sósunni vísri en af og til birtist hún í hillunum og síðast núna um daginn.

Þar sem mér finnst fátt eins ergilegt og að standa í verlsun leitandi að hráefni sem ég veit ekki hvernig lítur út þá ákvað ég að taka mynd af flöskunni og maísmjölinu ef einhvern skyldi langa að prófa.

Orange Chicken

 • 900 gr kjúklingabringur
 • 2 eggjahvítur
 • 2 tsk salt
 • 2 tsk sykur
 • 2 bollar maísmjöl
 • 5 bollar olía (vegetable oil) til að steikja í

Skerið kjúklingabringurnar í ca 1,5 cm bita og leggið til hliðar. Hrærið vel saman eggjahvítum, salti og sykri í skál og bætið kjúklingabitunum í skálina.  Hitið olíuna í potti upp í 175-190 gráður (eða hitið olíuna bara vel við hæðsta hita). Setjið maísmjölið í hreinan plastpoka og bætið marineruðu kjúklingabitunum út í. Hristið vel þannig að maísmjölið þekji kjúklingabitana.  Djúpsteikið kjúklingabitana í smáum skömmtum í einu þar til þeir verða gylltir á lit. Það tekur um 2-3 mínútur. Þegar kjúlingabitarnir eru tilbúnir eru þeir veiddir upp úr pottinum og lagðir á disk klæddan eldhúspappír. Endurtakið með restina af bitunum.

Hitið sósuna (tæplega hálf flaska fyrir þessa uppskrift) í víðum potti og leyfið henni að sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Hrærið reglulega í pottinum. Bætið djúpsteiktu kjúklingabitunum út í og hrærið vel þannig að þeir hjúpist af sósunni.  Berið fram með hrísgrjónum og salati.

20 athugasemdir á “Orange Chicken

 1. Var með þennan kjúklingarétt um daginn og vá hvað hann er góður, það var hreinlega slegist um bitana…haha ég fór í Kost og keypti fleiri flöskur og við ætlum að hafa Orange Chicken á nýjársdag í matinn og okkur hlakkar öllum mikið til 😉
  Takk fyrir frábæra síðu

 2. Við hjónaleysin elduðum þennan rétt saman í gærkvöldi. Komumst ekki í Kost, til að ná í nefnda Panda Express sósu, fyrir óveðrinu – en náðum upp stemmningu eins og við værum á PF Chiangs eða Grand Lux Cafe sem eru vinsælar keðjur í Bandaríkjunum, nema miklu betri matur. Það var ekki heldur til neitt Maizena mjöl, svo það sem við notuðum í staðinn var hreinlega hveiti og eftirfarandi appelsínusósa: 1 1/2 msk soyjasósa, 1 1/2 msk vatn, 5 msk sykur, 5 msk. hvítvínsedik, börkur af einni appelsínu – allt sett í pott og soðið aðeins niður. Kjúklingabitunum er svo velt uppúr sósunni þegar búið er að steikja þá. Við bárum svo fram eggjanúðlur með þessu í staðinn fyrir hrísgrjón. Þetta er vitanlega ekki réttur sem hægt er að bera fram á hverjum degi (þó bragðsins vegna væri það hægt) – djúpsteiktur matur etv ekki sá hollasti, en með einu bjórglasi er hægt að fíla sig eins og á besta veitingastað. Takk fyrir skemmtileg og einlæg skrif þín hér á síðunni og meiriháttar uppskriftir! Hjálpar manni svo sannarlega að lyfta sér upp yfir allt dægurþrasið á netinu.

  1. Takk fyrir falleg orð Guðrún. Appelsínusósan þín hljómar mjög vel og ég ætla að muna eftir henni næst þegar mig langar í Orange Chicken. Það er alltaf gaman að fá nýjar uppskriftir og ég hlakka til að prófa hana. Takk fyrir að deila uppskriftinni með mér.

  1. Ég man því miður ekki nafnið á veitingastaðnum en hann var staðsettur rétt hjá Childrens Hospital. Gæti verið að hann heiti Dragon Bowl, ég er þó ekki viss. Staðurinn var í það minnsta ekkert sérlega spennandi að heimsækja og ég mun því seint mæla með að gera sér ferð á hann þó að maturinn hafi verið mjög góður 🙂

 3. ummmmmmmmmmmm þessi æðislegi réttur var á borðum hér í kvöld 🙂 Þvílík sæla.
  Gerðum vel af honum því að það hentar okkur vel að eiga afganga á mánudögum vegna æfinga hjá syninum. Var að stelast í kaldan bita og hann er sko ekki síðri kaldur, þvílík sæla 🙂
  Takk kærlega fyrir þessa uppskrift, hún verður hátíðaruppskrift hér þegar að okkur langar að gera vel við vini 🙂
  kveðja
  Kristín S

 4. Þessi sósa fæst núna í Kosti … sá hana um daginn og keypti eina flöksu til að prófa þennan girnilega rétt.

 5. Jimminn hvað þetta er gott og gestirnir og öll fjölskyldan hæstánægð með þetta, alveg sjúklega gott 🙂

 6. Þessi sjúklega góða sósa er loksins komin í aðrar verslanir, kom bara ekki aftur í Kosti og er til í minni flösku 😋
  Bæði hef ég keypt hana í Bónus og Hagkaup og vona ég að hún haldi áfram að vera til en keypti nokkrar bara svona til öryggis 😉
  Búin að gera þennan aftur eftir langþráða bið og vinkona mín er búin að gera hana fyrir fjölskylduna sína og allir sjúkir í þennan rétt 😊

 7. Ég finn hvergi orange sósuna, hvorki í Bónus né Hagkaupi, veistu nokkuð hvar er hægt að fá hana núna?

  1. Æ, en spælandi. Èg sá hana síðast í Hagkaup í Smáralind, spurning hvort það sé hægt að hringja þangað og athuga hvort þeir eigi hana?

   Sent from my iPhone

   >

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s