Orange Chicken

Þegar við fórum til Boston í fyrsta skipti féllum við fyrir rétt sem heitir Bourbon Chicken. Við fengum ekki nóg af honum og þegar við komum heim byrjaði ég strax að gúggla uppskriftir að réttinum og prófa mig áfram. Við borðuðum þennan rétt reglulega næstu árin og okkur fannst hann alltaf jafn góður.

Þegar við fórum aftur til Boston, þremur árum síðar, vorum við mjög spennt að fara og fá okkur Bourbon Chicken. Við fórum strax fyrsta kvöldið á veitingastaðinn en þegar við komum þangað bauð afgreiðslukonan okkur að smakka annan rétt, Orange Chicken. Við féllum í stafi, hann var æðislegur. Við pöntuðum okkur bæði Bourbon Chicken og Orange Chicken og vorum alveg sammála um að Orange Chicken hefði vinninginn. Það var síðan sama saga þegar við komum heim, ég fór á netið að leita að uppskriftum og fann helling. Gallinn var að þær voru allar svo ólíkar að ég vissi ekki hvar ég átti að byrja.

Stuttu síðar átti ég leið í Kost og mikið varð ég glöð þegar ég sá að þeir voru að selja tilbúnu Orange Chicken sósuna frá Panda Express. Ég keypti strax tvær flöskur og eldaði réttinn nokkrum sinnum handa okkur og vinum okkar. Rétturinn vakti alltaf lukku og þótti alveg stórgóður. Þegar ég ætlaði að fara að kaupa fleiri flöskur kom ég hins vegar að tómum kofanum því sósurnar voru búnar. Það virðist ekki hægt að ganga að sósunni vísri en af og til birtist hún í hillunum og síðast núna um daginn.

Þar sem mér finnst fátt eins ergilegt og að standa í verlsun leitandi að hráefni sem ég veit ekki hvernig lítur út þá ákvað ég að taka mynd af flöskunni og maísmjölinu ef einhvern skyldi langa að prófa.

Orange Chicken

  • 900 gr kjúklingabringur
  • 2 eggjahvítur
  • 2 tsk salt
  • 2 tsk sykur
  • 2 bollar maísmjöl
  • 5 bollar olía (vegetable oil) til að steikja í

Skerið kjúklingabringurnar í ca 1,5 cm bita og leggið til hliðar. Hrærið vel saman eggjahvítum, salti og sykri í skál og bætið kjúklingabitunum í skálina.  Hitið olíuna í potti upp í 175-190 gráður (eða hitið olíuna bara vel við hæðsta hita). Setjið maísmjölið í hreinan plastpoka og bætið marineruðu kjúklingabitunum út í. Hristið vel þannig að maísmjölið þekji kjúklingabitana.  Djúpsteikið kjúklingabitana í smáum skömmtum í einu þar til þeir verða gylltir á lit. Það tekur um 2-3 mínútur. Þegar kjúlingabitarnir eru tilbúnir eru þeir veiddir upp úr pottinum og lagðir á disk klæddan eldhúspappír. Endurtakið með restina af bitunum.

Hitið sósuna (tæplega hálf flaska fyrir þessa uppskrift) í víðum potti og leyfið henni að sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Hrærið reglulega í pottinum. Bætið djúpsteiktu kjúklingabitunum út í og hrærið vel þannig að þeir hjúpist af sósunni.  Berið fram með hrísgrjónum og salati.