Ég er svo glöð yfir því að nóvember sé runninn upp. Mánuðurinn sem fyrsta aðventan fellur á. Það sem ég hlakka til! Þegar ég gerði vikuinnkaupinn um síðustu helgi gaf ég mér góðan tíma í að skoða jólavörurnar sem voru komnar í Hagkaup. Það var tvennt sem fékk að fylgja með heim, annars vegar glerkúpullinn á myndinni fyrir ofan sem hreindýrin mín munu fá að liggja í yfir aðventuna og hins vegar nýr jólatrésfótur. Mig hefur lengi dreymt um hvítan jólatrésfót sem er í laginu eins og stjarna og hef upp á síðkastið leitað af slíkum á netinu. Var eiginlega búin að gefa upp alla von á að finna hann hér heima og komin á það að panta hann erlendis frá. Ég ætlaði því varla að trúa mínum eigin augum þegar ég sá hann í Hagkaup, alveg eins fót og ég hafði hugsað mér! Fóturinn er úr stáli, er þungur, massívur og alveg nákvæmlega eins og mig langaði í. Þvílík heppni!
Það er svolítið síðan ég setti vikumatseðil inn en þið vitið vonandi að ef þið skrifið vikumatseðill í leitina þá koma þeir allir upp. Nú þegar það er farið að dimma snemma og kólna í veðri þá langar mig alltaf meira í haustlegri mat. Súpur, kássur og kósýheit með fjölskyldunni og logandi kertaljós á matarborðinu. Það er einn af mörgum kostum vetrarins, hvað allt verður notalegt. Elska það.
Vikumatseðill
Mánudagur: Ítalskur lax með fetaostasósu
Þriðjudagur: Innbakað nautahakk
Miðvikudagur: Ofnbakaður grjónagrautur
Fimmtudagur: Kasjúhnetukjúklingur
Föstudagur: Tacopizzubaka
Með helgarkaffinu: Kúrbítsbrauð með valhnetum og súkkulaði