Með fullri virðingu fyrir klassískum heimagerðum kjötbollum með kartöflumús og sósu, sem ég elska og gæti lifað á, þá er alltaf gaman að bregða út af vananum. Ég prófaði um daginn uppskrift að asískum kjötbollum sem voru mjög ólíkar þeim klassísku en ó, svo góðar og verða klárlega aftur á borðum hér fljótlega.
Asískar kjötbollur (uppskrift fyrir 4)
- 500 g nautahakk
- 1 egg
- 3 msk kálfakraftur (kalv fond)
- 1 + 1 msk rautt karrýmauk
- 1 laukur
- 1 dós kókosmjólk (400 ml)
- 1/2 dl mango chutney
- 10 þurrkuð limeblöð
- kóriander
- salt og pipar
Blandið saman nautahakki, eggi, kálfakrafti, 1 msk karrýmauki, ½ tsk salti og smá pipar. Gerið litlar kjötbollur úr blöndunni.
Fínhakkið laukinn og steikið við vægan hita á pönnu þar til hann er mjúkur en ekki farinn að dökkna. Bætið 1 msk af karrýmauki saman við og steikið saman í 1 mínútu til viðbótar. Hrærið kókosmjólk og mango chutney saman við. Setjið limeblöð og kjötbollurnar í sósuna og látið sjóða undir loki við vægan hita í um 7 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Stráið kóriander yfir eftir smekk og berið fram með hrísgrjónum.
Sæl Svava og takk fyrir allar gómsætu uppskriftirnar. Ég elda og baka mikið frá þér og það vekur alltaf góða lukku.
Hér í uppskriftinn stendur:
1 + 1 msk rautt karrýmauk
Hvað er átt við með 1+1?
kveðja
Halldóra
Hahhh, svona er að lesa ekki leiðbeiningarnar strax… búin að ná þessu.
kv Halldóra
Þessar voru æðislegar, ekki síðri daginn eftir.
-B