Eins og eflaust á mörgum heimilum landsins eru mánudagar oftast fiskidagar hjá okkur. Krakkarnir eru fyrir lifandis löngu búin að fá nóg af plokkfiski og því reyni ég að finna upp á einhverjum nýjungum. Ég datt niður á þennan einfalda rétt á sænsku matarbloggi og hann vakti lukku hjá okkur öllum. Fljótlegt og stórgott!
Þorskur í ljúffengri karrýsósu
- 800 g þorskur
- smjör
- 3 dl matreiðslurjómi
- 1 msk karrý
- smá cayennepipar
- 10 kirsuberjatómatar
- 1/2 grænmetisteningur
- maizena
Skerið þorskinn í 2 x 2 cm bita (hafi fiskurinn verið frosinn er gott að skera hann áður en hann þiðnar alveg) og steikið í smjöri í nokkrar mínútur. Kryddið með karrý, hellið rjóma yfir og myljið hálfan grænmetistening yfir. Látið suðuna koma upp. Skerið kirsuberjatómata í tvennt og bætið út í. Látið sjóða áfram þar til tómatarnir eru orðnir mjúkur. Smakkið til með cayennepipar (farið varlega og byrjið bara á örlitlu). Þykkið með maizena. Berið fram með hrísgrjónum eða soðnum kartöflum.
Snilldarfljótlegur réttur og mjög góður. Ég bætti við tsk af Dijon sinnepi og paprikubitum (því ég átti það til) og sósan varð alveg delish 😀
Rétturinn er frábær, afar bragðgóður og gengur vel í þá sem ekki vilja fisk alla jafna en borða hann samt 🙂
þessi fekk alveg eðal ummæli hér á bæ.
Alveg ofsalega gott og einfalt. Fer ansi vel ofan i 2 ara og 8 ara her.-