Eins og eflaust á mörgum heimilum landsins eru mánudagar oftast fiskidagar hjá okkur. Krakkarnir eru fyrir lifandis löngu búin að fá nóg af plokkfiski og því reyni ég að finna upp á einhverjum nýjungum. Ég datt niður á þennan einfalda rétt á sænsku matarbloggi og hann vakti lukku hjá okkur öllum. Fljótlegt og stórgott!
Þorskur í ljúffengri karrýsósu
- 800 g þorskur
- smjör
- 3 dl matreiðslurjómi
- 1 msk karrý
- smá cayennepipar
- 10 kirsuberjatómatar
- 1/2 grænmetisteningur
- maizena
Skerið þorskinn í 2 x 2 cm bita (hafi fiskurinn verið frosinn er gott að skera hann áður en hann þiðnar alveg) og steikið í smjöri í nokkrar mínútur. Kryddið með karrý, hellið rjóma yfir og myljið hálfan grænmetistening yfir. Látið suðuna koma upp. Skerið kirsuberjatómata í tvennt og bætið út í. Látið sjóða áfram þar til tómatarnir eru orðnir mjúkur. Smakkið til með cayennepipar (farið varlega og byrjið bara á örlitlu). Þykkið með maizena. Berið fram með hrísgrjónum eða soðnum kartöflum.