Þorskur í ljúffengri karrýsósu

Þorskur í ljúffengri karrýsósuEins og eflaust á mörgum heimilum landsins eru mánudagar oftast fiskidagar hjá okkur. Krakkarnir eru fyrir lifandis löngu búin að fá nóg af plokkfiski og því reyni ég að finna upp á einhverjum nýjungum. Ég datt niður á þennan einfalda rétt á sænsku matarbloggi og hann vakti lukku hjá okkur öllum. Fljótlegt og stórgott!

Þorskur í ljúffengri karrýsósu

Þorskur í ljúffengri karrýsósu

 • 800 g þorskur
 • smjör
 • 3 dl matreiðslurjómi
 • 1 msk karrý
 • smá cayennepipar
 • 10 kirsuberjatómatar
 • 1/2 grænmetisteningur
 • maizena

Skerið þorskinn í 2 x 2 cm bita (hafi fiskurinn verið frosinn er gott að skera hann áður en hann þiðnar alveg) og steikið í smjöri í nokkrar mínútur. Kryddið með karrý, hellið rjóma yfir og myljið hálfan grænmetistening yfir. Látið suðuna koma upp. Skerið kirsuberjatómata í tvennt og bætið út í. Látið sjóða áfram þar til tómatarnir eru orðnir mjúkur. Smakkið til með cayennepipar (farið varlega og byrjið bara á örlitlu). Þykkið með maizena. Berið fram með hrísgrjónum eða soðnum kartöflum.

Einfalt fiskgratín með sveppum

Fiskgratín með sveppum

Þó að mig langi allra mest að setja inn uppskriftina að sörunum sem ég baka alltaf fyrir aðventuna eða góðu kókostoppunum sem ég bakaði um helgina þá sé ég hag minn vænstan í því að gefa frekar uppskrift að þessum fiskirétti. Ástæðan er sú að ég er farin að hræðast að lesendur haldi að við borðum fátt annað en smákökur og sætindi þessa dagana og kippist orðið við í hvert skipti sem síminn hringir af hræðslu við að Lýðheilsustöð sé að hringja til að lesa yfir mér.

Svo ég eldaði fisk. Einfalt og mjög gott fiskgratín sem öllum líkaði vel. Mér brá þó heldur í brún þegar ég sá myndirnar sem ég tók því þær voru svo hræðilega ljótar. Sveppirnir líta út eins og nautahakksklessur og nánast ómöglegt að átta sig á að þarna sé fiskgratín á ferð. Þið takið vonandi viljann fyrir verkið og trúið mér þegar ég segi að rétturinn var svo mikið betri en myndirnar gefa til kynna.  Okkur þótti hann stórgóður og ég ætla að elda hann fljótlega aftur.

Fiskgratín með sveppum

Einfalt fiskgratín með sveppum

 • 700 g þorskur eða ýsa
 • 1 tsk + ½ tsk salt
 • 250 g sveppir
 • 2 msk bragðdauf olía
 • 2 hvítlauksrif
 • 2 dl rjómi
 • ½ – 1 msk maizena
 • ½ – 1 grænmetisteningur
 • 1 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°. Saltið fiskinn með 1 tsk af salti og leggið hann i eldfast mót. Skerið sveppina í sneiðar og steikið í olíu í um 5 mínútur. Skalið og fínhakkið hvítlaukinn og steikið hann með sveppunum síðustu 2 mínúturnar. Kryddið með ½ tsk af salti og hellið rjóma saman við. Látið sjóða í 2 mínútur og bætið þá maizenasterkju í sósuna. Setjið grænmetiskraft út í og látið sjóða um stund. Hellið sveppasósunni yfir fiskinn, stráið rifnum osti yfir og bakið í miðjum ofni í um 20 mínútur.

Gratineraður fiskur á hrísgrjónabeði

Dagurinn er búinn að vera viðburðaríkur hjá smáfuglum heimilisins. Klukkan níu í morgun voru bræðurnir mættir í útvarpsviðtal fyrir bæði Leynifélagið og morgunútvarp Rásar 2 vegna Reykjavíkurmaraþonsins. Þeim var boðið að koma í viðtal því Gunnar ætlar að hlaupa 10 km til styrktar Neistans, félagi hjartveikra barna. Hann ákvað það fyrir ári síðan en ég held að það hafi enginn tekið hann alvarlega þá, í það minnsta ekki við.

Gunnar talaði reglulega um maraþonið í vetur og í byrjun sumars sagði hann að nú væri ekki lengur til setunnar boðið, hann yrði að fara að æfa sig. Mér fannst hugmyndin svo galin að ég reyndi hvað ég gat að tala hann af þessu, benti honum á að þetta væri svo löng vegalengd, að hann væri ekki vanur að hlaupa og ætti enga hlaupaskó en hann sagðist alveg getað hlupið þetta í gúmítúttunum sínum. Gunnar gaf sig ekki og það fór svo að Öggi fór með honum út að hlaupa og hlupu þeir 7 km. Við vorum alveg orðlaus yfir dugnaðinum og fórum með hann daginn eftir og keyptum hlaupaskó.  Síðan þá hefur Gunnar hlupið reglulega í sumar og tók þátt í Ármannshlaupinu í júlí þar sem hann náði mjög góðum árangi og hljóp 10 km á 54.28.

Nú styttist óðum í Reykjavíkurmaraþonið og ég verð að viðurkenna að ég verð fegin þegar það verður yfirstaðið. Ég er nefnilega hræðileg íþróttamamma, fer alveg á taugum og ímynda mér allt það versta sem getur komið fyrir. Ef einhvern langar að heita á þennan flotta strák minn og styrkja gott málefni þá er hægt að gera það hér.

En úr maraþoni í kvöldmatinn. Það er alltaf jafn gott að fá fisk í byrjun vikunnar og í dag kom Öggi við í fiskbúðinni á leiðinni heim og keypti glæsilegan þorsk. Ég gerði þennan fiskrétt úr þorskinum sem rann vel ofan í fjölskylduna.

Gratineraður fiskur á hrísgrjónabeði

 • hrísgrjón (ég sauð 1 1/2 bolla fyrir okkur átvöglin)
 • þorskur eða ýsa (ég var með 1 kg)
 • töfrakrydd (má sleppa)
 • 2,5 dl rjómi
 • 3 msk majónes
 • 2 tsk dijon sinnep
 • 2 tsk karrý
 • 50-100 gr ferskrifinn parmesan
 • rauð paprika
 • 1/2 blaðlaukur
 • 200 gr rifinn ostur

Hitið ofninn í 180°. Sjóðið hrísgrjón og leggið í botninn á eldföstu móti. Skerið fiskinn í sneiðar, leggið yfir hrísgrjónin og kryddið með salti, pipar og því sem þykir gott (ég notaði töfrakrydd frá Pottagöldrum). Hrærið saman rjóma, majónesi, sinnepi, karrý og parmesan. Smakkið til og saltið og piprið. Hellið sósunni yfir fiskinn og stráið fínskorinni papriku og blaðlauk yfir. Setjið að lokum rifinn ost yfir og bakið í ca 30 mínútur.