Eftir Stokkhólmsfærsluna er kannski viðeigandi að setja inn uppskrift af pizzu sem er vinsæl í Svíþjóð og í miklu uppahaldi hjá mér. Ég hef séð pizzuna víða á sænskum bloggum en hún er bæði einföld (sérstaklega ef maður kaupir tilbúið pizzadeig) og brjálæðislega góð.
Þessi pizza er eflaust ekki allra og krakkarnir hér fúlsa við henni en ég fæ ekki nóg. Mér þykir hún himnesk og passa sérlega vel yfir sumartímann með köldu hvítvínsglasi. Þið bara verðið að prófa!
Pizza með sýrðum rjóma og kavíar
- pizzabotn
- philadelphia rjómaostur
- parmesan
- rauðlaukur
- graslaukur
- sýrður rjómi
- kavíar
- sítróna
Gerið pizzadeig eða kaupið tilbúið og fletjið/rúllið út. Smyrjið Philadelphia rjómaosti yfir og stráið rifnum parmesan yfir rjómaostinn. Skerið rauðlaukinn niður og stráið yfir. Bakið við 200° í ca 10-15 mínútur. Takið pizzuna úr ofninum, stráið graslauk yfir og setjið doppur af sýrðum rjóma og kavíar yfir pizzuna. Skreytið með sítrónusneiðum og berið fram.
Gæti reyktur lax ekki komið í staðin fyrir hrognin?