Gróft sírópsbrauð

Gróft sírópsbrauð

Þegar börnin voru sofnuð í gærkvöldi kom yfir mig skyndileg löngun til að baka brauð. Öggi var búinn að koma sér fyrir í sjónvarpsófanum, tilbúinn í Fraiserkvöld með mér (við erum búin að vera að horfa á Fraiser-þættina frá upphafi og erum loksins komin á lokaseríuna) þegar ég sagði honum frá brauðbaksturslöngun minni. Hann varð að vonum himinlifandi við tilhugsunina um nýtt brauð í morgunmat og hvatti mig til verka.

Það er óhætt að segja að brauðbaksturinn hafi ekki tekið kvöldið frá okkur því 10 mínútum síðar var brauðið komið í ofninn. Það tekur nefnilega ekki meira en nokkrar mínútur að hræra í það og áður en maður veit af stendur nýbakað brauð á eldhúsborðinu.

Gróft sírópsbrauð

Gróft sírópsbrauð

 • 4 dl hveiti
 • 2 dl heilhveiti
 • ½ dl rúgmjöl
 • ½ tsk salt
 • ½ dl sólblómafræ
 • ½ dl hörfræ
 • ½ dl rúsínur
 • ½ dl hakkaðar heslihnetur
 • 5 dl súrmjólk (eða ab-mjólk)
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 dl síróp

Hrærið súrmjólk, sírópi og matarsóda saman í skál og leggið til hliðar. Blandið öllum öðrum hráefnum saman og hrærið súrmjólkurblöndunni vel saman við. Setjið deigið í smurt brauðform (ég velti fimmkornablöndu um það eftir að ég smurði formið) og stráið ef fræjum eða höfrum yfir (má sleppa). Bakið neðarlega í ofninum við 175° í 60 mínútur.

Múslíbrauð með fræjum, kornum og öðru góðgæti

Það er óhætt að segja að þessi sunnudagur hafi verið notalegur. Fyrir utan að Öggi og Gunnar rifu sig upp eldsnemma í morgun til að taka þátt í Hjartadagshlaupinu þá hefur þessum degi verið eytt hér heima í mestu makindum. Ég elska svona daga, þar sem ekkert stendur til og allir eru heima.

Á meðan Öggi og Gunnar hlupu í morgun bakaði ég nýtt brauð. Ég notaði það hráefni sem ég átti í skápunum og úr varð stórgott gróft brauð. Það er svo gaman að baka brauð og hægt að leika sér endalaust með uppskriftirnar. Ég ákvað að hafa bæði hvítt hveiti og heilhveiti en auðvitað er hægt að skipta því út fyrir hvaða mjöl sem er. Sama er með kornin og fræin, ég átti 5 korna blöndu sem ég ákvað að nota og bætti síðan sólkjarna- og graskersfræjum við. Rúsínurnar gáfu sætu og hunangið gerði allt gott. Það var ósköp notalegt að fá þá heim og setjast saman niður yfir nýbökuðu brauði.

Múslíbrauð með fræjum, kornum og öðru góðgæti

 • 4 dl hveiti
 • 3 1/2 dl heilhveiti
 • 3 1/2 dl múslí (ég var með Organic basic muesli frá Crispy Food)
 • 1 dl graskersfræ
 • 1 1/2 dl fimmkornablanda
 • 2 1/2 dl solkjarnafræ
 • 1 1/2 dl rúsínur
 • 1 tsk maldon salt
 • 3 msk fljótandi hunang
 • 1 msk vínsteinslyftiduft (má líka nota venjulegt lyftiduft)
 • 2 dl vatn
 • 7 dl ab-mjólk

Hitið ofninn í 200°. Blandið þurrefnum saman í skál. Setjið hunang, vatn og ab-mjólk saman við og hrærið öllu varlega saman. Látið deigið í smurt brauðform eða formkökuform og bakið í ca 55-60 mínútur.