Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu

Í dag var fyrsti vinnudagurinn minn eftir sumarfrí og lífið því dottið aftur í sína eðlilegu rútínu. Eins og mér þykir æðislegt að vera í fríi þá finnst mér alltaf jafn gaman þegar allt hefst að nýju eftir sumarið. Hversdagsrútínan er notaleg!

Mér þykir svona heimilismatur alveg hreint dásamlega góður og sérstaklega núna þegar það eru nýjar kartöflur í búðunum. Við létum okkur nægja að bera hann bara fram með nýjum kartöflum og sultu en bæði hrásalat og ferskt salat fer auðvitað stórvel með.

Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu (uppskrift fyrir 4)

 • 600 g nautahakk
 • 1/2 dl brauðrasp
 • 1/2 dl rjómi
 • 1 dl mjólk
 • 1 egg
 • 1 laukur
 • 2 tsk salt
 • svartur pipar
 • 1 tsk sykur

Blandið rjóma, mjólk og brauðraspi saman í skál og látið standa í 5 mínútur. Setjið hakkaðan lauk, egg, salt, sykur og pipar saman við og notið töfrastaf til að blanda öllu saman. Setjið að lokum nautahakkið saman við og blandið öllu vel saman. Mótið buff og steikið upp úr vel af smjöri.

Karamelluseraður laukur

 • 3 gulir laukar
 • salt
 • sykur
 • pipar
 • smjör

Skerið laukinn þunnt niður. Bræðið smjör á pönnu og setjið laukinn á. Steikið við miðlungshita (passið að hafa hitann ekki of háann), laukurinn á að mýkjast og fá smá lit. Hrærið annað slagið í lauknum. Setjið salt, sykur og pipar eftir smek undir lokin og látið laukinn karamelluserast.

Rjómasósa

 • steikingakraftur frá hakkabuffinu
 • 2 dl rjómi
 • 2 dl sýrður rjómi
 • 1-2 grænmetisteningar
 • salt og pipar
 • sojasósa
 • maizena til að þykkja.

Blandið öllu saman í pott og látið sjóða saman. Smakkið til! Endið á að þykkja með maizena eftir smekk.

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Hakkabuff með parmesan í raspi

Hakkabuff með parmesan í raspi

Ég er búin að vera með pannerað hakkabuff á heilanum síðan ég las komment hér á síðunni frá Halldóri Tjörva. Til að fá hugarró kom ég við í búð á leiðinni heim í gær og keypti nautahakk. Þegar heim var komið reyndist lítið til af meðlæti á heimilinu, enda kom hakkabuff alveg óvænt inn á vikumatseðilinn, en það má alltaf tína eitthvað til. Það kom á daginn að kartöflur, hrásalat, sveppasósa og sulta fór ljómandi vel með buffinu, þó að rauðbeður og lauksósa hefðu eflaust ekki skemmt fyrir.

Það er langt síðan ég komst að því að mér þykir allt í raspi gott en hamingjan hjálpi mér hvað mér þótti þetta góður matur. Ég sendi Halldóri Tjörva mínar bestu þakkir fyrir kommentið sem varð til þess að þessi ljúffengu buff enduðu á diskunum okkar.

Hakkabuff með parmesan í raspi

Hakkabuff með parmesan í raspi

 • 500 g nautahakk
 • 100 g rifinn parmesan ostur
 • 1 laukur, fínhakkaður (ég mauka hann með töfrasprota)
 • 1 hvítlauskrif
 • 2 egg
 • 2 msk Dijon sinnep
 • 1 tsk salt
 • 1/2 tsk pipar

Hitið ofninn í 175° og sjóðið kartöflur.

Hakkabuff með parmesan í raspi

Blandið nautahakki, parmesan osti, lauki, pressuðu hvítlauskrifi, sinnepi, eggjum, salti og pipar saman. Mótið 8 buff og leggið til hliðar.

Takið 3 skálar og setjið hveiti í eina, upphrært egg í eina og rasp í eina.

Veltið buffinu fyrst upp úr hveiti, síðan eggi og að lokum raspi. Steikið upp úr vel af smjöri og olíu og færið svo yfir í eldfast mót. Þegar öll buffin hafa verið steikt eru þau sett í ofninn í ca 10 mínútur.

Hakkabuff með parmesan í raspi

Hakkabuff með fetaosti

Hakkbuff með fetaosti

Í gærkvöldi bauð mamma okkur í lambalæri sem hún bar fram með kartöflugratíni og salati. Í eftirrétt hafði hún bakað danska eplaköku sem var, að sjálfsögðu, borin fram með rjóma (því mamma elskar rjóma…. og allt danskt). Ég gæti vel vanist því að vera boðin í svona veislu á hverjum mánudegi og þótti þetta þvílíkur hversdagslúxus. Ég nýtti tækifærið og fékk uppskrift að súkkulaðimúsinni hennar mömmu sem krakkarnir elska og eru alltaf að biðja hana um að gera. Ég ætla að setja hana hingað inn við tækifæri.

Núna ætla ég hins vegar að gefa uppskrift að ljúffengu hakkabuffi. Þessi hakkabuff mega gjarnan vera oftar á disknum mínum því mér þykja þau svo bragðgóð og ljúffeng. Það er eitthvað notalegt við þau og krakkarnir borða buffin alltaf af bestu lyst. Með soðnum kartöflum og sultu verða þau að dýrindismáltíð sem er einfalt að útbúa og allir kunna að meta.

Hakkbuff með fetaosti

Hakkabuff með fetaosti

 • 700 g nautahakk eða blanda af nauta- og svínahakki
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 egg
 • 2 tsk þurrkað oregano
 • 150-200 g mulinn fetaostur
 • salt og pipar
 • smjör til að steikja upp úr

Sósa

 • 2 msk smjör
 • 1/2 dl vatn
 • 3 dl rjómi
 • 2-3 msk kalvfond (eða grænmetisteningur)
 • maizena
 • salt og pipar
 • smá rifsberjahlaup (má sleppa)

Hakkbuff með fetaosti

Blandið hráefninu í buffin vel saman (mér þykir gott að setja allt í hrærivélina) og mótið stór buff úr þeim. Steikið buffin á pönnu upp úr vel af smjöri. Á meðan er ofninn hitaður í 125°. Þegar buffin eru tilbúin eru þau sett í eldfast mót og inn í ofn til að halda þeim heitum.

Steikarsoðið af buffunum er notað í sósuna. Þegar öll buffin hafa verið steikt er væn smjörklípa sett á pönnuna. Bætið vatni og rjóma á pönnuna og smakkið til með kalvfond, salti og pipar. Mér þykir stundum gott að setja smá af rifsberjahlaupi í sósuna en því má sleppa. Að lokum er sósan þykkt með maizena . Leggið buffin í sósuna og látið þau sjóða í sósunni um stund við vægan hita.

Berið buffin fram með soðnum kartöflum og sultu.