Lasagnabaka

Ég er hrifin af bökum og hef þær oft í matinn. Þær eru svo fallegar á borði og gaman að bera þær fram. Ég keypti mér nýlega bökumót með lausum botni sem gerir bökuna enn fallegri. Áður en ég eignaðist það notaði ég lausbotna kökuform sem virkaði auðvitað jafn vel þó að útlitið sé ekki það sama.

Það er hægt að gera bökur á svo óteljandi vegu og gaman að prófa nýjar fyllingar. Um daginn var ég með þessa lasagnaböku í matinn sem okkur þótti æðislega góð. Mér datt í hug að setja uppskriftina inn ef einhver er að leita að hugmynd fyrir kvöldið.

Í dag er stefnan tekin á Ikea þar sem ég ætla meðal annars að byrgja mig upp af lingonsultu til að eiga á lager fyrir þetta brauð (uppáhalds!). Ég hef talað um þetta brauð oft áður en það er bara svo dásamlega gott að ég fæ ekki leið á því.

Lasagnabaka

Skelin:

 • 125 g smjör
 • 3 dl hveiti
 • 3 msk kalt vatn
 • smá salt

Fylling:

 • 400 g nautahakk
 • 1 laukur
 • 1 msk tómatpuré
 • 1/2 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
 • salt og pipar
 • krydd eftir smekk (td. taco, oreganó, timjan, basil…)
 • 1 msk rauðvínsedik (eða balsamikedik)
 • 3 dl bechamelsósa (uppskrift fyrir neðan)
 • 3 dl rifinn ostur
 • 3 dl rjómi
 • 4 egg
 • salt og pipar

Vinnið saman hráefnin í skelina. Látið deigið hvíla í ískáp um stund og klæðið síðan bökuform með því. Stingið með gaffli um botninn og klæðið kantinn með álpappír (til að hann renni ekki niður) og forbakið í 10 mínútur við 225°.

Hakkið laukinn og steikið ásamt nautahakkinu. Kryddið og bætið ediki, tómatpuré og hökkuðum tómötum. Látið sjóða saman við vægan hita um stund og smakkið til.

Bechamelsósa

 • 1,5 msk smjör
 • 1,5 msk hveiti
 • 3 dl mjólk
 • smá salt, hvítur pipar og múskat

Bræðið smjörið í potti við vægan hita og hrærið hveitinu út í þannig að það blandist vel. Hrærið mjólkinni saman við í smáum skömmtum og hrærið stöðugt í pottinum á meðan. Sjóðið sósuna við vægan hita í 5 mínútur og hrærið annað slagið í henni. Bragðbætið með salti, hvítum pipar og múskati.

Setjið nautahakksblönduna í bökuskelina og rifinn ost yfir. Hellið bechamelsósunni yfir. Hrærið saman eggjum og rjóma og kryddið með salti og pipar. Hellið yfir bökuna og bakið í 225° heitum ofni í ca 30-40 mínútur. Setjið álpappír yfir hana í lokin ef hún er að verða of dökk.

6 athugasemdir á “Lasagnabaka

 1. Vá hvað þessi baka er girnileg…… og svo falleg. Held að ég verði að fjárfesta í svona formi. Var að spá í það hvort ég ætti að baka eina svona fyrir kvöldið. Held að ég eigi allt í þetta. Var með kjúklingasúpuna þína í gær. Hún var unaðsleg.
  Knús, tengdamamma Malín

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s