Kanilsnúðar í ofnskúffu

Ég, sem horfi allt of sjaldan á sjónvarpið og kann varla að kveikja á Netflix, var svo gjörsamlega búin á því á föstudagskvöldinu að ég sendi krakkana eftir Dominos og nammi og lá síðan í sófanum það sem eftir lifði kvöldins að horfa á The Crown. Þvílíkir þættir! Nú skilst mér að ég sé síðust allra að uppgötva þá en ég get ekki hætt að horfa, sem varð til þess að það varð ekkert af bloggfærslu yfir helgina.

Þeir sem fylgja mér á Instagram gátu þó kannski séð að ég lá nú ekki bara í sófanum heldur vaknaði svo úthvíld á laugardeginum (svaf í rúma 10 tíma án þess að rumska!) að ég var búin að rífa af rúmunum, taka til í geymslunni og baka kanilsnúða áður en dagurinn var hálfnaður. Snúðarnir enduðu á Instagram og nú kemur uppskriftin. Þetta eru eflaust einföldustu kanilsnúðar sem hægt er að baka því degið er bara brotið saman og sett í ofnskúffu. Það væri því eflaust réttara að kalla þá kanilferninga. Mér þótti vera aðeins of mikil fylling í þeim en var ein um að finnast það. Næst mun ég því hafa minni fyllingu. Annars voru þeir fullkomnir!

Kanilsnúðar í ofnskúffu

Deig:

 • 100 g smjör
 • 5 dl mjólk
 • 50 g þurrger (1 pakki)
 • 1/2 tsk salt
 • 1,5 dl sykur
 • 2 tsk kardemommur
 • hveiti eftir þörfum

Fylling:

 • 200 g philadelphiaostur
 • 100 g smjör við stofuhita
 • 3 msk kanil
 • 1,5 dl sykur
 • 1 msk vanillusykur

Yfir snúðana:

 • upphrært egg
 • perlusykur

Bræðið smjörið í potti og hrærið mjólkinni saman við. Hitið blönduna þar til hún hefur náð um 37° hita og setjið hana í skál. Hrærið geri, sykri, salti og kardemommu saman við. Leggið viskastykki yfir skálina og látið standa í nokkrar mínútur (þar til gerið byrjar að freyða). Hrærið því næst hveitinu saman við þar til deigið fer að losna frá könntum skálarinnar (byrjið á um 6 dl og bætið svo hveitinu smátt og smátt saman við). Látið hnoðarann á hrærivélinni (eða hnoðið með höndunum) ganga í 10 mínútur. Látið degið hefast á hlýjum stað (ég læt gerdeig alltaf hefast við 35-40° í ofninum) þar til það hefur tvöfaldast í stærð.

Hrærið öllu saman í fyllinguna með handþeytara.

Fletjið deigið út og smyrjið fyllingunni yfir. Brjótið deigið saman, þannig að það verði þrjú lög af deigi, og leggið í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Mótið deigið þannig að það fylli út í ofnskúffuna. Skerið göt efst í deigið og skerið síðan út passlega stóra snúða. Látið snúðana hefast í 30 mínútur. Penslið þá með upphrærðu eggi og stráið perlusykri yfir. Bakið við 200° í 17-20 mínútur í neðri hluta ofnsins. Látið snúðana kólna aðeins áður en þeir eru teknir í sundur.

Saffransnúðar með marsípani

Saffransnúðar með marsípani

Í gær tendruðum við annað aðventuljós, Betlehemljósið, og í dag eru bara tvær vikur til jóla. Ótrúlegt hvað þessar vikur líða hratt. Mér finnst ég ekki enn hafa náð að skreyta almennilega en það stendur þó til bóta í vikunni.

Ég man varla eftir jafn annasamri og skemmtilegri viku eins og þeirri sem leið. Eftir saumaklúbba og gönguhóp fyrripart vikunnar fór ég á jólahlaðborð á Kolabrautinni á föstudagskvöldinu og á Frostrósartónleikana á laugardagskvöldinu. Við Öggi vorum sérlega spennt fyrir tónleikunum því við buðum Malínu með okkur en það hefur lengi verið draumur hjá henni að fara á Frostrósartónleika.  Hún var að vonum glöð þegar við sögðum henni að við værum að fara og það var ekki annað hægt en að smitast af upplifun hennar á tónleikunum. Í vikunni ætlum við Öggi enn og aftur í Hörpu og þá á jólatónleika KK og Ellenar. Þau hafa lengi verið í uppáhaldi og jóladiskurinn þeirra hljómar hér allan desembermánuð. Ég get því varla beðið.

Saffransnúðar með marsípani

Öggi kom mér á óvart með annarri aðventugjöf. Núna gaf hann mér æðislega bók, stútfulla af girnilegum súkkulaðiuppskriftum. Við Malín erum búnar að liggja yfir bókinni, flett síðunum fram og til baka og okkur langar í allt sem í henni er. Kannski jólagjafahugmynd fyrir sælkera?

Ég endaði vikuna á því að baka jólasnúðana okkar og hef aldrei áður verið jafn sein í því.  Ég hef bakað þessa snúða í mörg ár og hef þá alltaf tilbúna fyrir aðventuna. Þeir eru með því besta sem við fáum og það var því mikil gleði á heimilinu þegar ilmurinn af þeim fór að berast um húsið.

Saffransnúðar með marsípani

Uppskriftin hefur verið í fórum mínum síðan á Svíþjóðarárum okkar. Ég man að það var engin önnur en Charlotte Perelli, sænska söngkonan sem sigraði Eurovision 1999 við lítinn fögnuð íslendinga, sem gaf þessa uppskrift. Ég er eflaust ein af fáum íslenskum aðdáendum hennar og þykir jólaplatan hennar, Rimfrostjul, með þeim fallegri sem ég veit um.

Uppskriftin er mjög stór og ég frysti snúðana alltaf um leið og þeir koma úr ofninum. Það jafnast fátt við að hita sér snúð með kaffinu á aðventunni og þó uppskriftin sé stór þá klárast snúðarnir alltaf fyrir jól.

Saffransnúðar með marsípani

Saffransnúðar með marsípani

 • 300 g smjör
 • 1 líter mjólk
 • 2 pokar þurrger
 • 2 dl sykur
 • 1 tsk salt
 • 2,2-2,5 lítrar hveiti (ég mæli það aldrei heldur nota bara eins mikið og mér þykir þurfa)
 • 1 g saffran

Fylling

 • brætt smjör
 • rifið marsípan
 • kanilsykur
 • vanillusykur (má sleppa)

Bræðið smjörið í potti og bætið mjólkinni saman við. Hitið blönduna í 37°.

Setjið gerið í skál og hellið mjólkurblöndunni yfir. Bætið saffran saman við og hrærið aðeins í blöndunni. Bætið sykri og salti saman við.

Hellið hveitinu í lítramál beint úr pokanum (þessu hef ég alltaf sleppt) og bætið saman við mjólkurblönduna. Farið varlega af stað með hveitið og ekki setja allt í einu. Vinnið deigið vel saman og hafið það eins blautt og þið komist upp með til að snúðarnir verði ekki þurrir.

Látið deigið hefast undir viskastykki í 30 mínútur (ég læt það oft hefast aðeins lengur). Hnoðið deigið þá á hveitistráðu borði. Skiptið deiginu í þrjá hluta og fletjið hvern hluta út í aflanga köku.

Smyrjið bræddu smjöri yfir deigið, stráið kanilsykri síðan yfir smjörið, þar næst rifnu marsípani og að lokum smá vanillusykri. Rúllið deiginu upp í rúllu, skerið í sneiðar og setjið í stór muffinsform.

Látið snúðana hefast undir viskastykki í 30 mínútur.

Penslið snúðana með upphrærðu eggi og stráið perlusykri yfir þá.

Bakið við 250° í 5-8 mínútur.

Saffransnúðar með marsípani