Kanilsnúðar í ofnskúffu

Ég, sem horfi allt of sjaldan á sjónvarpið og kann varla að kveikja á Netflix, var svo gjörsamlega búin á því á föstudagskvöldinu að ég sendi krakkana eftir Dominos og nammi og lá síðan í sófanum það sem eftir lifði kvöldins að horfa á The Crown. Þvílíkir þættir! Nú skilst mér að ég sé síðust allra að uppgötva þá en ég get ekki hætt að horfa, sem varð til þess að það varð ekkert af bloggfærslu yfir helgina.

Þeir sem fylgja mér á Instagram gátu þó kannski séð að ég lá nú ekki bara í sófanum heldur vaknaði svo úthvíld á laugardeginum (svaf í rúma 10 tíma án þess að rumska!) að ég var búin að rífa af rúmunum, taka til í geymslunni og baka kanilsnúða áður en dagurinn var hálfnaður. Snúðarnir enduðu á Instagram og nú kemur uppskriftin. Þetta eru eflaust einföldustu kanilsnúðar sem hægt er að baka því degið er bara brotið saman og sett í ofnskúffu. Það væri því eflaust réttara að kalla þá kanilferninga. Mér þótti vera aðeins of mikil fylling í þeim en var ein um að finnast það. Næst mun ég því hafa minni fyllingu. Annars voru þeir fullkomnir!

Kanilsnúðar í ofnskúffu

Deig:

  • 100 g smjör
  • 5 dl mjólk
  • 50 g þurrger (1 pakki)
  • 1/2 tsk salt
  • 1,5 dl sykur
  • 2 tsk kardemommur
  • hveiti eftir þörfum

Fylling:

  • 200 g philadelphiaostur
  • 100 g smjör við stofuhita
  • 3 msk kanil
  • 1,5 dl sykur
  • 1 msk vanillusykur

Yfir snúðana:

  • upphrært egg
  • perlusykur

Bræðið smjörið í potti og hrærið mjólkinni saman við. Hitið blönduna þar til hún hefur náð um 37° hita og setjið hana í skál. Hrærið geri, sykri, salti og kardemommu saman við. Leggið viskastykki yfir skálina og látið standa í nokkrar mínútur (þar til gerið byrjar að freyða). Hrærið því næst hveitinu saman við þar til deigið fer að losna frá könntum skálarinnar (byrjið á um 6 dl og bætið svo hveitinu smátt og smátt saman við). Látið hnoðarann á hrærivélinni (eða hnoðið með höndunum) ganga í 10 mínútur. Látið degið hefast á hlýjum stað (ég læt gerdeig alltaf hefast við 35-40° í ofninum) þar til það hefur tvöfaldast í stærð.

Hrærið öllu saman í fyllinguna með handþeytara.

Fletjið deigið út og smyrjið fyllingunni yfir. Brjótið deigið saman, þannig að það verði þrjú lög af deigi, og leggið í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Mótið deigið þannig að það fylli út í ofnskúffuna. Skerið göt efst í deigið og skerið síðan út passlega stóra snúða. Látið snúðana hefast í 30 mínútur. Penslið þá með upphrærðu eggi og stráið perlusykri yfir. Bakið við 200° í 17-20 mínútur í neðri hluta ofnsins. Látið snúðana kólna aðeins áður en þeir eru teknir í sundur.

Ein athugasemd á “Kanilsnúðar í ofnskúffu

  1. Góðan dag Svava
    uppskriftirnar þínar og síðan þín er æði, búin að nota hana mikið. En eru 50 gr af þurrgeri ekki svolítið mikið ? Ertu að meina einn pakki sem eru 12 g ?
    Bestu kveðjur
    Svala Ýr

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s