Kanilsnúðar í ofnskúffu

Ég, sem horfi allt of sjaldan á sjónvarpið og kann varla að kveikja á Netflix, var svo gjörsamlega búin á því á föstudagskvöldinu að ég sendi krakkana eftir Dominos og nammi og lá síðan í sófanum það sem eftir lifði kvöldins að horfa á The Crown. Þvílíkir þættir! Nú skilst mér að ég sé síðust allra að uppgötva þá en ég get ekki hætt að horfa, sem varð til þess að það varð ekkert af bloggfærslu yfir helgina.

Þeir sem fylgja mér á Instagram gátu þó kannski séð að ég lá nú ekki bara í sófanum heldur vaknaði svo úthvíld á laugardeginum (svaf í rúma 10 tíma án þess að rumska!) að ég var búin að rífa af rúmunum, taka til í geymslunni og baka kanilsnúða áður en dagurinn var hálfnaður. Snúðarnir enduðu á Instagram og nú kemur uppskriftin. Þetta eru eflaust einföldustu kanilsnúðar sem hægt er að baka því degið er bara brotið saman og sett í ofnskúffu. Það væri því eflaust réttara að kalla þá kanilferninga. Mér þótti vera aðeins of mikil fylling í þeim en var ein um að finnast það. Næst mun ég því hafa minni fyllingu. Annars voru þeir fullkomnir!

Kanilsnúðar í ofnskúffu

Deig:

  • 100 g smjör
  • 5 dl mjólk
  • 50 g þurrger (1 pakki)
  • 1/2 tsk salt
  • 1,5 dl sykur
  • 2 tsk kardemommur
  • hveiti eftir þörfum

Fylling:

  • 200 g philadelphiaostur
  • 100 g smjör við stofuhita
  • 3 msk kanil
  • 1,5 dl sykur
  • 1 msk vanillusykur

Yfir snúðana:

  • upphrært egg
  • perlusykur

Bræðið smjörið í potti og hrærið mjólkinni saman við. Hitið blönduna þar til hún hefur náð um 37° hita og setjið hana í skál. Hrærið geri, sykri, salti og kardemommu saman við. Leggið viskastykki yfir skálina og látið standa í nokkrar mínútur (þar til gerið byrjar að freyða). Hrærið því næst hveitinu saman við þar til deigið fer að losna frá könntum skálarinnar (byrjið á um 6 dl og bætið svo hveitinu smátt og smátt saman við). Látið hnoðarann á hrærivélinni (eða hnoðið með höndunum) ganga í 10 mínútur. Látið degið hefast á hlýjum stað (ég læt gerdeig alltaf hefast við 35-40° í ofninum) þar til það hefur tvöfaldast í stærð.

Hrærið öllu saman í fyllinguna með handþeytara.

Fletjið deigið út og smyrjið fyllingunni yfir. Brjótið deigið saman, þannig að það verði þrjú lög af deigi, og leggið í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Mótið deigið þannig að það fylli út í ofnskúffuna. Skerið göt efst í deigið og skerið síðan út passlega stóra snúða. Látið snúðana hefast í 30 mínútur. Penslið þá með upphrærðu eggi og stráið perlusykri yfir. Bakið við 200° í 17-20 mínútur í neðri hluta ofnsins. Látið snúðana kólna aðeins áður en þeir eru teknir í sundur.

Extra mjúkir og loftkenndir kanilsnúðar

Extra mjúkir og loftkenndir kanilsnúðarMér þykja nýbakaðir sænskir kanilsnúðar ómótstæðilega góðir. Því miður gef ég mér sjaldan tíma til að baka þá en þegar ég geri það passa ég mig á að baka stóra uppskrift og fylla frystinn í leiðinni. Það er nefnilega upplagt að frysta kanilsnúða og best þykir mér að frysta þá á meðan þeir eru enn volgir. Síðan þegar gesti ber að garði, eða löngunin kemur yfir mann, þá er bara að kippa snúðum út, afþýða í 2-3 mínútur (eftir fjölda snúða) í örbylgjuofninum og snúðarnir verða eins og nýbakaðir.

Extra mjúkir og loftkenndir kanilsnúðar

Eftir að ég bakaði þessa snúða um daginn hef ég fengið daglegar símhringingar í vinnuna frá krökkunum þar sem þau spyrja hvort þau megi hita sér snúð. Það getur enginn staðist þá hér heima og við verðum líklegast ekki róleg fyrr en snúðarnir eru búnir. En það er líka í fínu lagi því þeir voru bakaðir til að njóta og það er óneitanlega notalegt að setjast niður á kvöldin með mjólkurglas og heitan snúð. Eða að hita súkkulaði og snúða í kaffitímanum. Svo brjálæðislega gott!

Extra mjúkir og loftkenndir kanilsnúðar

  • 1 pakki þurrger
  • 200 g smjör
  • 6 dl mjólk
  • 2 egg
  • 2½ dl sykur
  • 2½ tsk salt
  • 22-24 dl hveiti

Bræðið smjörið í potti og bætið mjólkinni saman við. Hitið í um 37°. Blandið öllum hráefnum saman og vinnið saman í deig (ef þið notið hrærivél látið hana þá vinna deigið í 10 mínútur, ef þið hnoðið í höndunum þá a.m.k. 10 mínútur). Látið deigið hefast undir viskastykki í 30 mínútur.

Fylling:

  • 200 g smjör við stofuhita
  • 2 dl sykur
  • 4 msk kanill

Á meðan deigið hefast er hráefnum í fyllinguna hrært saman.

Skiptið deiginu í tvennt og fletjið hvorn hluta út í aflanga köku (þannig að deigið verði í laginu eins og skúffukaka). Smyrjið fyllingunni yfir og brjótið deigið saman eftir langhliðinni. Skerið í 4-5 cm strimla og skerið síðan upp í hvern strimil þannig að hann líti út eins og buxur. Snúið „buxnaskálmunum“ og vefjið síðan í snúð þannig að endarnir fari undir snúðinn (það má líka einfaldlega rúlla deiginu upp og skera í sneiðar). Setjið á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Látið nú snúðana hefast í köldum bakaraofni með pott með sjóðandi vatni undir, í 60-90 mínútur. Penslið snúðana með eggi og stráið perlusykri yfir. Bakið við 225° í 8-10 mínútur.

Extra mjúkir og loftkenndir kanilsnúðarExtra mjúkir og loftkenndir kanilsnúðar

 

 

Kaldhefaðir kanilsnúðar

Kaldhefaðir kanilsnúðarÞegar Malín átti afmæli í byrjun maí vöktum við hana, líkt og hefðin gerir ráð fyrir, með afmælissöng og morgunverði í rúmið. Það beið síðan eitt og annað á morgunverðarborðinu frammi en allra vinsælastir voru nýbökuðu kanilsnúðar sem höfðu fengið að hefast í ísskáp yfir nóttina.

Kaldhefaðir kanilsnúðarKaldhefaðir kanilsnúðar

Þetta er algjör lúxusuppskrift því það þarf ekkert annað að gera um morguninn en að setja ofnskúffuna inn í heitan bakaraofninn og bíða eftir að bökunarlyktin fylli húsið. Hálftíma síðar eru nýbakaðir kanilsnúðar komnir á borðið sem þú getur annað hvort smurt með Nutella, gert glassúr eða einfaldlega sigtað flórsykur yfir áður en þeir eru bornir fram. Dásamlega ljúffengt!Kaldhefaðir kanilsnúðar

Kaldhefaðir kanilsnúðar – örlítið breytt uppskrift frá Bakverk och fikastunder

  • 25 g ferskt ger
  • 2 dl köld mjólk
  • 1 egg
  • 0,5 dl sykur
  • smá salt
  • um 6 dl hveiti
  • 75 g smjör við stofuhita
  • egg (til að pensla snúðana með)

Leysið gerið upp í mjólkinni og látið blandast vel. Hrærið upp eggið og hrærið því út í gerblönduna. Hrærið sykri og salti saman við. Hrærið um 4 dl af hveiti saman við, bætið smjörinu út í og síðan restinni af hveitinu. Hnoðið deigið þar til það er jafnt og kekkjalaust. Fletjið deigið út og smyrjið fyllingunni (uppskrift hér fyrir neðan) yfir. Rúllið deiginu upp og skerið í 15 sneiðar. Klæðið skúffukökuform (um 22×32 cm) með bökunarpappír og raðið snúðunum í það. Leggið viskastykki yfir og látið standa í ísskáp yfir nóttu. Takið úr ísskápnum um morguninn, penslið snúðana með upphrærðu eggi (hér má líka strá perlusykri yfir) og bakið í 200° heitum ofni í 22-25 mínútur.

Fylling

  • 150 g smjör við stofuhita
  • 3 msk kanil
  • 1,5 dl sykur

Hrærið öllu saman.

Kaldhefaðir kanilsnúðarKaldhefaðir kanilsnúðarKaldhefaðir kanilsnúðar

 

Saffransnúðar með marsípani

Saffransnúðar með marsípani

Í gær tendruðum við annað aðventuljós, Betlehemljósið, og í dag eru bara tvær vikur til jóla. Ótrúlegt hvað þessar vikur líða hratt. Mér finnst ég ekki enn hafa náð að skreyta almennilega en það stendur þó til bóta í vikunni.

Ég man varla eftir jafn annasamri og skemmtilegri viku eins og þeirri sem leið. Eftir saumaklúbba og gönguhóp fyrripart vikunnar fór ég á jólahlaðborð á Kolabrautinni á föstudagskvöldinu og á Frostrósartónleikana á laugardagskvöldinu. Við Öggi vorum sérlega spennt fyrir tónleikunum því við buðum Malínu með okkur en það hefur lengi verið draumur hjá henni að fara á Frostrósartónleika.  Hún var að vonum glöð þegar við sögðum henni að við værum að fara og það var ekki annað hægt en að smitast af upplifun hennar á tónleikunum. Í vikunni ætlum við Öggi enn og aftur í Hörpu og þá á jólatónleika KK og Ellenar. Þau hafa lengi verið í uppáhaldi og jóladiskurinn þeirra hljómar hér allan desembermánuð. Ég get því varla beðið.

Saffransnúðar með marsípani

Öggi kom mér á óvart með annarri aðventugjöf. Núna gaf hann mér æðislega bók, stútfulla af girnilegum súkkulaðiuppskriftum. Við Malín erum búnar að liggja yfir bókinni, flett síðunum fram og til baka og okkur langar í allt sem í henni er. Kannski jólagjafahugmynd fyrir sælkera?

Ég endaði vikuna á því að baka jólasnúðana okkar og hef aldrei áður verið jafn sein í því.  Ég hef bakað þessa snúða í mörg ár og hef þá alltaf tilbúna fyrir aðventuna. Þeir eru með því besta sem við fáum og það var því mikil gleði á heimilinu þegar ilmurinn af þeim fór að berast um húsið.

Saffransnúðar með marsípani

Uppskriftin hefur verið í fórum mínum síðan á Svíþjóðarárum okkar. Ég man að það var engin önnur en Charlotte Perelli, sænska söngkonan sem sigraði Eurovision 1999 við lítinn fögnuð íslendinga, sem gaf þessa uppskrift. Ég er eflaust ein af fáum íslenskum aðdáendum hennar og þykir jólaplatan hennar, Rimfrostjul, með þeim fallegri sem ég veit um.

Uppskriftin er mjög stór og ég frysti snúðana alltaf um leið og þeir koma úr ofninum. Það jafnast fátt við að hita sér snúð með kaffinu á aðventunni og þó uppskriftin sé stór þá klárast snúðarnir alltaf fyrir jól.

Saffransnúðar með marsípani

Saffransnúðar með marsípani

  • 300 g smjör
  • 1 líter mjólk
  • 2 pokar þurrger
  • 2 dl sykur
  • 1 tsk salt
  • 2,2-2,5 lítrar hveiti (ég mæli það aldrei heldur nota bara eins mikið og mér þykir þurfa)
  • 1 g saffran

Fylling

  • brætt smjör
  • rifið marsípan
  • kanilsykur
  • vanillusykur (má sleppa)

Bræðið smjörið í potti og bætið mjólkinni saman við. Hitið blönduna í 37°.

Setjið gerið í skál og hellið mjólkurblöndunni yfir. Bætið saffran saman við og hrærið aðeins í blöndunni. Bætið sykri og salti saman við.

Hellið hveitinu í lítramál beint úr pokanum (þessu hef ég alltaf sleppt) og bætið saman við mjólkurblönduna. Farið varlega af stað með hveitið og ekki setja allt í einu. Vinnið deigið vel saman og hafið það eins blautt og þið komist upp með til að snúðarnir verði ekki þurrir.

Látið deigið hefast undir viskastykki í 30 mínútur (ég læt það oft hefast aðeins lengur). Hnoðið deigið þá á hveitistráðu borði. Skiptið deiginu í þrjá hluta og fletjið hvern hluta út í aflanga köku.

Smyrjið bræddu smjöri yfir deigið, stráið kanilsykri síðan yfir smjörið, þar næst rifnu marsípani og að lokum smá vanillusykri. Rúllið deiginu upp í rúllu, skerið í sneiðar og setjið í stór muffinsform.

Látið snúðana hefast undir viskastykki í 30 mínútur.

Penslið snúðana með upphrærðu eggi og stráið perlusykri yfir þá.

Bakið við 250° í 5-8 mínútur.

Saffransnúðar með marsípani

Pizzasnúðar

Ég baka oft pizzasnúða og þykir gott að eiga þá í frystinum. Á sumrin kippum við þeim með okkur í lengri bílferðir eða hjólatúra og á veturnar þykir krökkunum gott að geta hitað sér þá eftir skóla eða æfingar.

Ég hef prufað margar uppskriftir að pizzasnúðum en þessi er sú sem stendur upp úr og okkur þykir langbest. Ég leyfi deiginu að hefast lengi og uppsker stóra og mjúka snúða fyrir vikið. Til að snúðarnir verða léttir og góðir finnst mér skipta mestu máli að hnoða deigið lengi (ég nota hnoðaran á Kitchen Aid hrærivélinni og læt hann hnoða í um 5 mínútur), nota eins lítið hveiti og ég kemst upp með og að leyfa deiginu að hefast lengi. Þó að baksturinn taki lengri tíma þá er samt vinnan við þá ósköp fljótleg og mér þykir því lítið mál að henda í snúðana þegar ég er heima.

Ég hef bæði prófað að setja pizzasósu og tómatsósu í snúðana og við erum öll sammála um að tómatsósan sé mun betri og ég held mig því alfarið við hana. Mér þykir heimabakað brauðmeti með geri yfirleitt ekki geymast vel og frysti því alltaf snúðana á meðan þeir eru enn heitir. Það er síðan lítið mál að leyfa örbylgjuofninum að hita þá aftur og þá verða þeir alltaf eins og nýbakaðir.

Pizzasnúðar

  • 1 bréf þurrger
  • 5 dl mjólk (37°heit)
  • 3 msk ólívuolía
  • 1 tsk salt
  • 1 msk sykur
  • 1 egg
  • ca 14 dl hveiti

Fylling

  • 200 gr skinka
  • ca 1 dl tómatsósa
  • 3 dl rifinn ostur
  • 2 msk oregano

Til að pensla með

  • 1 egg
  • maldonsalt og oregano

Blandið saman þurrgerinu og smá af fingurheitri mjólkinni. Setjið afganginn af mjólkinni út í ásamt ólívuolíunni, saltinu, sykrinum og egginu. Setjið nánast allt hveitið saman við  (passið að setja ekki of mikið) og vinnið deigið vel saman. Ég hnoða það í ca 5 mínútur í hrærivélinni. Látið deigið hefast á hlýjum stað í amk 30 mínútur.

Skerið skinkuna niður og raðið möffinsformum á ofnplötur.

Þegar deigið er búið að hefast er það lagt á mjölað borð og hnoðað létt saman. Skiptið deiginu í tvo hluta og fletjið hvorn hluta í aflanga köku. Smyrjið tómatsósu á og stráið skinkubitum, osti og oregano yfir. Rúllið deiginu saman og skerið hverja rúllu í ca 12-15 bita. Leggið bitana í möffinsformin og leyfið þeim að hefast í amk 30 mínútur.

Hitið ofninn í 225°. Penslið snúðana með upphrærðu eggi og stráið maldonsalti og oregano yfir. Bakið snúðana í miðjum ofni í 12-15 mínútur.

Sænskir kanilsnúðar

Ég hef bakað þessa snúða síðustu 10 árin og okkur þykja þeir alltaf jafn góðir. Þetta er stór uppskrift, um 40 snúðar, og ég tek alltaf hluta frá og set í frystinn um leið og þeir koma úr ofninum. Snúðarnir eru bestir nýbakaðir og geymast ekki vel nema í frysti. Þá er líka lítið mál að afþýða þá í örbylgjunni eða í ofninum í skamma stund og þeir verða eins og nýbakaðir. Það er því mjög notalegt að eiga poka af þeim í frystinum og geta töfrað fram heita snúða með lítilli fyrirhöfn.

Uppskriftina fékk ég aftan á hveitipakka þegar ég var nýflutt til Svíþjóðar og hef haldið tryggð við hana allar götur síðan. Mér finnst aðalatriðið vera að hafa deigið eins blautt og ég mögulega get því of mikið hveiti gerir snúðana þurra. Ég geri alltaf tvöfalda uppskrift af fyllingunni því hún gerir snúðana svo gómsæta. Að lokum set ég vel af perlusykri yfir snúðana áður en þeir fara fara í ofninn. Mér finnst hann alveg ómissandi.

Sænskir kanelsnúðar

  • 150 gr smjör eða smjörlíki
  • 5 dl mjólk
  • 50 gr (1 pakki) ger
  • 1 dl sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 2 tsk kardimommur
  • 850 gr hveiti
Fylling
  • 100 gr smjör eða smjörlíki við stofuhita
  • 1 dl sykur
  • 2 msk kanill
Til að pensla snúðana
  • 1 egg
  • perlusykur

Bræðið smjörið í potti. Bætið mjólkinni í pottinn og hitið upp í 37°. Setjið gerið í skál (ég nota alltaf þurrger) og hellið vökvanum yfir. Leyfið gerinu aðeins að taka sig í nokkrar mínútur. Bætið sykri, salti, kardimommu og hveiti (ekki byrja á öllu hveitinu heldur bætið frekar við seinna) út í og hnoðið deigið vel í ca 5 mínútur með hnoðara á hrærivél eða í ca 10 mínútur í höndunum. Breiðið viskastykki yfir skálina og látið deigið hefast á hlýjum stað í ca 30 mínútur.

Hnoðið degið á mjöluðu borði og skiptið því niður í 4 hluta. Fletjið hvern hluta út í aflanga köku (þannig að deigið verði í laginu eins og skúffukaka). Hrærið saman fyllingunni (ég geri oftast tvöfalda uppskrift af fyllingunni) og breiðið yfir deigið. Snúið deiginu upp í rúllu og skerið í sneiðar (hver rúlla í ca 10 sneiðar). Leggið hverja sneið í möffinsform og látið hefast undir viskastykki í 40 mínútur.

Penslið snúðana með upphrærðu eggi og stráið perlusykri yfir þá. Bakið í miðjum ofni við 225 gráður í 5-8 mínútur.

Sænskir vanillusnúðar

Mér finnst svo notalegt að eiga heimabakaða snúða í frystinum sem hægt er að laumast í og hita með kaffinu. Ég á þá samt sjaldnast lengi því hér klárast þeir alltaf eins og skot. Ég baka oft sænska kanelsnúða en þegar ég sá uppskriftina að þessum vanillusnúðum þá bara varð ég að prófa. Þeir voru æðislega góðir og hurfu allt of fljótt.

Uppskriftina fann ég á sænsku matarbloggi. Hún er mjög stór, ca 60-70 snúðar, en mér finnst alveg eins gott að gera vel af þeim fyrst ég er að þessu á annað borð. Ef þið ætlið að frysta snúðana þá er best að setja þá í plastpoka á meðan þeir eru heitir, loka vel fyrir og frysta strax. Það má síðan taka þá út eftir behag og hita í stutta stund í örbylgjuofninum.

Snúðar

  • 2 pakkar þurrger
  • 350 gr smjör
  • 10 dl nýmjólk
  • 4 dl sykur
  • 2 tsk góður vanillusykur
  • smá salt
  • 2,5 – 3 lítrar hveiti

Fylling

  • 5 eggjarauður
  • 2-3 dl sykur
  • 300 gr smjör við stofuhita
  • 4 tsk góður vanillusykur

Bræðið smjör og bætið síðan mjólkinni í pottinn og hitið að 37°. Setjið gerið í skál og hellið hluta af mjólkurblöndunni yfir og leyfið gerinu að taka við sér.  Bætið restinni af mjólkurblöndunni saman við ásamt hveiti, sykri, salti og vanillusykri. Passið að setja ekki of mikið hveiti því þá verða snúðarnir þurrir.  Leyfið deiginu að hefast á hlýjum stað í ca 1 klst. Ef þú gerir hálfa uppskrift dugar að leyfa því að hefast í 30 mínútur.

Á meðan deigið er að hefast getur þú gert fyllinguna. Hrærið saman eggjarauðum, sykri, vanillusykri og smjöri við stofuhita. Það má líka byrja að raða formum á ofnplötu.

Þegar deigið hefur hefast er því skipt í 4-6 hluta. Fletjið einn hluta út í einu, smyrjið á hann vanillukreminu og alls ekki spara það, snúðarnir verða bara gómsætari með vel af fyllingunni. Rúllið deiginu upp, skerið í sneiðar og leggið í fomin. Leyfið snúðunum að hefast í ca 30-40 mínútur. Það er mikilvægt að leyfa þeim að hefast þennan tíma til að þeir verði léttir í sér.

Rétt áður en snúðarnir fara í ofninn eru þeir penslaðir með hrærðu eggi og stráð perlusykri yfir. Bakið í 200-225° heitum ofni í ca 10-12 mínútur.