Það sem mér þykir best við helgarnar er að geta sofið út og fengið mér góðan morgunmat. Á virkum dögum gef ég mér aldrei tíma til að setjast niður yfir morgunverði heldur geri grænan safa sem ég tek með mér á hlaupum. Um helgar bæti ég upp fyrir það með að sofa lengi (fer létt með 10 tíma án þess að rumska) og sitja lengi yfir morgunverðinum. Oftast verður eggjahræra og Finn Crisp fyrir valinu en núna er ég með æði fyrir ristuðu súrdeigsbrauði með avocadó, sítrónusafa, chili explotion og maldonsalti. Svo gott!
En að máli málanna, kökunni sem ég setti inn á Instagram um síðustu helgi og hef fengið ófáar fyrirspurnir um uppskrift af. Okkur þótti þessi kaka æðisleg! Ég mæli með að sleppa ekki rommdropunum í glassúrnum, þeir gera svo mikið. Á unglingsárum mínum bakaði ég oft súkkulaðiköku með smjörkremi sem var með rommdropum í og ég man enn hvað mér hún æðislega góð. Uppskriftin er stór og við nutum hennar með kvöldkaffinu í þrjú kvöld í röð. Svo notalegt!
Afmæliskaka
- 4 egg
- 400 g sykur
- 300 g smjör
- 50 g suðusúkkulaði
- 3 dl mjólk
- 575 g hveiti
- 1 msk kakó
- 5 tsk lyftiduft
- 4 tsk vanillusykur
Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og þykk (það tekur um 5 mínútur á mesta hraða á hrærivélinni).
Bræðið smjörið, takið pottinn af hitanum og hrærið hökkuðu súkkulaði saman við þar til blandan er slétt. Hrærið mjólk saman við og leggið til hliðar.
Blandið hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman. Hrærið smjörblöndunni og þurrefnablöndunni á víxl saman við eggjablönduna. Hrærið saman í slétt deig. Klæðið ofnskúffu með bökunarpappir og setjið deigið í hana. Bakið við 200° í miðjum ofni í 25 mínútur (ef þið notið skúffukökuform í staðin fyrir ofnskúffu þá þarf að bæta 10-15 mínútum við bökunartímann). Útbúið glassúrinn á meðan kakan er í ofninum því hann fer yfir heita kökuna.
Glassúr
- 125 g smjör
- 500 g flórsykur
- 1 msk kakó
- 4 msk uppáhellt kaffi
- 1/2 tsk rommdropar
- 1 tsk vanillusykur
Bræðið smjörið í potti. Lækkið hitann og bætið kaffi, kakói, vanillusykri, rommdropum og og flórsykri í pottinn og hrærið saman þar til glassúrinn er sléttur. Látið pottinn standa yfir lágum hita þannig að glassúrinn haldist heitur án þess að hann sjóði. Þegar kakan kemur úr ofninum er glassúrinn settur yfir heita kökuna. Skreytið að vild.