Í svona leiðindarveðri þykir mér fátt eins notalegt og að dunda mér heima, sérstaklega ef það stendur nýböku kaka á eldhúsborðinu til að njóta með kaffinu. Ég var svo heppin að strákarnir bökuðu möffins í skólanum í gær sem ég get gætt mér á í dag en ég neyðist engu að síður til að fara í búðina þar sem ískápurinn er tómur og helst þyrfti ég að skjótast í Ikea (hafið þið smakkað kleinurnar sem fást í bakaríinu hjá þeim? Þær eru alltaf nýbakaðar og svo góðar!) því mig langar að koma betra skipulagi á einn eldhússkápinn hjá mér. Mest af öllu langar mig þó að sitja sem fastast hér heima, hlusta á vindkviðurnar fyrir utan og kúra í sjónvarpssófanum.
Ef einhverjir eru í bökunarhugleiðingum þá sting ég upp á þessari bananaköku en uppskriftin kemur úr fystu matreiðslubókinni sem ég eignaðist. Ég bakaði kökuna síðast um páskana (sem skýrir litlu eggin á henni) og hún vekur alltaf sérlega lukku hjá yngra fólki.
Bananakaka
- 2 ½ bolli hveiti
- 2 ½ tsk lyftiduft
- ¾ tsk salt
- 1/8 tsk negull
- 1 ¼ kanil
- ½ tsk múskat
- ½ bolli smjör
- 1 ¼ bolli sykur
- 2 egg
- 1 tsk vanilludropar
- 1 ½ bolli marðir bananar
Hitið ofn í 200°. Hrærið smjör og sykur létt. Bætið eggjunum út í og hrærið slétt. Hrærið þurrefnum saman við og endið á að hræra bönunum og vanilludropum í deigið. Setjið í tvö form eða eitt skúffukökuform og bakið í 25 mínútur (stingið í kökuna með prjóni til að sjá hvort hún sé tilbúin).
Bananasmjörkrem
- ½ banani, stappaður
- ¼ bolli smjör, við stofuhita
- 3 ½ bolli flórsykur
Hrærið smjör og banana saman. Hrærið flórsykri saman við þar til réttri áferð er náð.