Páskarnir og dásamlega páskatertan

Eftir alla veðurblíðuna yfir páskana verð ég að viðurkenna að mér þykir pínu notalegt að fá hvassviðri í dag og get dundað mér hér heima á náttsloppnum án nokkurs samviskubits. Við höfum átt yndislega páska með útivist, afslöppun og allt of mikið af góðum mat. Alveg eins og páskar eiga að vera. Ég fór aldrei á skíði eins og ég hafði hugsað mér og verð að horfast í augu við þá staðreynd að árskortið mitt í Bláfjöllum voru verstu kaup síðasta árs. Ég læri vonandi af reynslunni núna en árskortið mitt síðasta vetur reyndist heldur ekki borga sig.

Það er hefð fyrir því hér heima að vera með góðan morgunverð á páskadag. Núna sofa unglingarnir svo lengi að morgunmaturinn er borðaður í hádeginu en það er bara notalegt. Ég gerði mér létt fyrir í ár og keypti bæði frosin crossant sem ég fyllti með skinkumyrju og frosin súkkulaðicrossant. Síðan steikti ég beikon og gerði eggjahræru. Allir voru alsælir. Þetta þarf nefnilega ekki að vera flókið, bara gott!

Á páskadag er ég alltaf með lambakjöt í kvöldmat. Sjálf er ég hrifnust af lambahryggi en virðist þó oftast kaupa lambalæri á páskunum. Ég hafði hugsað mér að gera kartöflugratín og bernaise með lærinu en þegar ég spurði krakkana langaði þeim í gamaldags lambalæri með sveppasósu og brúnuðum kartöflum. Lærið fékk að hægeldast frá hádegi og varð svo æðislega gott að við borðuðum yfir okkur.

Í eftirrétt bauð ég upp á páskaköku með nutellafyllingu og appelsínurjóma. Ég var svo södd eftir matinn að ég rétt gat smakkað kökuna en hún vakti mikla lukku viðstaddra. Uppskriftin kemur hér ef einhverjum langar að prófa.

Páskakaka – uppskriftin er fyrir um 15 manns (uppskrift frá Coop)

  • 100 g smjör
  • 2 dl mjólk
  • 4 dl hveiti
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk lyftiduft
  • 4 egg
  • 2 dl sykur
  • 2 dl hrásykur

Fylling

  • 5 dl rjómi
  • 400 g Nutella við stofuhita
  • 1/4 dl appelsínusafi (ég var með trópí)
  • fínrifið hýði af einni appelsínu
  • 1 msk vanillusykur

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið í potti. Takið af hitanum og bætið mjólkinni saman við. Blandið hveiti, kakói og lyftidufti saman. Hrærið egg, sykur og hrásykur saman þar til blandan er létt og loftkennd. Hrærið þurrefnunum saman við og bætið smjörmjólkinni í. Hrærið saman í slétt deig.

Setjið deigið í smurt form (24 cm) og bakið í miðjum ofni í um 40 mínútur (ég þurfti að bæta aðeins við bökunartímann). Stingið prjóni í kökuna til að sjá hvort hún sé tilbúin. Látið kólna.

Þeytið rjómann. Hrærið Nutella saman við rúmlega helminginn af rjómanum. Hrærið appelsínusafa, appelsínuhýði og vanillusykri saman við restina af rjómanum.

Skiptið tertubotninum í þrennt með löngum hnífi. Setjið nutellafyllinguna á milli botnanna og endið á að setja appelsínurjómann yfir hana.

 

Ein athugasemd á “Páskarnir og dásamlega páskatertan

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s