Ég byrjaði á þessari færslu í byrjun apríl en af einhverjum ástæðum gleymdist hún hálfkláruð og það var ekki fyrr en í gærkvöldi, þegar Malín fór að segja mér að vinur hennar óskaði sér þessa köku í afmælisgjöf, að ég rankaði við mér. Ég sem er alltaf með lista yfir allt og þykist plana vikurnar svo vel að það á ekkert að geta út af brugðið…
Það er þó óhætt að segja að biðin var þess virði því kakan er æðisleg og núna langar mig mest til að baka hana aftur til að eiga með kaffinu. Ég veit að krakkarnir yrðu alsæl og sjálfri þykir mér svo óendanlega notalegt að eiga eitthvað gott með helgarkaffinu.
Mjúk kanilsnúðakaka
- 150 g smjör
- 2 egg
- 3 dl sykur
- 1½ msk kanill
- 4 dl hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- 1 ½ dl mjólk
Glassúr
- 75 g smjör
- 1 msk rjómi
- 2-3 tsk kanill
- 3 ½ dl flórsykur
Yfir kökuna:
- kókosmjöl
Kakan: Bræðið smjör og látið kólna aðeins (það er gott að setja mjólkina saman við brædda smjörið, þá kólnar það). Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Blandið hveiti, kanil og lyftidufti saman og hrærið ásamt smjörinu og mjólkinni saman við eggjablönduna í slétt deig. Setjið deigið í skúffukökuform í stærðinni 20 x 30 cm, sem hefur verið klætt með smjörpappír. Bakið við 175° í um 20-30 mínútur. Látið kökuna kólna áður en glassúrinn er sett á hana.
Glassúr: Bræðið smjörið og hrærið rjóma, kanil og flórsykur saman við það, þar til glassúrinn er sléttur. Hellið glassúrnum yfir kökuna og stráið kókosmjöli yfir.
Mjög svo mjúk og góð kaka 🙂