Einfalt og stórgott lasagna

Einfalt og stórgott lasagna

Krakkarnir báðu mig um að hafa lasagna í matinn um daginn. Ég ákvað að fara einföldu leiðina og útkoman varð svo góð að ég mun eflaust halda mér við hana í framhaldinu.

Ég skipti ostasósunni út fyrir kotasælu sem sparaði mér bæði tíma og uppvask. Í kjötsósuna notaði ég æðislega pastasósu í glerkrukku frá Hunt´s sem ég má til með að benda ykkur á. Hún er þykk, bragðgóð og kostar ekki mikið. Ég sá að sósan fæst í fleiri bragðtegundum sem ég ætla hiklaust að prófa á næstunni en sú sem ég var með heitir Garlic & Herb.

Einfalt og stórgott lasagna

Við vorum öll á einu máli um að lasagnað væri stórgott og ég tók þann litla afgang sem varð með mér í nesti daginn eftir. Það var ekki verra þá, því get ég lofað.

Lasagna

 • 1 bakki nautahakk (um 500 g)
 • 1 laukur, hakkaður
 • salt og pipar
 • 1 dós góð pastasósa (ég var með Hunt´s pastasósu í glerkrukku með bragðtegundinni garlic & herb)
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 1 grænmetisteningur
 • 1 stór dós kotasæla
 • lasagnaplötur
 • rifinn ostur

Einfalt og stórgott lasagna

Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn þar til hann byrjar að mýkjast. Bætið nautahakkinu á pönnuna og kryddið með pipar og salti.

Einfalt og stórgott lasagna

Hellið pastasósunni og sýrða rjómanum yfir og hrærið saman. Setjið grænmetistening út í og látið sjóða við vægan hita um stund (10 mínútur duga en ef þú hefur tímann með þér þá er um að gera að leyfa kjötsósunni að sjóða lengur).

Einfalt og stórgott lasagna

Einfalt og stórgott lasagna

Setjið til skiptis í eldfast mót lasagnaplötur, kjötsósu og kotasælu. Þú ættir að ná tveim til þrem lögum miðað við meðalstórt mót.

Einfalt og stórgott lasagna

Stráið rifnum osti yfir og bakið við 200° í um 20 mínútur.

Einfalt og stórgott lasagna

Rjómalagað lasagna

Helgin er búin að vera ævintýraleg. Við keyrðum norður til Akureyrar á föstudeginum og eyddum helginni þar í mestu makindum. Það var svo ótrúlega fallegt á Akureyri, snjónum kyngdi niður svo trjágreinar bognuðu undan þunganum. Það var svo notalegt að vaða skaflana úr íbúðinni niður á Bláu könnuna í bænum og fá okkur heitt súkkulaði með rjóma. Svo dásamlega afslappandi og óneitanlega jólalegt.

Það er alltaf sama prógrammið í gangið þegar við förum norður og það má engu breyta. Krakkarnir vilja fara í jólahúsið og fá Brynjuís og ég vil fara í Sirku. Síðan förum við í Eymundsson og í sund, helst í Hrafnargili. Okkur þykir þetta alltaf jafn skemmtilegt og virðumst ekki hafa neina þörf fyrir að breyta út af vananum.

Þessi ferð var þó frábrugðin öðrum að því leiti að nú snérist hún um fimleikamót sem Gunnar var að keppa á. Mér þykir hann svo ótrúlega duglegur að ég tárast alltaf í byrjun en næ svo að harka af mér. Ég vil ekki verða honum til skammar og reyni hvað ég get að virðast yfirveguð yfir þessu öllu, eins og mér þyki ekkert tiltökumál að hann hangi á hvolfi í tvöfaldri hæð sinni og gæti stórslasast við það eitt að missa jafnvægið.  Hann missti þó ekki jafnvægið, frekar en áður, og nældi sér í silfurverðlaun. Ég hélt ég myndi springa úr stolti.

Þar sem ég var svo léleg í að uppfæra bloggið í síðustu viku þá luma ég núna á uppskrift af frábæru lasagna sem ég bauð tengdamömmu upp á um síðustu helgi. Mér þykir lasagna svo gott og gaman að prófa nýjar uppskriftir. Þessi þótti mér æðislega góð, þó að það hafi ekki myndast nógu vel, og verður klárlega eldað aftur.

Rjómalagað lasagna

Kjötsósa

 • 600-700 g nautahakk
 • smjör
 • 1 hvítlauksrif, pressað
 • 1 laukur, fínhakkaður
 • 1/2 dl chilisósa
 • grænmetis- eða nautateningur
 • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
 • salt og pipar

Ostasósa

 • 5 dl rjómi
 • 5 dl mjólk
 • 1 dl hveiti
 • 100 g smjör
 • 3 dl rifinn ostur
 • smá múskat
 • salt og pipar
 • ferskar lasagnaplötur
 • 2 pokar af ferskum mozzarella osti

Hitið ofninn í 180°. Steikið hakkið, laukinn og hvítlaukinn á pönnu upp úr smjörinu. Bætið niðursoðnu tómötunum, chilisósunni, teningi, salti og pipar á pönnuna og látið sjóða við vægan hita á meðan ostasósan er gerð.

Bræðið smjörið og hrærið hveitinu saman við. Hellið mjólkinni og rjómanum saman við í nokkrum skömmtum og hrærið vel á milli. Passið að hafa ekki of háan hita undir svo sósan brenni ekki. Kryddið með smá múskati, salti og pipar. Látið sjóða í nokkrar mínútur og takið svo af hitanum. Bætið rifna ostinum saman við og látið bráðna í sósunni.

Setjið smá ólífuolíu í botninn á eldföstu móti og þekið hann með ostasósu. Leggið lasagnaplötur yfir, þar næst kjötsósu, síðan ostasósu. Endurtakið eins oft og formið leyfir og endið á sósunni. Sneiðið mozzarellaostinn og leggið yfir ostasósuna. Setjið í ofninn í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er kominn með fallegan lit.

Lasagna

Ég fæ reglulega löngun í lasagna og þykir gaman að breyta til og prófa nýjar lasagna uppskriftir. Þó ég sé mjög hrifin af lasagna með rjómakremi þá er þetta sú uppskrift sem hefur hangið lengst með mér og er sú sem ég elda oftast. Hún er í algjöri uppáhaldi hjá krökkunum og ég skil það vel því hún er stórgóð.

Þetta lasagna er mikill og góður fjölskyldumatur og ég hef enn ekki hitt það barn sem þykir það ekki gott. Mér þykir mikill kostur hvað uppskriftin er einföld og flest hráefnin á ég oftast til í skápnum. Hér er engum óþarfa bætt við og eflaust þess vegna sem börnin eru svona hrifin af því. Þetta er góður réttur sem passar bæði til hvunndags og betri tilefna.

Það hafa margir spurt mig út í Chili Explosion kryddið frá Santa Maria sem ég nota mikið og mér þykir nánast ómissandi í hakkrétti. Það virðist vera að valda ruglingi að kryddin frá Santa Maria eru yfirleitt með bláu loki en Chili Explosion kryddið er það ekki. Ég ákvað því að taka mynd af kryddinu ef fleiri eru spenntir fyrir að prófa það. Ég held að það fáist í flestum búðum en ég hef keypt mitt í Bónus.

Lasagna

 • 1-2 laukar
 • 1 msk smjör eða olía
 • 400 gr nautahakk
 • 1 dós hakkaðir tómatar
 • 2 msk tómatpuré
 • 1 grænmetisteningur
 • 1 tsk basilika (þurrkuð)
 • 1 tsk salt
 • nýmalaður svartur pipar
 • chili explosion

Ostasósa

 • 4 msk hveiti
 • 7 dl mjólk
 • 2 dl (ca 70 gr) rifinn ostur
 • salt

Ofanálag

 • Rifinn ostur

Kjötsósan: Skalið og hakkið laukinn. Hitið olíu eða smjör á pönnu og steikið laukinn og nautahakkið. Bætið niðursoðnum tómötum, tómatpuré, basiliku, chili explosion og grænmetistening saman við og leyfið að sjóða við vægan hita undir loki í ca 20 mínútur.  Smakkið til með salti og pipar og jafnvel meira af chili explosion eða basiliku.

Ostasósan: Hrærið hveitið saman við smá af mjólkinni í potti. Bætið restinni af mjólkinni út í og hrærið í pottinum á meðan suðan er að koma upp. Látið sjóða við vægan hita í 3 mínútur. Takið pottinn af hellunni og hrærið rifna ostinum út í ásamt smá salti. Athugið að sósan á ekki að sjóða eftir að osturinn er kominn í hana.

Setjið helminginn af ostasósunni í botninn á eldföstu móti og leggið lasagnaplötur yfir. Setjið helminginn af kjötsósunni yfir lasagnaplöturnar og leggið síðan annað lag af lasagnaplötum yfir. Setjið hinn helminginn af kjötsósunni yfir og leggið þriðja lagið af lasagnaplötum yfir. Endið á að setja seinni helminginn af ostasósunni yfir og stráið rifnum osti yfir ostasósuna.

Bakið lasagnað í 15-20 mínútur við 220°.