Rjómalagað lasagna

Helgin er búin að vera ævintýraleg. Við keyrðum norður til Akureyrar á föstudeginum og eyddum helginni þar í mestu makindum. Það var svo ótrúlega fallegt á Akureyri, snjónum kyngdi niður svo trjágreinar bognuðu undan þunganum. Það var svo notalegt að vaða skaflana úr íbúðinni niður á Bláu könnuna í bænum og fá okkur heitt súkkulaði með rjóma. Svo dásamlega afslappandi og óneitanlega jólalegt.

Það er alltaf sama prógrammið í gangið þegar við förum norður og það má engu breyta. Krakkarnir vilja fara í jólahúsið og fá Brynjuís og ég vil fara í Sirku. Síðan förum við í Eymundsson og í sund, helst í Hrafnargili. Okkur þykir þetta alltaf jafn skemmtilegt og virðumst ekki hafa neina þörf fyrir að breyta út af vananum.

Þessi ferð var þó frábrugðin öðrum að því leiti að nú snérist hún um fimleikamót sem Gunnar var að keppa á. Mér þykir hann svo ótrúlega duglegur að ég tárast alltaf í byrjun en næ svo að harka af mér. Ég vil ekki verða honum til skammar og reyni hvað ég get að virðast yfirveguð yfir þessu öllu, eins og mér þyki ekkert tiltökumál að hann hangi á hvolfi í tvöfaldri hæð sinni og gæti stórslasast við það eitt að missa jafnvægið.  Hann missti þó ekki jafnvægið, frekar en áður, og nældi sér í silfurverðlaun. Ég hélt ég myndi springa úr stolti.

Þar sem ég var svo léleg í að uppfæra bloggið í síðustu viku þá luma ég núna á uppskrift af frábæru lasagna sem ég bauð tengdamömmu upp á um síðustu helgi. Mér þykir lasagna svo gott og gaman að prófa nýjar uppskriftir. Þessi þótti mér æðislega góð, þó að það hafi ekki myndast nógu vel, og verður klárlega eldað aftur.

Rjómalagað lasagna

Kjötsósa

  • 600-700 g nautahakk
  • smjör
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • 1 laukur, fínhakkaður
  • 1/2 dl chilisósa
  • grænmetis- eða nautateningur
  • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
  • salt og pipar

Ostasósa

  • 5 dl rjómi
  • 5 dl mjólk
  • 1 dl hveiti
  • 100 g smjör
  • 3 dl rifinn ostur
  • smá múskat
  • salt og pipar
  • ferskar lasagnaplötur
  • 2 pokar af ferskum mozzarella osti

Hitið ofninn í 180°. Steikið hakkið, laukinn og hvítlaukinn á pönnu upp úr smjörinu. Bætið niðursoðnu tómötunum, chilisósunni, teningi, salti og pipar á pönnuna og látið sjóða við vægan hita á meðan ostasósan er gerð.

Bræðið smjörið og hrærið hveitinu saman við. Hellið mjólkinni og rjómanum saman við í nokkrum skömmtum og hrærið vel á milli. Passið að hafa ekki of háan hita undir svo sósan brenni ekki. Kryddið með smá múskati, salti og pipar. Látið sjóða í nokkrar mínútur og takið svo af hitanum. Bætið rifna ostinum saman við og látið bráðna í sósunni.

Setjið smá ólífuolíu í botninn á eldföstu móti og þekið hann með ostasósu. Leggið lasagnaplötur yfir, þar næst kjötsósu, síðan ostasósu. Endurtakið eins oft og formið leyfir og endið á sósunni. Sneiðið mozzarellaostinn og leggið yfir ostasósuna. Setjið í ofninn í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er kominn með fallegan lit.

8 athugasemdir á “Rjómalagað lasagna

  1. Sæl – gaman að fylgjast með blogginu þínu. Ein spurning, þegar að þú talar um chilisósu ertu á að meina Heinz Chilisósu eða Sweet chili sósu? Bestu kveðjur, Edda

  2. Elsku Svava mín.
    Það sem þessi færsla er dásamleg og með öllum þessum æðislegu myndum. Ég bara ligg í þessu. Það var líka svo gaman að fá að fylgjast með ykkur fyrir norðan, en best var þó að fá sms-ið í gærkvöldi: „Komin heim“.
    Þú ert aldeilis frábær og eins var rjómalagaða lasagnað hér.
    Þín Malín tengdó

  3. Æðislegar myndir, maður kemst bara í jólastemmningu! 🙂 Og Gunnar greinilega jafn flottur í fimleikunum sem og í hlaupunum! Glæsilegt hjá honum að vinna silfur, til hamingju með hann! 🙂

  4. Til hamingju með Gunnar duglega flotta og auðvitað bara öll duglegu flottu börnin:-) Þetta er ekkert smá girnó lasagna, verð að prófa það! Get ekki beðið eftir að hitta ykkur eftir einn mánuð!
    Knús,
    Unnur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s