Sæt kartöflustappa með pekanhnetukrönsi og heimalagað rauðkál

Sæt kartöflustappa með pekanhnetukrönsi og heimalagað rauðkál

Það átti ekki að líða heil vika á milli bloggfærsla en mér til varnar þá hefur vikan liðið óvenju hratt. Það gæti haft eitthvað með það að gera að systir mín er stödd á landinu með dóttur sína og ég vil hitta þær eins oft og ég get. Síðan tók ég upp á því að fara með vinnufélögum mínum í stutta fjallgöngu í gærkvöldi og þegar ég kom heim langaði mig mikið frekar að leggjast í sófann með Ögga en að setjast við tölvuna. Í kvöld eigum við von á mömmu, systur minni og bróður í mat en áður en þau koma langaði mig til að nýta tímann og skrifa ykkur nokkrar línur.

Nýársdagur og einfaldar snittur

Ég sá að það eru komin komment sem ég á eftir að svara. Það var meðal annars óskað eftir uppskriftunum að sætu kartöflustöppunni með pekanhnetukrönsinu og heimagerða rauðkálinu. Ég læt uppskriftirnar fylgja með mikilli gleði enda sérlega gaman að geta orðið við því sem þið óskið eftir. Ég er ekki hrifin af illa lyktandi rauðkáli með alls konar gummsi í en mér þykir þetta rauðkál æðislega gott og það kemur dásamlegur ilmur um húsið þegar það sýður. Ég fékk uppskriftina hjá Ernu vinkonu minni og þarf alltaf að hringja í hana úr búðinni til að spyrja hvaða saft sé í uppskriftinni. Hún man það betur en ég og svarar mér alltaf að það verði að vera rifsberjasaft en það fæst ekki alls staðar. Við höfum þó alltaf gengið að því vísu í Hagkaup.

Nýársdagur og einfaldar snittur

Sæta kartöflustappan er ómissandi með kalkúninum og þessi uppskrift er svakaleg. Ég man ekki hvaðan hún kemur en hún hefur verið fastur liður á áramótaborðinu okkar til fjölda ára og því verður seint breytt.

Heimalagað rauðkál

  • 1/2 rauðkálshaus, skorinn þunnt niður
  • um 70 g smjör
  • um 350 g rifsberjasaft

Bræðið smjörið í motti. Hitið rauðkálið í smjörinu við vægan hita í nokkrar mínútur. Hellið saftinu yfir þannig að það fljóti aðeins yfir rauðkálið. Látið sjóða í 10 mínútur. Sigtið vökvann frá áður en rauðkálið er borið fram. Ef það á ekki að bera rauðkálið strax fram þá er það látið liggja í pottinum og svo hitað aftur áður en það er borið fram.

Sæt kartöflustappa með pekanhnetukrönsi

  • 3 sætar kartöflur (í stærri kantinum)
  • 100 g hrásykur
  • 2 egg
  • 75 g mjúkt smjör
  • 1 dl mjólk
  • 1/2 – 1 tsk vanilludropar

Pekanhnetukurl

  • 200 g púðursykur
  • 100 g saxaðar pekanhnetur
  • 40 g hveiti
  • 75 g brætt smjör

Forhitið ofninn í 175°og smyrjið eldfast mót.

Sjóðið sætu kartöflurnar þar til þær eru soðnar í gegn og fjarlægið þá hýðið. Skerið kartöflurnar í bita og setjið í skál ásamt sykri, eggjum, smjöri, mjólk og vanilludropum. Stappið vel saman og færið yfir í eldfast mót.

Blandið saman púðursykri, pekanhnetum og hveiti. Bræðið smjörið í annari skál og hellið saman við hnetublönduna. Hrærið saman með skeið og dreifið yfir kartöflustöppuna. Bakið í 30 mínútur.

Ein athugasemd á “Sæt kartöflustappa með pekanhnetukrönsi og heimalagað rauðkál

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s