Það er bæði löng helgi og langt síðan ég setti færslu hingað inn. Ástæðan fyrir því síðarnefnda er að ég hef verið í Þýskalandi, fyrst í Berlín og síðan í suður Þýskalandi, í dásamlegu fríi. Ég hef áður verið í Berlín og var þá lítið hrifin af borginni en núna kolféll ég fyrir henni. Síðan var gaman að koma til suðurhluta landsins, þar sem er allt annað landslag og fegurðin ólýsanleg.
Hversdagsleikinn tók við um leið og ég kom heim, þar sem beið mín stútfull óhreinatauskarfa og baðherbergi sem hafði ekki verið þrifið í viku. Til að bæta gráu ofan á svart tók slydda á móti okkur þegar við lentum. Það geta víst ekki alltaf verið jólin…
Myndirnar hér að ofan eru frá kampavínsbrönsinum á Hotel Adlon Kempinski. Það væri synd að fara til Berlínar án þess að upplifa hann. Kampavín, kavíar, humar, sjávarréttir, steikur… já, hreinlega allt sem hægt er að hugsa sér. Crepes með Grand Marnier, heimagerður ís og eftirréttaborð frá himnaríki. Já, þið skiljið hvað ég meina. Umhverfið er fallegt með útsýni yfir Brandenburgarhliðið. Þetta verður ekki toppað!
En eins og áður kom fram þá hefur hversdagsleikinn tekið við og honum fylgir ósköp hversdagslegur vikumatseðill. Ég kann vel við bæði!
Vikumatseðill
Mánudagur: Ofnbakaður fiskur í paprikusósu
Þriðjudagur: Einfalt og stórgott lasagna
Miðvikudagur: Blómkálssúpa
Fimmtudagur: Brauð með ítalskri fyllingu
Föstudagur: Kjúklingasalat með BBQ-dressingu
Með helgarkaffinu: Gullans kaka