Pasta með pepperóní og sveppum í hvítlauksostasósu

Það er orðið langt síðan ég setti pastauppskrift hingað inn en pastaréttir eru alltaf vinsælir hér heima. Pastaréttir eru líka frábærir til að nýta grænmeti og álegg sem eru að syngja sitt síðasta. Ef sósan er góð þá þykir mér útkoman aldrei klikka.

Núna prófaði ég að gera sósu úr laktósafría kryddostinum og rjómanum frá Örnu og útkoman var hreint út sagt æðisleg. Það varð smá afgangur sem fór í nestisbox og var borðaður með bestu lyst daginn eftir. Hér fer ekki arða til spillis!

Pasta með pepperóní og sveppum í hvítlauksostasósu

  • 400 g (ósoðið) pasta
  • 1 sóló hvítlaukur eða 2-3 hvítlauksrif
  • 1-2 msk smjör
  • 250 g sveppir (1 askja), sneiddir
  • 150 g pepperóní, skorið í fernt
  • 150 g (1 askja) laktósafrír kryddostur með hvítlauk frá Örnu, rifinn svo hann bráðni hraðar
  • 500 ml laktósafrír rjómi frá Örnu
  • salt og pipar

Bræðið smjör á pönnu og pressið hvítlaukin saman við. Steikið sveppi og pepperóní í hvítlaukssmjörinu og kryddið með pipar. Hellið rjóma yfir og hrærið kryddosti saman við. Látið sjóða saman við vægan hita undir loki á meðan pasta er soðið eftir leiðbeiningum á pakkningu. Smakkið sósuna til með pipar og salti áður en soðnu pastanu er blandað saman við hana.

*Færslan er unnin í samstarfi við Örnu

Pasta í parmesanrjómasósu með hráskinku, mozzarella og basiliku

Ég á enn vinnudag eftir þar til páskafríið hefst og ég get varla beðið. Ekki það að mér leiðist vinnan, síður en svo, heldur verður bara svo notalegt að geta vakað frameftir með krökkunum yfir bíómynd og sofið út á morgnanna.

Ég er búin að vera löt að prófa nýjar uppskriftir upp á síðkastið en gerði þó um daginn pastarétt sem okkur þótti mjög góður. Eins og með flesta pastarétti tók stutta stund að gera réttinn og á meðan einhverjir vildi hvítlauksbrauð með þá fannst öðrum það óþarfi. Sjálfri fannst mér rauðvínsglas fara afskaplega vel með matnum.

Pasta í parmesanrjómasósu með hráskinku, mozzarella og basiliku – uppskrift fyrir 4-5

  • ca 300 g pasta (ósoðið)
  • ca 1 dl rjómi
  • ca 2 dl rifinn parmesan
  • salt og pipar
  • ferskur mozzarella, rifinn sundur í smærri bita
  • hráskinka
  • fersk basilika
  • furuhnetur, þurrristaðar

Sjóðið pastaskrúfur í söltu vatni, eftir leiðbeiningum á pakkningu. Takið frá ca 1/2 dl af pastavatninu áður en því er hellt af pastanu. Setjið pastað aftur í pottinn og bætið rjóma og rifnum parmesan saman við. Kryddið með salti og pipar. Setjið mozzarella, hráskinku og ferska basiliku saman við. Stráið ristuðum furuhnetum yfir áður en rétturinn er borinn fram. Berið fram með pipar og auka parmesan osti.

Pylsupasta sem rífur í

Pylsupasta sem rífur í

Í einum af dýrustu og annasömustu mánuðum ársins passar kannski vel að koma með uppskrift af pastarétti sem tekur lítið úr buddunni og örskamma stund að útbúa. Þessi pastaréttur er svo brjálæðislega góður að það hálfa væri nóg. Ég fer varlega í cayenne piparinn út af krökkunum en það má auðvitað bæta honum yfir réttinn þegar hann er kominn á diskinn og þar með velur hver og einn styrkleikann á réttinum.

Pylsupasta sem rífur í

Pulsupasta sem rífur í

  • 10 pulsur
  • 1 græn eða rauð paprika
  • 2 skarlottulaukar
  • 3 dl rjómi
  • 1 dl sýrður rjómi
  • 1/2 dl sweet chili sósa
  • 1 tsk oregano
  • salt
  • svartur pipar
  • cayenne pipar

Skerið pulsurnar niður í bita og steikið á pönnu ásamt papriku og skarlottulauk þar til aðeins mjúkt. Bætið rjóma, sýrðum rjóma, oregano og sweet chili sósu á pönnuna og látið suðuna koma upp. Smakkið til með salti, svörtum pipar og cayenne pipar. Látið sjóða saman í um 5 mínútur.

Berið fram með pasta og nýrifnum parmesan.

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuÞessi vika hefur að mestu snúist um samræmdu prófin hjá strákunum og við erum því sérlega glöð yfir því að helgin sé framundan. Það er greinilega aðeins of langt síðan ég var í 7. bekk og ég stend í mikilli þakkarskuld við alnetið og þær upplýsingar sem þar má finna þegar ég stend á gati. Ætli ég sé ein um að vera svona ryðguð? Æ, hvað ég eiginlega vona það þó það væri vissulega huggun í að vita af fleirum sem klóra sér í kollinum yfir kenniföllum og rómverskum tölum. Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Þar sem það styttist í helgina ætla ég að koma með hugmynd að æðislegum helgarmat. Okkur þykir þessi réttur svo dásamlega góður að við borðuðum hann tvisvar í síðustu viku (alveg dagsatt!). Í annað skiptið buðum við mömmu í mat og hún dásamaði hann í bak og fyrir. Við höfum bæði borið réttinn fram með taglatelle og með ofnbökuðum kartöflubátum og salati. Bæði er mjög gott en mér þykir pastað þó standa upp úr. Það er bara eitthvað ómótstæðilegt við kjúklinginn með beikon/steinselju/parmesan hjúpnum og bragðmikilli soðsósunni sem pastað tekur í sig. Svoooo brjálæðislega gott og mín besta tillaga fyrir helgina.

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

  • 4 kjúklingabringur (um 700 g)
  • pipar og salt
  • um 160 g beikonstrimlar
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1/2 sóló hvítlaukur
  • 1 msk Hunt´s Yellow Mustard
  • 2 msk sojasósa
  • 1-2 kjúklinga- eða grænmetisteningar (mér þykir best að blanda þeim)
  • smá cayenne pipar
  • handfylli af hakkaðri steinselju
  • handfylli af rifnum parmesan

Skerið kjúklingabringurnar í sneiðar og leggið í eldfast mót. Saltið lítillega og piprið. Setjið sýrðan rjóma, teninga, pressaðan hvítlauk, sinnep og sojasósu í pott og látið sjóða saman við vægan hita í nokkrar mínútur. Hellið sósunni yfir kjúklinginn. Steikið beikonstrimla á pönnu og stráið yfir. Stráið að lokum hakkaðri steinselju og rifnum parmesan yfir. Bakið við 175° í 40 mínútur.

Berið fram með tagliatelle, pipar og vel af ferskrifnum parmesan.Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

 

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÞvílík helgi sem við fengum! Ég og strákarnir nýttum veðurblíðuna á laugardeginum og fórum í dagsferð um suðurlandið með vinkonu minni. Við heimsóttum meðal annars sundlaugina á Hellu (frábær sundlaug), Seljalandsfoss og vinnufélaga okkar sem var staddur í Þykkvabænum. Ferðina enduðum við síðan í þriggja rétta humarveislu á Fjöruborðinu á Stokkseyri. Æðislegur dagur í alla staði.

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Við vorum ekki í neinu stuði fyrir fisk í kvöld og ég skellti því í stórgóðan pastarétt sem við fáum seint leið á. Þessi hefur lengi verið í uppáhaldi og ég geri yfirleitt tvöfaldan skammt því krökkunum þykir svo gott að hita hann upp daginn eftir. Það er svo einfalt og fljótlegt að útbúa þennan rétt og í kvöld lögðum við á borð í sjónvarpsholinu og horfðum á Tyrant yfir matnum. Frábærir þættir sem eru sýndir seint á sunnudagskvöldum og því hentar okkur betur að taka þá á frelsinu daginn eftir. Ég mæli með þeim ef ykkur vantar þætti til að horfa á!

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Pasta í rjómasósu með beikoni og sveppum (uppskrift fyrir 3-4)

  • 250 g sveppir (1 box)
  • 130 g beikon (ég nota 1 bréf af eðalbeikoni)
  • 1 laukur
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 2 dl rjómi
  • 1/2 grænmetisteningur
  • salt og pipar
  • smá af cayenne pipar (má sleppa)

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Skerið sveppina í fernt, hakkið laukinn og skerið beikonið í bita. Hitið smjör á pönnu (mér þykir alltaf betra að steikja úr smjörlíki) og steikið sveppina þar til þeir eru komnir með góða steikingarhúð, bætið þá lauk og beikoni á pönnuna og steikið áfram þar til beikonið er fullsteikt og laukurinn orðinn mjúkur. Hellið rjóma og sýrðum rjóma yfir og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Smakkið til með grænmetiskrafti, salti og pipar. Endið á að setja örlítið af cayenne pipar fyrir smá hita.

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Ég er hrifin af pastanu frá De Cecco og í þennan rétt nota ég spaghetti n°12 sem ég sýð al dente (10 mínútur). Mér þykir þykktin á því vera svo góð og passa vel í réttinn.

Blandið pastanu saman við pastasósuna og hrærið smá af pastavatninu saman við. Það skemmir ekki fyrir að rífa parmesan yfir áður en rétturinn er borinn fram en það má þó vel sleppa því. Dásamlega gott á báða vegu.

Tortellini í pestósósu

Ferskt tortellini í pestósósuUm helgar eyði ég yfirleitt meiri tíma í kvöldverðinn. Þá vil ég bjóða upp á betri mat og nýt þess að hafa góðan tíma í eldhúsinu. Það gerist þó að tíminn hleypur frá mér og þá þykir mér gott að eiga góðar uppskriftir sem tekur stuttan tíma að matreiða.

Á laugardaginn áttum við Malín mæðgnadag og komum seint heim. Við eyddum deginum tvær saman, litum í búðir og á kaffihús, keyptum smá jólaskraut og enduðum á því að gera vikuinnkaupin. Þegar við komum heim fór ég í eldhúsið og útbjó ljúffengan pastarétt sem tók svo stuttan tíma að elda að Öggi rétt náði að leggja á borð og kveikja á kertum áður en maturinn var tilbúinn.

Ferskt tortellini í pestósósu

Það sem gerir réttinn svona fljótlegan er að ég notaði ferskt tortelini sem þarf bara að sjóða í 1 mínútu. Mér þykir ferskt tortellini sérlega gott og það er hægt að leika sér endalaust með það. Á laugardaginn bjó ég til sósu úr pestó, rjóma og ferskrifnum parmesan og blandaði saman við pastað ásamt rauðri papriku, rauðlauk og kirsuberjatómötum sem ég skar niður á meðan ég beið eftir að suðan á pastavatninu kæmi upp.  Það væri líka hægt að bæta við ólívum, salami, sólþurrkuðum tómötum, ruccola, spínati eða hverju því sem hugurinn girnist. Með góðu pasta er ekki hægt að mistakast og best af öllu, ljúffeng máltíð stóð á eldhúsborðinu á innan við korteri.

Ferskt tortellini í pestósósu

Tortellini með rjómapestósósu

  • 2 pokar ferskt tortellini með þurrkaðri skinku og osti
  • 1 peli rjómi (2,5 dl.)
  • 1 dl grænt pestó
  • 1 dl ferskrifinn parmesan
  • 1 rauð paprika
  • 1/2-1 rauðlaukur
  • 1 pakki kirsuberjatómatar (250 g)

Ferskt tortellini í pestósósu

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningu á pakkningu. Ég var með pasta frá RANA sem þarf bara að sjóða í 1 mínútu. Setjið rjóma og pestó í pott og hitið við vægan hita þar til blandan þykknar örlítið. Hrærið parmesan út í og leggið til hliðar.

Skerið papriku og rauðlauk í fína bita og kirsuberjatómata í tvennt. Hrærið um helmingi af pestósósunni saman við pastað og blandið svo papriku, rauðlauk og kirsuberjatómötum saman við. Myljið svartan pipar yfir og endið á að rífa vel af parmesanosti yfir diskinn. Berið fram með því sem eftir var af pestósósunni, ferskum parmesan og hvítlauksbrauði.