Sriracha Sesar salat

Það styttist í helgina og ekki seinna vænna en að fara að huga að helgarmatnum. Sjálf er ég búin að borða fisk þrjú kvöld í vikunni og langar í eitthvað gott um helgina, eins og eflaust flestum!

Ég gerði fyrir nokkru síðan Sesar salat sem okkur þótti æðislega gott. Uppskriftina fann ég í bók Chrissy Teigen, Cravings, en sú bók er stútfull af girnilegum uppskriftum. Dressingin er súpergóð og hægt að útbúa með góðum fyrirvara því hún geymist í allt að 2 vikur í ísskáp. Ég hef þó ekki látið á það reyna, þar sem við verðum seint þekkt fyrir að spara sósurnar á þessu heimili. Hér var sósuskálin hreinsuð með síðustu salatblöðunum. Klikkgott!

Sriracha Sesar salat – lítillega breytt uppskrift úr Cravings (fyrir 4-6)

  • kjúklingabringur, kryddaðar eftir smekk og eldaðar
  • Romain salat (eða Iceberg), strimlað
  • 1 askja kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
  • 1 lítill rauðlaukur, sneiddur þunnt
  • parmesan ostur
  • maldon salt og pipar

Brauðteningar:

  • 2 msk ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif, mjög fínhökkuð
  • 1/4 tsk rauðar piparflögur (red pepper flakes)
  • 1/2 tsk salt
  • 1/4 tsk svartur pipar
  • 12 þunnar sneiðar af snittubrauði

Hitið ofn í 180° og klæðið bökunarplötu með bökunarpappír. Hrærið saman ólífuolíu, hvítlauk, rauðum piparflögum, salti og pipar. Raðið snittubrauðsneiðunum á ofnplötuna og penslið með olíublöndunni. Bakið þar til brauðið er gyllt og stökkt, það tekur um 11-12 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna.

Sriracha Caesar dressing (uppskriftin gefur um 2 bolla af dressingu)

  • 1 bolli majónes
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 1½ bolli fínrifinn parmesan
  • 2 msk ferskur sítrónusafi
  • 1 msk Sriracha eða eftir smekk (byrjið með 1/2 msk og smakkið ykkur til)
  • 1½ tsk Dijon sinnep
  • 1 tsk Worcestershire sósa
  • ¼ tsk maldon salt
  • ¼ tsk nýmalaður pipar

Blandið öllum hráefnum saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Geymið í ísskáp þar til á að nota sósuna. Hún geymist í 2 vikur í lokuðu íláti.

 

Rjómalöguð kjúklingasúpa með pasta

Á svona vetrardögum þykir mér sérlega notalegt að vera með matarmikla súpu í matinn. Lengi vel eldaði ég súpu í hverri viku en nú var langt um liðið síðan síðast og öllum farið að langa í góða súpu. Þessa gerði ég því um helgina og krakkarnir kláruðu hana upp til agna.

Ég bar súpuna fram með snittubrauði, brúnuðu smjöri og ferskri basiliku. Það tók enga stund að koma matnum á borðið, öllu var bara húrrað í pottinn og látið sjóða saman á meðan ég lagði á borð og kveikt á kertum. Fljótlegra, einfaldara og margfalt betra en að sækja skyndibita!

Rjómalöguð kjúklingasúpa með pasta – uppskrift fyrir 4-5

  • 2 kjúklingabringur
  • olía til að steikja upp úr
  • 1 tsk karrý
  • 1 msk tómatpúrra
  • salt og pipar
  • 6 dl vatn
  • 425 g maukaðir tómatar
  • 2,5 dl rjómi
  • 1,5 dl frosið maís
  • 2 tsk kjúklingakraftur frá Oscar
  • 1/2 – 1 tsk grænmetiskraftur frá Oscar
  • 2 dl pasta
  • 1/2 tsk paprikukrydd (má sleppa)
  • 1/2 tsk sambal oelek (má sleppa)
  • fersk basilika

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið í olíu í rúmgóðum potti. Bætið öllum öðrum hráefnum fyrir utan maís í pottinn og látið sjóða í 15 mínútur. Bætið maís í pottinn og látið sjóða í nokkrar mínútur til viðbótar. Berið fram með ferskri basiliku til að strá yfir súpudiskinn.

*Færslan er unnin í samstarfi við Innnes

Svepparisotto

Ég er búin að vera í Boston síðan 3. janúar og það styttist í heimför. Eins og það er mikið af góðum mat í Ameríku þá get ég ekki beðið eftir að komast aftur í eldhúsið mitt. Ég er búin að fá mig fullsadda af dísæta hafragrautnum á McDonalds í morgunmat (McDonalds er innangengt af hótelinu) og skyndibita í flest mál. Það verður gott að fá morgunmat og nespresso heima og góðan fisk í kvöldmat.

Ég var að fara í gegnum myndirnar í tölvunni og þegar ég sá þessar þá rifjaðist upp fyrir mér að ég átti alltaf eftir að setja risottouppskriftina inn. Ég birti mynd af því á Instagram fyrir lifandis löngu og lofaði uppskriftinni í nokkrum skilaboðum sem mér bárust í kjölfarið.

Þegar við Gunnar vorum í Stokkhólmi síðasta sumar pantaði hann sér svepparisotto á Vapiano veitingastaðnum. Honum þótti það svo gott að ég mátti til með að prófa að elda það heima. Uppskriftina hafði ég rifið úr Morgunblaðinu fyrir löngu en hún kemur frá Mathúsi Garðabæjar. Þeir segja að uppskriftin sé fyrir 4-6 en við munum gera stærri uppskrift næst því okkur þótti hún í varla duga fyrir okkur fimm.

Risotto – uppskrift frá Mathúsi Garðabæjar

  • 200 g risotto-grjón
  • 25 g skalotlaukur
  • 500 ml kjúklingasoð
  • 100 g flúðasveppir
  • 20 g villisveppir
  • 50 g parmesan
  • 50 ml rjómi
  • salt og pipar

Brúnið laukinn létt í potti eða pönnu og setjið grjónin svo út í ásamt kjúklingasoðinu og sjóðið þar til þau verða léttelduð eða í um 10 mínútur. Brúnið næst sveppina á sér pönnu og setjið svo út í grjónin ásamt rjómanum og rifnum parmesan. Smakkið til með salti og pipar.

Frosin Nutella-ostakaka með heslihnetum

 

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur. Ég hef undanfarin ár tekið saman árið og birt lista yfir vinsælustu uppskriftir ársins í kringum áramótin en klikkaði á því núna. Það getur þó verið að ég taki saman vinsældarlistann á næstu dögum. Mér þykir alltaf svo gaman að sjá hvaða uppskriftir falla í kramið og verða vinsælar.

Bloggfærslurnar voru færri undir lok árs en ég hefði viljað. Það gafst bara ekki tími fyrir meira. Lokaspretturinn á 2018 var öflugur með útskrift Malínar, þremur afmælum, jólahátíð, áramótum og svo Bostonferð beint í kjölfarið, þar sem ég er stödd í þessum skrifuðu orðum.

Um áramótin prófaði ég tvo nýja eftirrétti sem mig langar að setja hingað inn. Ég ætla að byrja á frosinni ostaköku sem krakkarnir elskuðu. Ég er svo hrifin af eftirréttum sem hægt er að undirbúa með góðum fyrirvara og þessi kaka er einmitt þannig. Leyfið henni aðeins að þiðna og setjið léttþeyttan rjóma og ristaðar heslihnetur yfir rétt áður en kakan er borin fram. Klikkaðslega gott!

Frosin Nutella-ostakaka með heslihnetum – Uppskrift frá Roy Fares

Botn:

  • 100 g smjör
  • 200 g digestivekex
  • 30 g sykur

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið og myljið kexið. Blandið saman hráefnunum og þrýstið blöndunni í 22 cm bökuform með lausum botni. Bakið í miðjum ofni í um 10 mínútur. Látið botninn kólna alveg áður en fyllingin er sett í hann.

Fylling:

  • 400 g Philadelphia rjómaostur, við stofuhita
  • 2,5 dl rjómi
  • 200 g Nutella
  • 100 g púðursykur
  • 1 msk vanillusykur

Hrærið saman Philadelphia rjómaosti, 0,5 dl af rjóma, Nutella, púðursykri og vanillusykri þar til blandan er létt í sér. Hrærið því sem eftir er af rjómanum saman við í smáum skömmtum og hrærið þar til fyllingin er mjúk og létt. Setjið fyllinguna í bökubotninn og látið standa í frysti í að minnsta kosti 2 klst.

Yfir kökuna:

  • 5 dl rjómi
  • 30 g ristaðar hakkaðar heslihnetur (ég þurrrista þær á pönnu)

Takið kökuna út 20 mínútum áður en hún er borin fram. Léttþeytið rjómann og setjið yfir kökuna og endið á að strá ristuðum hökkuðum heslihnetum yfir.

*Færslan er unnin í samstarfi við Innnes

Súkkulaðimús með bismark

Gleðilega hátíð kæru lesendur. Ég er með smá móral yfir að hafa ekki litið hingað inn fyrr en þessi jól fara í sögubækurnar þegar að veisluhöldum kemur. Malín útskrifaðist úr Menntaskólanum í Kópavogi 20. desember og við vorum með útskriftarveislu um kvöldið. Ég fór út að borða á afmælinu mínu, bæði í hádeginu og um kvöldið, og á þorláksmessukvöldi fórum við í humarsúpu á Messann og röltum svo Laugarveginn. Yndislegir dagar!

Jólin voru hefðbundin. Mamma og Eyþór bróðir komu til okkar á aðfangadag og jóladegi var eytt í náttfötum með bók í sófanum þar til við fórum í hangikjöt til mömmu um kvöldið. Allar uppskriftir af jólamatnum held ég að séu löngu komnar hingað inn en í ár gerði ég nýja útfærslu af súkkulaðimúsinni sem mig langar að deila með ykkur. Krakkarnir elska súkkulaðimús og hún er því ósjaldan hér á borðum þegar þau fá að velja eftirréttinn.

Súkkulaðimús með bismark (fyrir 8)

  • 150 g súkkulaði með bismark (ég var með frá Nóa Síríus)
  • 50 g suðusúkkulaði
  • 4 eggjarauður
  • 5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Látið það kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt (ef hún verður kekkjótt eða of þykk er smá rjóma hrært saman við).

Þeytið rjómann en alls ekki of stífann. Hrærið léttþeyttum rjómanum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum með sleikju. Hrærið blöndunni varlega saman þar til hún hefur blandast vel.

Látið súkkulaðimúsina standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Berið fram með berjum og jafnvel þeyttum rjóma.

Quesadillas með nautahakksfyllingu í sweet chili rjómaosti

Nú er rétt rúm vika til jóla og það væri synd að segja að það sé jólalegt að horfa út. Verðið er dásamlega fallegt þessa stundina en hvar er snjórinn?!? Ég myndi alveg þiggja birtuna og jólastemninguna sem fylgir honum.

Það bíður okkar hver veislan á fætur annarri næstu vikurnar. Malín verður stúdent 20. desember, ég á afmæli 22. desember og strákarnir 27. desember. Síðan eru auðvitað jólin og áramótin og allt sem því fylgir. Það er því nóg að undirbúa og skemmtilegir tímar í vændum.

Ég eldaði um daginn svo æðislega góðar quesadillas sem krakkarnir hreinlega mokuðu í sig. Það er svo fljótlegt að gera quesadillas og hægt að fylla þær með hverju sem er. Þessi fylling kom svo vel út að ég má til með að birta hana hér. Ég gerði síðar stóran skammt til að eiga í ísskápnum sem krakkarnir hituðu upp með því að stinga þeim í brauðristina. Brjálæðislega einfalt og gott!

Quesadillas með nautahakksfyllingu í sweet chili rjómaosti

  • 500 g nautahakk
  • 1 laukur
  • 1 rauð paprika
  • 200 g Sweet Chili Philadelphia (1 askja)
  • chili explotion krydd
  • salt og pipar
  • salsa
  • nachos
  • rifinn ostur
  • 6 stórar tortillur

Steikið nautahakkið og kryddið með salti, pipar og chili explotion. Skerið lauk og papriku í þunnar sneiðar og steikið með nautahakkinu í nokkrar mínútur. Bætið Philadelphia Sweet Chili á pönnuna og látið bráðna saman.

Leggið tortillakökurnar á borð og dreifið fyllingunni yfir helminginn á hverri köku. Setjið salsa, mulið nachos og rifinn ost yfir. Brjótið tortillukökuna saman í hálfmána og steikið í olíu á hvorri hlið þar til kakan er stökk og osturinn bráðnaður. Skerið í sneiðar og berið fram.

*Færslan er unnin í samstarfi við Innnes

Jólabakstur

Ég hef aldrei verið jafn sein í jólabakstrinum og í ár. Malín hefur hins vegar staðið sig vel og er búin að baka marsípanfyllta saffransnúða, tvo umganga af sörum og nokkra umganga af smákökum sem hafa klárast jafnóðum. Það hefur því ekki væst um okkur hér heima.

Mér datt í hug að taka saman uppáhalds jólabaksturinn ef einhver er í baksturshugleiðingum og langar að prófa nýjar uppskriftir.  Það er gaman að halda í hefðir og baka sömu sortir á hverju ári en á sama tíma er jú líka skemmtilegt að prófa eitthvað nýtt. Sumar tegundir eru heilagar hjá okkur og jólin koma ekki fyrr en þær eru tilbúnar, á meðan aðrar koma og fara.

Saffransnúðana hef ég bakað fyrir jólin lengur en ég get munað og það má alls ekki sleppa þeim. Malín er búin að fylla frystinn af snúðunum og við erum því í góðum málum. Við elskum allt við þá og lyktin sem kemur í húsið þegar þeir eru bakaðir er ólýsanleg.

Sörurnar eru ómissandi á aðventunni og ég fæ mér helst eina á hverju kvöldi með kaffibolla. Svo gott!

Það er gaman að prófa sig áfram með mismunandi fyllingar í lakkrístoppum en þessir voru okkar uppáhalds í fyrra. Malín hefur bakað nokkra umganga af þeim upp á síðkastið en ég held að þeir hafi alltaf klárast samdægurs.

Rocky road er eitt uppáhalds jólanammið okkar og má ekki vanta yfir hátíðirnar. Ég hef séð sykurpúðunum skipt út fyrir Lindubuff og langar að prófa það í ár. Það er örugglega geggjað.

Dumlefudge gerði ég fyrir ein jólin og þarf að gera aftur. Krakkarnir elskuðu þetta.

Banana- og súkkulaðifudge sló líka í gegn hjá krökkunum.

Ég bakaði súkkulaðikökur með bismark brjóstsykri fyrir síðustu jól og langar að baka þær aftur núna. Þær eru dásamlegar.

Pestójólatré er einfalt að gera, fallegt á borði og æðislega gott.

Stökk piparmyntustykki með bismark er einfalt og gott.

Vikumatseðill

Þá er annar í aðventu runninn upp og í dag ætla ég að halda í hefðina og vera með aðventukaffi. Nýsteiktar eplaskífur með flórsykri, rjóma og sultu bornar fram með heitu súkkulaði (uppskrift af besta heita súkkulaðinu finnur þú hér) er orðin okkar kærasta aðventuhefð og tilhlökkunin hefst strax á haustin.

Til að halda í aðra hefð kemur hér tillaga að vikumatseðli fyrir komandi viku. Ef það er einhvern tímann gott að vera skipulagður í matarinnkaupum og gera stórinnkaup fyrir vikuna þá er það í desemberamstrinu, þegar það er svo margt skemmtilegra á dagskránni en að ráfa andlaus um búðina eftir vinnu.

Vikumatseðill

Mánudagur: Smjörsteiktur þorskur

Þriðjudagur: Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu

Miðvikudagur: Grænmetisbaka með piparosti

Fimmtudagur: Kjúklingur í ostrusósu

Föstudagur: Tortillakaka

Með helgarkaffinu: Dumlekökur í ofnskúffu

Svínalund í rjómalagaðri balsamiksósu

Þá er einn skemmtilegasti mánuður ársins runninn upp. Ég hef alltaf verið svo mikið jólabarn og elska þennan árstíma. Jólahlaðborð, jólatónleikar, jólasaumaklúbbar og hittingar með vinahópum. Síðan eigum við strákarnir öll afmæli í desember. Það er því sjaldan dauð stund.

Í ár er ég óvenju sein í jólabakstrinum. Malín hefur bakað nokkrar sortir en þær hafa allar klárast jafn óðum. Hún fyllti þó frystinn af jólasnúðunum sem okkur þykja ómissandi á aðventunni og bakaði sörur, en þær kláruðust áður en aðventan rann upp og það þarf því að baka annan umgang sem fyrst. Þær verða að vera til með kaffinu yfir aðventuna.

Ég nýtti tækifærið í gær og eldaði góðan mat í tilefni af fyrstu aðventunni, svínalund í sósu sem er svo góð að það er nánast hægt að borða hana sem súpu. Við erum hrifin af kartöflumús með en hrísgrjón og salat passar auðvitað líka vel. Aðalmálið er að ná sem mestri sósu með hverjum bita!

Svínalund í rjómalagaðri balsamiksósu (uppskrift fyrir 4-5)

  • um 900 g svínalund
  • smjör
  • salt og pipar

Sósa

  • 2 dl vatn
  • 5 dl rjómi
  • 1-1½ msk sojasósa
  • 2-3 msk fljótandi nautakraftur frá Oscar
  • 200 g Philadelphia rjómaostur (1 askja)
  • ½-1 msk balsamik gljái
  • salt og pipar

Hreinsið svínalundina og skerið í sneiðar. Bræðið smjör á pönnu og brúnið kjötið. Takið kjötið af pönnunni og leggið á disk á meðan sósan er útbúin (ekki þvo pönnuna!).

Setjið vatn á pönnuna og látið sjóða upp með steikingarsmjörinu. Látið soðið renna í gegnum sigti ef þörf er á en setjið það síðan aftur á pönnuna. Hrærið rjóma, sojasósu og nautakrafti saman við og látið suðuna koma upp. Bætið Philadelphia rjómaosti út í og látið sjóða saman í slétta sósu. Hrærið reglulega í pönnunni. Smakkið til með balsamik gljáa, salti og pipar. Bætið  kjötinu í sósuna og látið sjóða saman þar til kjötið er fulleldað.

*Færslan er unnin í samstarfi við Innnes

Banana-Dumle súkkulaðimús

Ég hef sagt frá því áður hér á blogginu að ég er búin að vera með algjört æði fyrir banana Dumle karamellunum sem hafa fengist síðan í sumar. Ég vil ekki vita hvað ég hef keypt marga poka af þeim og þeir eru alltaf fljótir að tæmast hér heima.

Ég bakaði kökulengjur úr karamellunum um daginn sem ég borðaði beint af ofnplötunni því þær voru gjörsamlega ómótstæðilegar. Síðan prófaði ég að gera súkkulaðimús úr þeim við ekki minni vinsældir. Þetta er einfaldasta súkkulaðimús sem hægt er að gera (hér er hún með hefðbundum Dumle karamellum) en það er þó best að bræða karamellurnar kvöldið áður svo blandan sé orðin vel köld þegar hún er þeytt upp. Ég setti banana og Daimkurl yfir músina sem kom mjög vel út en ég hugsa að það gæti líka komið vel út að skipta Daimkurlinu út fyrir hakkað súkkulaði. Þetta verðið þið að prófa!

Banana-Dumle súkkulaðimús

  • 1 poki banana-Dumle karamellur
  • 3 dl rjómi
  • Daimkurl og bananar sem skraut (má sleppa)

Skerið Dumle-karamellurnar í bita og leggið í skál. Hitið rjómann í potti að suðu og hellið yfir karamellurnar. Hrærið í blöndunni þar til karamellurnar hafa bráðnað og blandan er orðin slétt. Geymið í ísskáp yfir nóttu.

Takið karamellurjómann úr ísskápnum og hrærið í hrærivél þar til óskaðri áferð er náð. Setjið í skálar og skreytið með bönunum og Daimkurli.