Kartöflugratín með nautahakki

Ég fór í smá göngu með vinkonum mínum í veðurblíðunni í gærkvöldi. Ég setti inn myndir á Instagram stories og fékk í kjölfarið þónokkrar fyrirspurnir um hvar við vorum. Fyrir áhugasama þá gengum við frá Vífilsstaðavatni upp að Gunnhildi og yfir í Heiðmörk. Mjög falleg og skemmtileg leið sem óhætt er að mæla með. Við byrjuðum þó ferðina á að leggja bíl með veitingum í Heiðmörk og keyrðum síðan yfir að Vífilsstaðarvatni með hina bílana. Þegar við komum í Heiðmörk beið okkar því æðislegt pastasalat með dressingu og litlar prinsessutertur úr Ikea, sem Sigrún vinkona mín var búin að græja. Við fengum meira að segja kvöldsól yfir matnum! Frábært kvöld í alla staði.

Áður en ég lagði af stað eldaði ég súpu handa krökkunum en um daginn gerði ég hins vegar kartöflugratín með nautahakki sem okkur þótti mjög gott. Uppskriftina fann ég á Hemmets Journal og þurfti að hafa heilmikið fyrir að finna hana aftur.  Frábær hversdagsmatur en mig grunar að falli í kramið hjá öllum aldurshópum.

Kartöflugratín með nautahakki

 • 500 g nautahakk
 • 1 msk smjör
 • 1 laukur
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 msk tómatpuré
 • 1 dós hakkaðir tómatar (400 g)
 • 1 msk kálfakraftur
 • salt og pipar
 • oregano, þurrkað
 • 10 kartöflur
 • 2 dl rjómi
 • 2 dl rifinn ostur
Steikið nautahakkið í smjöri. Afhýðið og hakkið laukinn og steikið hann með nautahakkinu í nokkrar mínútur. Pressið hvítlauk saman við og hrærið tómatpuré saman við.
Bætið hökkuðum tómötum og kálfakrafti á pönnuna og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur. Smakkið til með salti, pipar og oregano.
Afhýðið kartöflurnar og skerið í strimla eða skífur. Setjið helminginn af kartöflunum í smurt eldfast mót. Setjið nautahakkið yfir og leggið seinni helminginn af kartöflunum yfir. Hellið rjóma yfir og kryddið með salti og pipar. Setjið álpappír yfir og setjið í 200° heitan ofn í 25 mínútur. Takið þá álpappírinn af, stráið rifnum osti yfir og setjið aftur í ofninn í 20 mínútur.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Vikumatseðill

Gleðilegan þjóðhátíðardag! Ég hélt mér fjarri öllum hátíðarhöldum þetta árið og fór í göngu um Hvaleyrarvatn. Ég vildi að ég væri meira fyrir hátíðarhöldin en satt að segja fæ ég hroll við tilhugsina um að leita að bílastæði í bænum og komast hvorki afturábak né áfram vegna mannfjöldans. Nei, þá vil ég frekar fara í útivistarfötin og halda í öfuga átt við siðmenninguna. Á leiðinni heim kom ég við í Hagkaup og gerði vikuinnkaupin. Nú er ísskápurinn því fullur og allt klárt fyrir nýja vinnuviku.

Vikumatseðill

Mánudagur: Tælenskur lax með núðlum

Þriðjudagur: Karrýgrýta með grænmeti og linsubaunum

Miðvikudagur: Pastagratín

Fimmtudagur: Pizza með sætkartöflupizzubotni

 

Föstudagur: Brauðterta

Með helgarkaffinu: Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Edamame baunir með dippsósu

Þegar ég var á Balí síðasta haust fékk ég æði fyrir edamame baunum. Síðan þá hef ég pantað mér baunirnar þegar ég sé þær á veitingastöðum en aldrei verið með þær hér heima. Það var svo um daginn þegar við buðum vinum okkar í mat að ég ákvað að prófa að bjóða upp á þær sem snarl með fordrykk (sem var svo góður að ég verð að setja uppskriftina inn fyrir helgina!). Í aðalrétt vorum við með grillaðar humarpizzur og í eftirrétt heita súkkulaðiköku með Dumle-fyllingu, hindberjum og ís (uppskriftin er líka væntanleg).

Ég fann uppskrift af edamame baunum sem mér leist vel á hjá Genius Kitchen. Svo einföld uppskrift og svo brjálæðislega góð! Baunirnar kláruðust á svipstundu og ég hefði eflaust mátt vera með tvo poka af þeim. Dippsósan er æði, ekki sleppa henni. Ég var búin að gera þetta tilbúið vel áður en gestirnir komu en mér þykir alltaf gott þegar hægt er að undirbúa með smá fyrirvara svo maður standi ekki á haus þegar gestirnir eru komnir. Þá vil ég frekar setjast niður með drykk og njóta!

Edamame baunir með dippsósu

 • 1/2 msk maldonsalt
 • 1 poki frosnar edamame baunir
 • klakavatn
 • 2 msk sojasósa
 • 2 msk hrísgrjónaedik
 • 1/2 tsk sesamolía
 • 1 tsk hunang
 • 1 hvítlauksrif, fínhakkað
 • 1 msk vorlaukur, hakkaður (ég sleppti vorlauknum því ég gleymdi að kaupa hann!)

Setjið saltið á litla þurra pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið þar til það hefur fengið smá lit (tekur um 6-7 mínútur). Fylgist með saltinu og hristið pönnunna annað slagið. Takið af hitanum og leggið til hliðar.

Hitið vatn að suðu og setjið edamame baunirnar í pottinn. Látið sjóða í 4 mínútur (ekki láta þær sjóða of lengi því þær eiga ekki að verða mjúkar). Takið baunirnar úr pottinum og setjið í skál með klakavatni í, til að koma í veg fyrir að þær haldi áfram að eldast. Þurrkið baunirnar og blandið þeim saman við saltið.

Útbúið sósuna með því að hræra saman sojasósu, hrísgrjónaediki, sesam olíu, hunangi, hvítlauki og vorlauki.

Berið baunirnar fram með sósunni (í sér skál).

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Kanilsnúðar í ofnskúffu

Ég, sem horfi allt of sjaldan á sjónvarpið og kann varla að kveikja á Netflix, var svo gjörsamlega búin á því á föstudagskvöldinu að ég sendi krakkana eftir Dominos og nammi og lá síðan í sófanum það sem eftir lifði kvöldins að horfa á The Crown. Þvílíkir þættir! Nú skilst mér að ég sé síðust allra að uppgötva þá en ég get ekki hætt að horfa, sem varð til þess að það varð ekkert af bloggfærslu yfir helgina.

Þeir sem fylgja mér á Instagram gátu þó kannski séð að ég lá nú ekki bara í sófanum heldur vaknaði svo úthvíld á laugardeginum (svaf í rúma 10 tíma án þess að rumska!) að ég var búin að rífa af rúmunum, taka til í geymslunni og baka kanilsnúða áður en dagurinn var hálfnaður. Snúðarnir enduðu á Instagram og nú kemur uppskriftin. Þetta eru eflaust einföldustu kanilsnúðar sem hægt er að baka því degið er bara brotið saman og sett í ofnskúffu. Það væri því eflaust réttara að kalla þá kanilferninga. Mér þótti vera aðeins of mikil fylling í þeim en var ein um að finnast það. Næst mun ég því hafa minni fyllingu. Annars voru þeir fullkomnir!

Kanilsnúðar í ofnskúffu

Deig:

 • 100 g smjör
 • 5 dl mjólk
 • 50 g þurrger (1 pakki)
 • 1/2 tsk salt
 • 1,5 dl sykur
 • 2 tsk kardemommur
 • hveiti eftir þörfum

Fylling:

 • 200 g philadelphiaostur
 • 100 g smjör við stofuhita
 • 3 msk kanil
 • 1,5 dl sykur
 • 1 msk vanillusykur

Yfir snúðana:

 • upphrært egg
 • perlusykur

Bræðið smjörið í potti og hrærið mjólkinni saman við. Hitið blönduna þar til hún hefur náð um 37° hita og setjið hana í skál. Hrærið geri, sykri, salti og kardemommu saman við. Leggið viskastykki yfir skálina og látið standa í nokkrar mínútur (þar til gerið byrjar að freyða). Hrærið því næst hveitinu saman við þar til deigið fer að losna frá könntum skálarinnar (byrjið á um 6 dl og bætið svo hveitinu smátt og smátt saman við). Látið hnoðarann á hrærivélinni (eða hnoðið með höndunum) ganga í 10 mínútur. Látið degið hefast á hlýjum stað (ég læt gerdeig alltaf hefast við 35-40° í ofninum) þar til það hefur tvöfaldast í stærð.

Hrærið öllu saman í fyllinguna með handþeytara.

Fletjið deigið út og smyrjið fyllingunni yfir. Brjótið deigið saman, þannig að það verði þrjú lög af deigi, og leggið í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Mótið deigið þannig að það fylli út í ofnskúffuna. Skerið göt efst í deigið og skerið síðan út passlega stóra snúða. Látið snúðana hefast í 30 mínútur. Penslið þá með upphrærðu eggi og stráið perlusykri yfir. Bakið við 200° í 17-20 mínútur í neðri hluta ofnsins. Látið snúðana kólna aðeins áður en þeir eru teknir í sundur.

Öll hráefni í þessa uppskrift fæst í

Kjúklingur og grænmeti

Á meðan veðrið helst gott reyni ég að forðast að eyða miklum tíma í eldhúsinu. Mitt besta ráð á slíkum dögum er að steikja grænmeti og kjúkling saman á pönnu og bera fram með tzatziki (hægt að kaupa tilbúið í flestum verslunum). Tekur enga stund og er bæði létt og gott í maga.

Það getur verið gott að hafa brauð með (t.d. pítubrauð) en sjálfri þykir mér kjúklingurinn og grænmetið duga. Ég nota sous vide elduðu kjúklingabringurnar sem fást orðið í verslunum (eða hafa þær kannski fengist lengi? Ég uppgötvaði þær bara nýlega) og hendi þeim á pönnuna undir lokin þannig að þær hitni aðeins. Annars er frábært að eiga þær í ísskápnum til að setja í pastarétti eða á pizzur. Geymast lengi og gott að geta gripið í þær.

Það sem ég setti á pönnuna í þetta skiptið var:

 • sæt kartafla
 • sellerírót
 • brokkólí
 • rauðlaukur
 • papikur, rauð og græn
 • 4 kjúklingabringur

Ég byrjaði á að skera sætu kartöfluna og sellerírótina í bita á meðan pannan var að hitna. Það fór svo á pönnuna ásamt smá ólífuolíu og á meðan skar ég það sem eftir var af grænmetinu niður. Þegar kartöflurnar voru farnar að mýkjast bætti ég grænmetinu á pönnuna ásamt smá vatni (ca 1/2 dl), lækkaði hitann og setti lokið á pönnuna. Eftir um 5 mínútur bætti ég niðurskornum kjúklingabringunum á pönnuna og blandaði öllu vel saman. Kryddað eftir smekk og borið fram með tzatziki.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Vikumatseðill

Það er nú ekki hægt að kvarta undan veðrinu þessa helgina. Við náðum bæði að bera á pallinn og slá grasið svo nú má sumarið koma. Í dag hef ég ekki gert neitt af viti og aldrei almennilega farið á fætur. Stundum er það bara svo ljúft! Ég gerði bara lítil vikuinnkaup í gær því ég ætla að elda úr því sem er til í ísskápnum og frystinum þessa vikuna. Hér kemur þó tillaga að vikumatseðli og ég má til með að mæla sérstaklega með kjúklingnum í ostrusósunni. Hann er betri en á veitingahúsum, ég lofa!

Mánudagur: Fiskur í ljúffengri sósu

Þriðjudagur: Brokkólí- og sveppabaka

Miðvikudagur: Nautahakks- og makkarónupanna

Fimmtudagur: Kjúklingur í ostrusósu

Föstudagur: Eðlupizza

Með helgarkaffinu: Sænskir vanillusnúðar

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Súkkulaðikaka í steypujárnspönnu

Mér þykir gaman að setja inn uppskriftir fyrir helgar sem gætu hentað sem helgarmatur. Nú er hins vegar ekki um auðugan garð að gresja í uppskriftabankanum hjá mér þar sem ég hef satt að segja ekki staðið mig neitt sérlega vel í eldhúsinu upp á síðkastið. Eftir að við komum frá New York hefur verið stöðugt útstáelsi á mér og eini maturinn sem ég hef reitt fram eru hversdagsréttir á borð við steiktan fisk, pulsupasta og hakk og spaghetti.

Ég ætla því að gefa uppskrift af köku núna og það ætti enginn að verða svikinn af henni. Kakan er algjör súkkulaðidraumur! Ef þið eigið ekki steypujárnspönnu þá er hægt að nota eldfast mót eða venjulegt kökuform. Ég notaði pönnuna af því að ég hafði fyrir því að drösla henni heim frá Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum og hef lítið sem ekkert notað hana síðan þá (ég furða mig á útlitinu á henni því hún er svo lítið notuð). Það var því kominn tími til að draga hana fram. Berið kökuna fram heita með ís og jafnvel auka súkkulaðisósu. Súpergott!!

Súkkulaðikaka í steypujárnspönnu

 • 100 g smjör
 • 1 dl hveiti
 • 3 dl sykur
 • 3 msk kakó
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1/2 tsk salt
 • 3 egg

Bræðið smjörið. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim út í smjörið. Hrærið eggjunum saman við og hellið deiginu í steypijárnspönnu. Bakið við 175° í um 15 mínútur. Gerið súkkulaðikremið á meðan.

Súkkulaðikrem

 • 200 g mjólkur- eða rjómasúkkulaði, gjarnan með hnetum í (ég var með mjólkursúkkulaði með salthnetum í)
 • 1 dl rjómi

Bræðið súkkulaði og rjómi saman í potti. Hellið blöndunni yfir kökuna þegar hún kemur úr ofninum. Látið standa í smá stund (þannig að mesti hitinn rjúki úr henni) en berið kökuna fram meðan hún er ennþá heit/volg.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í