Vikumatseðill

Það er svo dásamlegt að koma fram á morgnanna þessa dagana og mæta dagsbirtunni sem skín inn um gluggana. Þegar ég kom fram í morgun skein sólin inn og helgarblómin sem Hannes keypti á föstudaginn stóðu svo fallega í birtunni. Hann á hrós skilið fyrir hversu fallega vendi hann kaupir fyrir helgarnar. Hann veit hvað það gleður mig að hafa afskorin blóm hér heima og er lunkinn við að velja í fallega vendi. Yndislegur ♥

Vikumatseðill

Mánudagur: Brasilískur fiskréttur

Þriðjudagur: Salamibaka með fetaosti

Miðvikudagur: Nautahakks- og makkarónupanna

Fimmtudagur: Þunnbrauðsvefja með pulsu og kartöflumús

Föstudagur: Indverskur Butter Chicken

Með helgarkaffinu: Marmarakaka með súkkulaði og sítrónu

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Nautahakkshamborgarar

Í kvöld fer lítið fyrir eldamennskunni hjá mér því ég er að fara í saumaklúbb. Áður en ég fer ætla ég þó að hendast í Hagkaup í Smáralindinni því ég sá að það er 20% afsláttur af snyrtivöru þar í kvöld út af konukvöldi. Tímasetningin gæti ekki verið heppilegri því ilmvatnið mitt er að klárast og augnblýanturinn er á síðustu metrunum. Síðan má alltaf á sig glossum bæta, sérstaklega þegar það er afsláttur. Áður en ég hleyp út má ég þó til með að setja inn uppskrift af nautahakkshamborgurum sem mér þykja passa svo vel á helgarmatseðilinn. Ég sá þá fyrir löngu á Pinterest og lét loksins verða af því að elda þá um daginn. Einfaldir og súpergóðir!

Nautahakkshamborgarar – lítillega breytt uppskrift frá Kevin & Amanda

 • 450 g nautahakk
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk pepper
 • 1 tsk kúmin (ath. ekki kúmen)
 • 1 tsk sinnepsduft
 • 1/2 tsk reykt paprika
 • 2 bollar hakkaður laukur (ca 1 stór eða 2 litlir laukar)
 • 3-4 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 2 dl hakkaðir tómatar í dós með chili (ég var með frá Hunts)
 • 1 tsk sykur
 • 1 nautateningur
 • ostur (ég var með cheddar ost)
 • 6 hamborgarabrauð

Gljái

 • 1/2 bolli (8 msk) smjör
 • 2 msk púðursykur
 • 1 msk Worcestershire sósa
 • 1 msk sinnep
 • 1 msk sesamfræ

Hitið ofninn í 175° og smyrjið eldfast mót sem rúmar 6 hamborgarabrauð.

Hitið pönnu vel og setjið hakkið á pönnuna. Látið það brúnast vel og kryddið með salti, pipar, kúmin, sinnepsdufti og reyktri papriku. Bætið lauk og hvítlauk á pönnuna og steikið áfram þar til laukurinn er mjúkur. Hrærið hökkuðu tómötunum saman við og látið sjóða saman í smá stund.

Setjið neðri helmingana af hamborgarabrauðunum í eldfasta mótið. Setjið nautahakkið yfir og ost í sneiðum (gott að setja vel af honum). Setjið lokin af hamborgarabrauðunum yfir.

Setjið öll hráefnin í gljáann í pott og hitið þar til allt hefur blandast vel saman. Hellið yfir hamborgarana og setjið í ofninn í um 25 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Tælenskt kjúklingapasta frá California Pizza Kitchen

Við Hannes erum á leið til Bandaríkjanna síðar í mánuðinum og ég hef undanfarin kvöld verið að skoða veitingastaði þar. Ég bóka alltaf borð áður en ég fer erlendis, bæði því mér þykir svo gaman að vera búin að hugsa út staði til að borða á og líka til að koma í veg fyrir að við endum dauðþreytt eftir daginn á næsta nálæga veitingastað. Reynslan hefur kennt okkur að panta borðin seint, þar sem við erum oftast á þvælingi langt fram eftir degi. Það er svo notalegt að komast aðeins upp á hótel, henda sér í sturtu og jafnvel fá sér einn drykk á meðan verið er að hafa sig til fyrir kvöldið.

Ég sé oftast til þess að ná einni ferð á California Pizza Kitchen þegar ég er í Bandaríkjunum en þangað fer ég helst í hádeginu. Það var á tímabili frábær pizza á matseðlinum hjá þeim sem ég síðar fann uppskrift af á netinu og eldaði hér heima. Það er dálítið tímafrekt að gera hana en mér þykir pizzan svo góð og vel þess virði að leggja smá á sig fyrir hana. Uppskriftina setti ég hingað inn fyrir löngu, það má finna hana hér.

Í þessum hugleiðingum rifjaðist upp fyrir mér uppskrift af tælensku kjúklingapasta frá California Pizza Kitchen sem hefur gengið um á netinu. Mér þótti því áhugavert að prófa uppskriftina og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þessi pastaréttur sló svo í gegn hér heima að ég get ekki hætt að hugsa um hann. Þennan rétt á ég eftir að elda aftur og aftur, svo mikið er víst!

Tælenskt kjúklingapasta – uppskrift frá California Pizza Kitchen

 • 450 g spaghetti
 • 3 msk sesam olía
 • 1 bolli gulrætur, skornar í strimla
 • 2 bollar kínakál, skorið í strimla
 • 2 bollar eldaðar kjúklingabringur, skornar í bita
 • 8 vorlaukar
 • 5 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 1 msk rifið engifer
 • 1/4 bolli hunang
 • 1/4 bolli hnetusmjör (creamy)
 • 1/4 bolli sojasósa
 • 3 msk hrísgrjónaedik
 • 1 – 1,5 msk sriracha hot chilli sósa

Setjið vatn í rúmgóðan pott og hitið að suðu. Bætið 1-2 msk af salti út í vatnið. Bætið spaghetti í pottinn og sjóðið skv. leiðbeiningum á pakkningu. Hellið vatninu frá og hrærið 2 msk af sesamolíu saman við spaghettíið.

Þurrkið pottinn og setjið 1 msk af sesamolíu í hann. Setjið vorlauk (takið fyrst smá af honum frá til að setja yfir réttinn sem skraut), gulrætur, kínakál, kjúkling, hvítlauk og engifer í pottinn. Steikið í 1-2 mínútur og bætið þá hunangi, hnetusmjöri, sojasósu, ediki og Sriracha sósu í pottinn. Hærið öllu vel saman og bætið að lokum spaghettíinu í pottinn. Blandið öllu vel saman. Skreytið með vorlauk og berið fram.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

 

 

 

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

Góðan daginn!

Ég sit hér við eldhúsborðið í náttsloppnum og ætla að drífa mig á fætur og út í göngutúr um leið og færslan er komin inn. Veðrið er svo fallegt að það væri synd að nýta það ekki í útivist. Í kvöld ætlum við Hannes á Bestu lög Vilhjálms Vilhjálmssonar tónleikana í Hörpu og síðan á Food and fun á Apótekið. Ég get ekki beðið! Krakkarnir verða hér heima á meðan og ætla að gera sér pizzur. Það er ákveðinn lúxus sem fylgir því að vera með svona stór börn. Malín er að verða 19 ára og því hálf fullorðin. Það er því lítið mál að bregða sér frá.

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

Um síðustu helgi vorum við Hannes bara tvö í mat og nýttum því tækifærið til að fá okkur osta og rauðvín. Ég prófaði að gera ostaídýfu úr bræddum ísbúa sem varð svo góð að uppskriftin verður að komast hingað inn. Best er að bera hana fram með góðu kexi eða stökku brauði, t.d. baquette sem hefur verið skorið í sneiðar og ristað á pönnu eða í ofni. Síðan er líka gott að setja smá chilisultu yfir. Vert að prófa!

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoniOstaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

Ostaídýfa með karamelluseruðum lauk og beikoni

 • 1 laukur, hakkaður
 • 1 tsk sykur
 • 4 beikonsneiðar, eldaðar og hakkaðar
 • 1/2 dl sýrður rjómi
 • 1/2 dl majónes
 • 100 g ísbúi, rifinn
 • salt og pipar

Setjið smá ólífuolíu á pönnu og hitið við lágan hita (ég var með stillingu 3 af 9). Steikið laukinn í 20 mínútur, setjið þá sykur yfir hann og steikið í 45-60 mínútur til viðbótar. Hrærið annað slagið í pönnunni svo laukurinn brenni ekki.

Steikið beikonið (mér þykir best að steikja það í ofni, við 200° í 5-10 mínútur). Látið það kólna aðeins og skerið svo fínt niður.

Blandið saman majónesi, sýrðum rjóma, beikoni, salti og pipar. Hrærið rifnum Ísbúa og karamelluseruðum lauki saman við. Setjið blönduna í lítið eldfast mót, stráið 2 msk af rifnum Ísbúa yfir og bakið við 200° í um 20 mínútur.

Berið heitt fram með kexi eða brauði.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Ofnbökuð ostapylsa

Ofnbökuð ostapylsa

Það er nú fátt svo slæmt að því fylgi ekki eitthvað gott og þó að ég hefði glöð viljað sleppa við snjóinn sem kom aðfaranótt sunnudags þá gleðst ég yfir hvað hann bar með sér gott skíðafæri. Eftir vinnu í gær brunuðum við upp í fjall og skíðuðum þar fram á kvöld í blíðskapaveðri. Þvílík sæla!

Ofnbökuð ostapylsaOfnbökuð ostapylsa

Þar sem við komum seint heim var ákveðið að hafa fljótlegan kvöldverð og urðu pulsur fyrir valinu. Ég má til með að benda ykkur á þessa eldunaraðferð sem lyftir pulsunum upp á hærra plan. Pulsubrauðið er smurt að utan með smjöri og svo lagt opið með smjörhliðina niður á ofnplötu. Vel af rifnum osti er stráð yfir pulsubrauðið. Pulsan er skorin eftir henni endilangri þannig að hún rétt hangi saman og er lögð opin með sárið niður á sömu ofnplötu og pulsubrauðið var sett á. Eftir skamma stund er pulsunni snúið við og síðan að lokum er hún sett í brauðið ásamt meiri osti. Svakalega gott!

Ofnbökuð ostapylsa

Ofnbökuð ostapylsa

 • pulsur
 • pulsubrauð
 • mjúkt smjör
 • pizzaostur
 • cheddarostur

Kveikið á grillinu á ofninum. Smyrjið pulsubrauðin með mjúku smjöri að utan og leggið þau opin á ofnplötu með smjörhliðina niður. Stráið rifnum cheddar og pizzaosti yfir þau (mér þykir gott að hafa mikinn ost, set um 1 dl á hvert brauð). Skerið pulsurnar eftir þeim endilöngum þannig að þær haldast saman en geta legið flatar á ofnplötunni. Setjið þær á ofnplötuna með pulsubrauðunum með flötu hliðina niður. Setjið í ofnin í um 2 mínútur, snúði þá pulsunum við og látið grillast í 1 mínútu til viðbótar. Setjið pulsuna þá á aðra hliðina á pulsubrauðinu, stráið um 3 msk af rifnum osti yfir, lokið pulsubrauðinu og grillið áfram þar til osturinn hefur bráðnað. Berið fram með tómatsósu og sinnepi.

Ofnbökuð ostapylsaOfnbökuð ostapylsaOfnbökuð ostapylsa

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

Vikumatseðill

Á morgun er bolludagur og eflaust margir sem taka forskot á daginn og baka bollur til að eiga með kaffinu í dag. Ég setti inn uppskrift af vatnsdeigsbollum fyrr í vikunni og fékk svo margar æðislegar tillögur af fyllingum á Facebook í kjölfarið að ég má til með að benda ykkur á að kíkja þangað.  Ég hef ekki getað hætt að hugsa um kókosbollu- og jarðaberjafyllinguna eða að fylla bolluna með Baileys frómas og rjóma og setja síðan karmellusósu ofan á… það hlýtur að vera himneskt. Að setja marsípan og rjóma á milli verð ég líka að prófa sem og Royal karamellubúðing sem ég veit að á eftir að slá í gegn hjá strákunum mínum. Það var svo mikið af góðum hugmyndum sem komu fram þarna að ég verð eflaust borðandi bollur fram yfir páska því mig langar að smakka þær flestar. Ég mæli með að kíkja á þetta!

Vikumatseðill

Ofnbakaðar kjötbollur

Mánudagur: Ofnbakaðar kjötbollur

Fiskur með eggjasósu og beikoni

Þriðjudagur: Fiskur með beikoni og eggjasósu

Ofnbökuð svínalund með rótargrænmeti - allt í einni skúffu!

Miðvikudagur: Ofnbökuð svínalund með rótargrænmeti

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum

Fimmtudagur: Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Föstudagur: Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Snickersbitar

Með helgarkaffinu: Snickersbitar

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

Nutellaídýfa

NutelladýfaNutelladýfa

Gunnar ákvað skyndilega á gamlárskvöldi að hafa árið 2017 sælgætislaust. Hann hefur enn sem komið er ekki fengið sér svo mikið sem nammibita, nokkuð sem ég dáist að og gæti eflaust aldrei leikið eftir. Hann er þó svo staðfastur í því sem hann tekur sér fyrir hendi að ég hef fulla trú á því að hann klári þetta með glans.

Sælgætisbindindið gerir það að verkum að ég kaupi síður nammi og set í skál fyrir framan sjónvarpið á laugardagskvöldum, heldur reyni að finna annað góðgæti til að bjóða upp á. Eðla stendur auðvitað alltaf fyrir sínu en Nutellaídýfa er þó vinsælasta helgargóðgætið.  Það er hægt að dýfa hvaða ávöxtum sem er í hana en við mælum sérstaklega með berjum og bönunum. Einfalt og vinsælt!

Nutelladýfa

Nutellaídýfa – uppskrift frá Mitt Kök

 • 2,25 dl rjómi
 • 2,25 dl rjómaostur (ég var með frá Philadelphia)
 • 1,5 – 2 dl Nutella
 • 3 msk flórsykur

Þeytið rjómann loftkenndan og léttann. Setjið rjómaost og flórsykur í aðra skál og hrærið saman. Hrærið Nutella saman við rjómaostinn. Hrærið að lokum þeytta rjómanum varlega saman við.

Setjið í skál og berið fram með ávöxtum, berjum og/eða banana.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Kjúklingatacos undir ostabræðingi

 

Kjúklingatacos undir ostabræðingi

Ég var búin að lofa að sýna nýja ljósið sem prýðir orðið eldhúsið mitt. Sarfatti frá Flos hefur lengi staðið á óskalistanum mínum og hangir nú loksins yfir borðstofuborðinu. Mér þykir það svo fallegt að það nær engri átt.

Kjúklingatacos undir ostabræðingi

Um síðustu helgi eldaði ég kjúklingatacos sem sló í gegn hér heima. Tacokryddaður kjúklingur, paprikur og rauðlaukur undir blöndu af rjómaosti, sýrðum rjóma og cheddarosti. Þið heyrið bara hvað þetta er gott! Það er hægt að bera réttinn fram með í stökkum tacoskeljum, mjúkum tortilla eða bara með salati og nachos. Við settum blönduna í mjúkar tortillur ásamt fínskornu iceberg, salsa sósu, sýrðum rjóma og toppuðum með muldu svörtu Doritos. Súpergott!!

Kjúklingatacos undir ostabræðingi

Kjúklingatacos undir ostabræðingi

 • 900 g kjúklingabringur
 • 2 pokar tacokrydd
 • gul, rauð og græn paprika (1 í hverjum lit)
 • stór rauðlaukur (eða tveir litlir)
 • 200 g rjómaostur
 • 1 dl sýrður rjómi
 • 2 dl rifinn cheddarostur + smá til að setja yfir
 • jalapenos
 • nachos

Hitið ofninn í 225°. Skerið kjúklingabringurnar í strimla, fínhakkið paprikurnar og skerið laukinn í báta. Steikið kjúklinginn og kryddið með tacokryddinu. Bætið paprikum og rauðlauk á pönnuna og steikið í 1 mínútu. Setjið blönduna yfir í eldfast mót. Hrærið saman rjómaosti, sýrðum rjóma og rifnum cheddar osti. Dreifið úr ostablöndunni yfir kjúklingablönduna. Stráið smá cheddar osti yfir ásamt fínhökkuðu jalapeno. Setjið í ofninn í um 15 mínútur, eða þar til osturinn er bráðnaður. Takið út og skreytið með nachos.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Þegar ég var 14 ára byrjaði ég að sanka að mér uppskriftum sem ég skrifaði niður í stílabók. Ég var þá lítið fyrir eldamennsku en bakstur átti hug minn allan og uppskriftasafnið var eftir því. Ég á ennþá stílabókina sem ég skrifaði uppskriftirnar mínar í en í henni má einnig finna mikilvægar upplýsingar á borð við heimilisföng aðdáðendaklúbba Jason Donovan og Roxett sem og teikningar af mismunandi uppröðun húsgagna í herberginu mínu.

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Það er langt síðan ég notaði bókina síðast en það er aðallega ein uppskrift sem ég nota í hvert einasta skipti þegar ég baka bollur, nefnilega vatnsdeigsbolluuppskrift sem ég komst yfir á þessum tíma. Sú uppskrift hefur aldrei nokkurn tímann klikkað, ekki einu sinni þegar ég var 14 ára og að stíga mín fyrstu skref í eldhúsinu.

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Í upprunalegu uppskriftinni eru bökunarleiðbeiningarnar svo flóknar að það nær engri átt. Í dag baka ég bollurnar bara í 180° heitum ofni í 18-20 mínútur og þær hafa aldrei klikkað. Ég hef meira að segja brotið allar reglur, eins og að opna ofninn áður en bollurnar eru tilbúnar, en það hefur þó ekki komið að sök. Það virðist ekki hægt að klúðra þessu, þó vel sé reynt!

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Bollurnar má auðvitað fylla með hverju því sem hugurinn girnist en sjálf er ég hrifnust af hefðbundum bollum með sultu, rjóma og súkkulaðiglassúr. Ég geri bollurnar frekar litlar en ef þið viljið hafa þær stærri þá passið þið að lengja bökunartímann um nokkrar mínútur. Ég hef aldrei fryst þær en sé að ég hef skrifað að svo megi gera. Það er því upplagt að nýta einhvern daginn í vikunni til að undirbúa bolludaginn sem er strax í byrjun næstu viku.

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Vatnsdeigsbollur  (18-20 litlar bollur)

 • 2,5 dl vatn
 • 125 g smjör
 • 125 g hveiti
 • 4 egg

Setjið vatn og smjör í pott og látið suðuna koma upp. Takið pottinn af hitanum og hrærið hveitinu saman við þar til massinn losnar frá pottinum. Kælið blönduna örlítið. Bætið eggjunum út í, einu í einu, og hrærið vel á milli. Notið tvær teskeiðar eða setjið deigið í sprautupoka og sprautið bollur á smjörpappírsklædda plötu. Bakið við 180° á blæstri í 18-20 mínútur.  Ef bollurnar eru hafðar stærri er bökunartíminn lengdur.

Vatnsdeigsbollur sem klikka aldrei!

Glassúr

 • 100 g suðusúkkulaði
 • 2 msk sýróp
 • 2 msk rjómi

Bræðið allt saman í potti. Látið kólna aðeins og setjið yfir bollurnar.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Vikumatseðill

VikumatseðillValentínusarblómin hafa staðið falleg alla vikuna og glatt mig á hverjum degi. Nýtt ljós sem sést glitta í yfir borðstofuborðinu gleður mig líka, enda hefur það staðið lengi á óskalistanum. Þau ljósakaup áttu eftir að vinda verulega upp á sig, sem varð til þess að það tók nánast vikuna að koma því upp. Eftir að við keyptum ljósið fannst okkur nefnilega ekki hægt að setja það upp án þess að renna málningu yfir loftið. Síðan ákváðum við að setja dimmer á ljósið. Það þurfti því að bíða þar til verslanir opnuðu daginn eftir til að kaupa það sem þurfti fyrir dimmerinn. Þá datt okkur í hug að skipta líka vinnuljósinu út í eldhúsinu, þannig að það var aftur farið af stað. Þetta reyndist því fimm daga verkefni í það heila. En núna er ljósið komið upp og það er bara svo fallegt að það nær engri átt. Ég skal mynda það fljótlega og sýna ykkur betur. Mig grunar nefnilega að margir sem kíkja hingað inn í dag séu að bíða eftir vikumatseðlinum!

Vikumatseðill

Gratíneraður fiskur með púrrlauk og blómkáli

Mánudagur: Gratineraður fiskur með púrrulauk og blómkáli

Grænmetisréttur með kínoa og sætum kartöflumGló-brauðið sívinsæla

Þriðjudagur: Grænmetisréttur með kínóa og sætum kartöflum og Gló-brauðið sívinsæla

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Miðvikudagur: Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Hakk og spaghettí

Fimmtudagur: Hakk og spaghetti

Kjúklinganaggar

Föstudagur: Kjúklinganaggar

Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos

 

Með helgarkaffinu: Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP