Fiskur í karrý með tómötum og eggjum

Ef það er einhver uppskriftaflokkur hér á síðunni sem mig langar að stækka þá eru það fiskréttirnir. Krakkarnir mínir elska fisk og ég líka, samt er ég ódugleg við að prófa nýjar uppskriftir af fiskréttum.

Í gærkvöldi prófaði ég þó nýjan fiskrétt sem vakti svo mikla lukku hjá krökkunum að allir fengu sér ábót og Malín sagði hann vera einn sá besti fiskréttur sem hún hafði smakkað!  Sjálf hrósaði ég matnum við hvern bita því mér fannst hann svo góður. Með fiskinum bar ég fram nýjar soðnar kartöflur og Hvítlauks- og steinseljusósuna frá Fisherman. Þvílík veisla!

Fiskur í karrý með tómötum og eggjum – uppskrift fyrir 5-6

 • um 800 g þorskur
 • 6-8 msk smjör
 • um 1 msk karrý
 • sítrónupipar
 • salt
 • 4 egg
 • 2 stórir tómatar

Skerið fiskinn í bita og steikið í smjöri. Kryddið með karrý, sítrónupipar og salti.

Harðsjóðið eggin. Hakkið eggin og tómatar og setjið yfir fiskinn á pönnunni.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Vikumatseðill

Skólarnir hefjast á morgun og þar með þykir mér haustið formlega komið. Ég fæ fiðring í magann við tilhugsunina. Þessi árstími hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Í ár eru ákveðin kaflaskipti hjá okkur því núna eru öll börnin mín komin í menntaskóla. Það sem tíminn líður hratt! Fyrir nokkrum árum gerði ég stóra uppskrift súkkulaðibitakökum og degið fékk að dúsa í ísskápnum fyrstu skólavikuna. Á hverju kvöldi bakaði ég nokkrar kökur sem við fengum okkur svo nýbakaðar með kvöldkaffinu. Kannski ekki það hollasta en súpernotaleg byrjun á haustinu.

Vikumatseðill

Mánudagur: Smjörsteiktur þorskur

Þriðjudagur: Tælensk núðlusúpa

Miðvikudagur: Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu

Fimmtudagur: Grænmetisbaka með piparosti

Föstudagur: Kjúklingur í satay með fetaosti og spínati

Með helgarkaffinu: Heimsins bestu súkkulaðibitakökur

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

Einfaldar ofnbakaðar kjötbollur

 

Í næstu viku hefst haustrútínan hér á heimilinu en þá byrja skólarnir og sumarfríi strákanna tekur enda. Ég hef alltaf elskað haustin og finnst svo mikil stemning fylgja því þegar allt hefst á nýjan leik eftir sumarið. Ég finn að okkur er farið að langa í haustlegri mat og nú hef ég gert þessar góðu kjötbollur tvisvar á mjög stuttum tíma.

 

Það eiga eflaust margir uppskriftina af þessum bollum enda uppskrift sem gekk manna á milli fyrir mörgum árum. Bollurnar voru oft gerðar litlar og hafðar sem pinnamatur en mér þykir gott að gera þær aðeins stærri og bera fram með kartöflumús, sósu og sultu. Ég hrúga bara öllum hráefnunum í hrærivélina og vinn þau snögglega saman. Síðan tek ég ískúluskeið (heitir það ekki annars það?) og þá fæ ég allar kjötbollurnar jafn stórar á stuttum tíma. Í gærkvöldi átti ég bara einn bakka af nautahakki og hálfan pakka af kexinu en setti samt allt bréfið af púrrulaukssúpunni og tvö egg og kjötbollurnar urðu mjög góðar. Þetta virðist bara aldrei klikka!

Kjötbollur með púrrlaukssúpu og rizkexi

 • 1 kg nautahakk (eða 500 g nautahakk og 500 g svínahakk)
 • 2 egg
 • 1 bréf púrrulaukssúpa
 • 1 pakki rizkex (fínmulið)

Hrærið allt saman og mótið kjötbollur. Bakið við 180° í 15 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Hamborgarar í sætri kartöflu

Malín og Oliver hafa upp á síðkastið beðið um að fá að sjá um kvöldmatinn stöku kvöld hér heima og það er heldur betur auðsótt hjá þeim. Mér þykir algjör lúxus að fá hvíld frá eldhúsinu inn á milli og sérstaklega í hversdagsamstrinu, þegar ég er að koma seint heim og það bíða jafnvel mörg verkefni um kvöldið.

Um daginn var eitt af þeim kvöldum sem þau sáu um matinn og hann varð svo æðislega góður að ég má til með að deila uppskriftinni… eða réttara sagt hugmyndinni. Það er nefnilega alveg frábært að skipta hamborgarabrauði út fyrir sæta kartöflu, eins og þau gerðu. Þau skáru sætu kartöflurnar í þykkar sneiðar, pensluðu þær með olíu og krydduðu með maldonsalti, svörtum pipar og chili explosion. Kartöflurnar voru síðan bakaðar við 180° þar til mjúkar í gegn. Hamborgararnir voru síðan steiktir (líka gott að grillla þá!) og svo voru herlegheitin borin fram með hefðbundu meðlæti. Klikkgott!

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Sætkartöflu, kjúklingabauna og spínatkarrý

Á morgun byrja ég aftur að vinna eftir þriggja vikna sumarfrí. Ég á enn smá frí eftir sem ég ætla að eiga í vetur. Það bíður Londonferð í haust og útskrift sem þarf að undirbúa þannig að það verður gott að eiga frí inni. Ég ætlaði ekki að vera svona ódugleg hér á blogginu í fríinu en það gafst satt að segja ekki færi á að blogga þar sem ég fór bæði til Stokkhólms og stóð í framkvæmdum hér heima, sem tóku aðeins meiri tíma en ég gerði ráð fyrir. Núna er þó allt klárt og ég er svo þakklát fyrir það. Vil helst bara vera hér heima að dunda mér og fór varla út úr húsi alla helgina.

Ég borða nánast alltaf það sama í vinnunni, bollasúpu og hrökkbrauð með hummus. Ég fæ ekki leið á því en samt, hversu óspennandi?!? Inn á milli tek ég mig þó til og elda eitthvað hollara og betra, sem ég síðan frysti í nestisboxum þannig að ég geti gripið box með mér á morgnana. Þar sem grænmetisréttir vekja yfirleitt litla lukku hjá unglingunum mínum þá verða þeir oftast fyrir valinu í nestisboxin mín. Þennan rétt fann ég í gömlu Jamie Oliver-blaði og eldaði í gær. Það sem þó gerðist var að báðum stráknum mínum fannst rétturinn svo góður að þeir fengu sér sitthvora fulla skálina í morgunmat (vöknuðu vel eftir hádegi, þegar ég var búin að elda). Það er kannski von með þá og grænmetisrétti eftir allt! Það var nóg til og eftir að þeir voru búnir að borða fyllti ég 8 nestisbox sem bíða mín nú í frystinum.

Sætkartöflu, kjúklingabauna og spínatkarrý – uppskrift fyrir 6  (lítillega breytt uppskrift frá Jamie Oliver)

 • 2 msk ólífuolía
 • 2 rauðlaukar, sneiddir
 • 3 msk karrýpaste (athugið að þau eru missterk, ég var með frá Blue Dragon)
 • 1 rautt chili, fínhakkað (takið fræin úr ef þið viljið ekki hafa réttinn sterkan)
 • 3 cm bútur af engifer, rifinn
 • handfylli af kóriander, laufin týnd af og stöngullinn hakkaður
 • 3 sætar kartöflur, skornar í 2 cm bita
 • 1 dós kjúklingabaunir (400 g), skolaðar
 • 1 dós hakkaðir tómatar (400 g)
 • 1 kjúklingateningur (eða grænmetisteningur)
 • 2 tsk fiskisósa
 • 1 dós létt kókosmjólk (400 g)
 • 400 g spínat (ég var með 200 g), skolað

Hitið ólífuolíu í stórum potti eða pönnu yfir miðlungsháum hita. Bætið rauðlauk og karrý saman við og steikið í 10 mínútur, þar til laukurinn er orðin mjúkur. Bætið chilí, engifer, kórianderstönglum, sætum kartöflum og kjúklingabaunum í pottinn og steikið í 5 mínútur. Bætið þá tómötum, kjúklingateningi og 2 dl af vatni út í og látið suðuna koma upp. Lækkið hitan og látið sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur undir loki. Takið lokið af og sjóðið áfram í 15-20 mínútur, þar til kartöflurnar eru soðnar og sósan hefur þykknað. Hærið kókosmjólkinni og fiskisósunni út í og sjóðið áfram í nokkrar mínútur. Hrærið spínatinu út í og sjóðið í 2-3 mínútur. Stráið kórianderlaufunum yfir og berið fram með hrísgrjónum.

Ef þið ætlið að frysta réttinn þá er best að láta hann kólna í pönnunni áður en hann er settur í box og frystur. Rétturinn geymist í 3 mánuði í frysti.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Pizzastangir með pepperoni

Þessi fyrsta sumarfrísvika mín hefur boðið upp á æðislegt veður og þrátt fyrir að hafa lofað uppskrift af pizzastöngum hingað inn þá hef ég ekki getað setið inni við tölvuna þegar sólin loksins lét sjá sig.

Ég gerði pizzastangirnar fyrir úrslitaleik HM og fékk fjölmargar fyrirspurnir um uppskriftina eftir að ég setti mynd af þeim í Insta story. Ég gerði mér einfalt fyrir og keypti pizzadeigið tilbúið, þetta sem er upprúllað. Þá þurfti bara að rúlla því út, setja fyllinguna í og síðan notaði ég smjörpappírinn sem pizzadeigið kemur á, til að brjóta deigið saman. Þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig og vakti mikla lukku yfir leiknum. Fullkomið föstudagssnarl!

Pizzastangir með pepperoni

 • 1 rúlla pizzadeig
 • 3-4 tsk ítölsk hvítlauksblanda
 • 1/2 tsk red pepper flakes
 • 6 msk rifinn parmesan
 • 3 msk ólífuolía
 • 1 bréf pepperoni (um 120 g)
 • rúmlega 1/2 poki rifinn mozzarella (um 120 g)

Hitið ofninn í 200°.

Blandið ítalskri hvítlauksblöndu, red pepper flakes og rifnum parmesan saman í skál.

Rúllið deiginu út (eða fletjið það út í ferhyrning ef notað er heimagert) og stráið helmingnum af kryddblöndunni yfir deigið. Skerið pepperoni í fernt og dreifið yfir helminginn af deiginu. Brjótið helminginn sem er ekki með pepperoni yfir pepperoni-helminginn, þannig að fyllingin verði inn í. Skerið deigið í stangir og snúið hverri stöng í nokkra hringi. Penslið yfir brauðstangirnar með ólífuolíu og stráið kryddblöndu yfir. Færið brauðstangirnar yfir á bökunarplötu með bökunarpappír og snúið krydduðu hliðinni niður. Penslið með olíu og stráið kryddblöndu yfir (þannig að það er olía og krydd bæði undir og yfir brauðstöngunum) og bakið í 8-10 mínútur, eða þar til brauðstangirnar eru orðnar gylltar og fallegar.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Tillögur að snarli yfir leikjum helgarinnar

Það styttist óðum í lokahnykkinn á HM þar sem síðustu leikirnir eru núna um helgina. Það sem ég hlakka til! Mér þykir þó lítið varið í að horfa á leikina án góðra veitinga. Hér koma því tíu góðar tillögur að léttu snarli til að njóta yfir úrslitaleiknum:

1. Pizza með karamelluseruðum lauki og pipruðu beikoni er skotheldur hittari. Skerið pizzuna í sneiðar og berið fram með köldum bjór. Einn lesandi sagðist bæta döðlum á þessa pizzu og það er ég búin að vera á leiðinni að prófa. Mig grunar að það sé klikkað!

2. Tómatcrostini með þeyttum fetaosti er öruggt kort sem slær alltaf í gegn. Ég gæti lifað á þessu!

3. Fræhrökkbrauð með sítrónu- og fetamauki er hættulega gott kombó. Það er hægt að útbúa bæði hrökkbrauðið og fetamaukið deginum áður sem mér þykir alltaf vera kostur. Helsti ókosturinn fyrir mig er hins vegar að ég ræð ekki við mig með þetta fyrir framan mig og borða alltaf manna mest.

4. Brauðtertan hennar mömmu er orðin „klassiker“ þegar kemur að stórviðburðum og hún hefur boðið upp á hana yfir ófáum landsleikjum. Það er alltaf stemning þegar mamma mætir með brauðtertuna og það væri ekki hægt að taka saman þennan lista án þess að hafa hana með.

5. Nutelladip og ávextir er vinsælt snarl sem hverfur yfirleitt strax ofan í krakkana.

6. Krydduð pretzel- og hnetublanda passar stórvel með köldum bjór og fótboltaleik.

7. Tortillaskálar með grilluðum tígrisrækjum, avókadó og sýrðum rjóma og kælt hvítvín… þarf að segja eitthvað meira??

8. Pekanhjúpuð ostakúla hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég gerði hana fyrst og ég býð upp á hana við hvert tækifæri sem gefst. Mér þykir passa best að bera hana fram með Ritzkexi.

9. Beikonvafin pulsubrauð er réttur sem kemur skemmtilega á óvart. Stundum er það einfalda bara best. Þetta hverfur alltaf hratt af borðinu og vekur alltaf lukku.

10. Beikonvafið brauð með rjómaosti, döðlum og valhnetum er einfaldlega klikkgott og passar við öll tilefni

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í