Marmara-bananakaka

Mér finnst ég hafa hrúgað ansi mörgum uppskriftum af bananakökum hingað inn og held nú áfram að bera í barmafullan lækinn. Það er bara ekki hægt að eiga of margar uppskriftir af bananakökum. Þær geymast vel en klárast þó alltaf strax. Ég baka því oftast tvær í einu því ég veit að fyrri kakan klárast samdægurs. Þessi uppskrift kemur frá Smitten Kitchen og er jafn dásamleg og allt sem kemur þaðan.

Marmara-bananakaka

  • 3 stórir þroskaðir bananar
  • 1/2 bolli (115 g) smjör, brætt
  • 3/4 bolli (145 g) ljós púðursykur
  • 1 stórt egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/4 tsk salt
  • 1 bolli (130 g) plús 1/4 bolli (35 g) hveiti
  • 1/2 tsk kanill
  • 1/4 bolli (20 g) kakó
  • 3/4 bolli (130 g) súkkulaðidropar (eða hakkað súkkulaði)

Hitið ofn í 180° og smyrjið formkökuform.

Bræðið smjörið og stappið bananana saman við það. Hrærið púðursykri, eggi, vanilludropum, matarsóda og salti saman við. Bætið 1 bolla (130 g) af hveiti saman við og hrærið snögglega saman við deigið.

Setjið helminginn af deiginu í aðra skál (þarf ekki að vera nákvæmt mál en helmingurinn af deiginu er um 365 g, veltur þó á stærðinni á bönununum). Hrærið því sem eftir var af hveitinu  ásamt kanilnum saman við annan helming deigsins. Hrærið kakó og súkkulaðibitum saman við hinn helming deigsins.

Setjið stórar doppur af deigunum í botninn á forminu (það getur verið gott að miða við að setja einn lit í miðjuna á forminu og hinn sitt hvoru megin við). Setjið næsta lag af deigi þannig að ljóst deig fari yfir dökkt deig og öfugt. Endurtakið þar til allt deigið er komið í formið. Notið smjörhníf eða spaða til að blanda deiginu örlítið saman (það getur verið gott að miða við að gera áttur með hnífnum á tveim til þrem stöðum – passið að gera ekki of mikið!).

Bakið kökuna í 55-65 mínútur eða þar til prjónn sem hefur verið stungið í kökuna kemur hreinn upp (það má þó gera ráð fyrir að það komi brætt súkkulaði á hann). Látið kökuna standa í forminu í smá stund áður en hún er tekin úr því.

Uppáhalds bananabrauðið

Þetta bananabrauð hefur lengi verið í uppáhaldi og óhætt að segja að það er uppáhalds brauð strákanna. Þeir biðja mig oft um að baka það og ef ég á banana sem hafa séð betri daga þá nýti ég þá alltaf í þetta brauð. Brauðið klikkar aldrei, er alltaf mjúkt, verður aldrei þurrt og er alltaf jafn ljúffengt.

Þessa vikuna byrjuðum við Öggi að vinna aftur eftir sumarfrí og Malín er enn í Svíþjóð. Strákarnir hafa því verið einir heima á daginn. Eftir fyrsta daginn sá ég að þeir höfðu ekki haft mikið fyrir að fá sér að borða. Þar sem ég átti banana á síðasta snúningi þá ákvað ég að baka bananabrauðið fyrir þá. Þeir voru búnir að vera úti í garði að tjalda með Gumma vini sínum allt kvöldið og þegar þeir komu inn fengu þeir sér nýbakað brauð og mjólk. Þegar Gummi fór heim kvaddi hann með þeim orðum að hann ætlaði að biðja mömmu sína um að baka þetta brauð (Erna, hér er uppskriftin 🙂 ). Ég skar síðan restina af brauðinu í sneiðar og setti í plastpoka. Það var ekki að spyrja að því, brauðið var búið þegar ég kom úr vinnunni daginn eftir.

Uppskriftin hefur verið svo lengi í fórum mínum að ég man ómöglega hvaðan hún kemur en ég hef skrifað við hana að brauðið eigi að geymast vel. Það hefur þó aldrei reynt á það og ég held að ég hafi í lengst átt það í hálfan sólarhring.

Mér finnst gott að baka brauð á kvöldin því það tekur enga stund að hræra í þau og síðan er hægt að slappa af yfir sjónvarpinu á meðan brauðið bakast í ofninum. Það er líka fátt eins notalegt og nýbakað brauð með kvöldkaffinu.

Bananabrauð

  • 2 stórir þroskaðir bananar
  • 50 gr smjör
  • 2 egg
  • 2 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 1/2 dl mjólk
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk kanill

Hitið ofinn í 175°. Bræðið smjörið og látið kólna aðeins. Hrærið egg og sykur þar til létt og ljóst. Bætið hveiti, lyftidufti, vanillusykri og kanil í deigið og blandið vel.  Bætið smjöri og stöppuðum banönum og mjólk í deigið og blandið vel.  Setjið deigið í smurt brauðform (ég smyr oft formið og velti síðan haframjöli um það) og bakið í 40-50 mínútur.